19.12.1960
Efri deild: 44. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

134. mál, efnahagsmál

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Sú gífurlega hækkun á vöxtum, sem varð í byrjun þessa árs, hefur orðið til þess að lama verulega athafnalífið í landinu. Þessi vaxtahækkun hefur bitnað hart og áberandi á sjávarútveginum og öðrum framleiðsluatvinnuvegum. En vaxtahækkunin hefur líka komið annars staðar hart við, og skal ég þar aðeins minna á byggingastarfsemina í landinu.

Stjórnarandstæðingar hafa nú þessa dagana, þegar þetta frv. hefur verið til umr. í hv. Nd. og hér í þessari hv. d., leitazt við að koma fram brtt., sem fólu í sér nokkra lækkun á útlánsvöxtum. Þessar till. hafa verið dálítið mismunandi. En það er alveg sama, hvort farið hefur verið fram á meiri eða minni lækkun vaxtanna, þá hafa hv. stjórnarsinnar fellt þær allar. Ég hygg þó, að það séu ekki aðeins við stjórnarandstæðingar hér á þingi, sem teljum vextina, eins og þeir eru nú, til tjóns fyrir atvinnulífið í landinu, heldur muni allur almenningur í landinu álita það og flestir atvinnurekendur einnig. Og mér er nær að halda, að jafnvel hæstv. ríkisstj. sé þeirrar skoðunar, að þessir háu vextir geti ekki gengið öllu lengur.

Nú er þetta mál til síðustu umr. hér á hinu háa Alþingi, það er til síðustu umr. í síðari deild. Ég vildi þess vegna enn einu sinni minna á þetta, gera þetta að umtalsefni og leggja fram eina tillöguna enn, og sú till. gengur skemmst af öllum þeim till., sem hér hafa verið lagðar fram.

Mínar brtt. eru tvær, við 31. og 32. gr. laganna um efnahagsmál. Fyrri till. felur það í sér, að almennir útlánsvextir skuli lækka um 2%. Ég bið hv. þdm. að taka eftir því, að hér er aðeins farið fram á 2% lækkun, ef það gæti orðið til þess, að hv. þdm. allir gætu sameinazt um afgreiðslu á þessari till. Hin till. er þess efnis, að frá 1. jan. 1961 skuli vextir af afurðavíxlum framleiðsluatvinnuveganna eigi vera hærri en 4% fyrstu 6 mánuði, en 1/2% hærri, ef framlengdir eru; enn fremur um, að Seðlabankinn skuli skyldur að endurkaupa víxla vegna afurða og lána, sem nemur 67% af áætluðu útflutningsverðmæti framleiðslunnar. Vextir Seðlabankans af slíkum lánum skulu eigi vera hærri en 2%.

Ég vildi nú mega leggja þessar till. fram og vænti þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þeim.

Ég hefði að lokum viljað fara fram á það, ef hæstv. sjútvmrh. heyrir mál mitt, hvort það sé til of mikils mælzt, að hann láti heyra sitt álit á þessum tveim tillögum og þeim lækkunum á vöxtum, sem í þeim felast, áður en gengið verður til atkvæða.

Herra forseti. Ég beindi tilmælum til hæstv. sjútvmrh. í lok máls míns áðan. Hann mun ekki hafa heyrt það mál, sem ég flutti hér, en það er fljótsagt, að ég vil nú gera lokatilraun, þrautatilraun til þess, að Alþ. geti sameinazt um lækkun á þeim gífurlegu útlánsvöxtum, sem nú hafa tíðkazt um nokkurra mánaða skeið. Í þessum till., sem ég legg hér fram og eru tvær, legg ég til, að almennir útlánsvextir skuli lækka um 2% frá því, sem þeir eru nú. Í öðru lagi legg ég til, að vextir af afurðavíxlum framleiðsluatvinnuveganna skuli ekki vera hærri en 4% fyrstu 6 mánuði, en 41/2 %, ef framlengdir eru. Þetta er um afurðavíxlana. Enn fremur er svo tekið fram, að vextir Seðlabankans af lánum í þessu sambandi skuli eigi vera hærri en 2%. Mér finnst hér farið svo vægt í sakir og varlega, að ég get varla hugsað mér, að hæstv. ríkisstj. ætli sér að hafa vexti hærri á næsta ári en hér er farið fram á, og ég vildi mælast til þess við hæstv. sjútvmrh., hvað hann hefði um þessar till. að segja, áður en til atkvæða er gengið.