21.11.1960
Efri deild: 25. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

85. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það var aðeins um eitt atriði, sem ég vildi spyrja frsm. hv. n. Það er í 3. gr. frv., þar segir: „Stjórn sjóðsins, er nefnist bjargráðastjórn, skipa ráðuneytisstjórinn í félagsmálaráðuneytinu, sem er formaður stjórnarinnar, formaður Búnaðarfélags Íslands, forseti Fiskifélags Íslands og formaður Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Samkvæmt þessu er fjögurra manna stjórn fyrir þessum sjóði. Ég býst við, að þetta sé fremur óvenjulegt, að sjóður hafi fjögurra manna stjórn. Ég hef hins vegar ekki rekizt á neitt ákvæði í þessu frv., sem kveður á um það, hvernig að skuli fara, ef jöfn eru atkvæði í þessari sjóðsstjórn. Þessar stofnanir, sem eiga að nefna til menn í stjórnina, er ekkert við að athuga, þetta eru landsstofnanir. En sjálfsagt gætu komið fleiri til, sem mættu eiga þarna hlut að, og væri að mínum dómi enginn vandi að finna hliðstæða stofnun, sem gæti nefnt fimmta manninn, svo að þarna væri fimm manna stjórn. Ég verð að segja, að ég kann fremur illa við þetta ákvæði og tel það óvenjulegt, og ef það á að standa, þá hefði mér fundizt, að þarna hefði þurft að vera ákvæði um það, hvernig skuli fara að, ef jöfn atkvæði yrðu í sjóðsstjórninni.