02.12.1960
Efri deild: 31. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

85. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Í stjórn bjargráðasjóðs eru nú þrír menn. Þeir eru ráðuneytisstjórinn í félagsmálaráðuneytinu, formaður Búnaðarfélagsins og forseti Fiskifélagsins. Í þessu frv., 3. gr., er gert ráð fyrir, að einum manni verði bætt í stjórnina, þannig að þeir verði fjórir eftirleiðis. Er gert ráð fyrir því í frv., að formanni Sambands ísl. sveitarfélaga verði bætt í stjórnina. Því var hreyft hér við 2. umr. í hv. d., að þetta væri ekki að öllu leyti eðlilegt, m.a., að ekki væri æskilegt, að jöfn tala væri í stjórninni. Ég fyrir mitt leyti fellst á þetta, tel langtum eðlilegra, að það sé látið standa á stöku, að í þessari stjórn verði eftirleiðis annaðhvort 3 menn eða þá 5.

Mér hefur dottið í hug, hvort ekki væri æskilegt, að einn fulltrúi frá samtökum launþega ætti sæti í þessari stjórn og þá fyrst og fremst fulltrúi frá stærstu launþegasamtökunum, Alþýðusambandi Íslands. Vissulega snertir það mál, sem þetta frv. fjallar um, mjög hagsmuni allra vinnandi stétta og þá einnig verkamanna og annarra launþega. Það er talað um, að til mála komi að veita hjálp úr þessum sjóði, þegar hallæri ber að höndum í sveitarfélögum eða sýslum vegna óvenjulegra harðinda, m.a. langvarandi aflaleysis. Mér finnst því í raun og veru ekki óeðlilegt, að þessi samtök, samtök launþeganna, eigi sinn sérstaka fulltrúa í þessari stjórn. Þess vegna vil ég stinga upp á, að ákvæðinu um stjórnina í 3. gr. verði breytt á þann veg, að í stjórninni verði 5 menn, þeir sömu og taldir eru í frv. að viðbættum forseta Alþýðusambands Íslands, og ég leyfi mér að leggja fram skrifl. till. þess efnis, og mundi þá samkv. þeirri tillögu 3. gr. hljóða svo:

„Stjórn sjóðsins, er nefnist bjargráðastjórn, skipa ráðuneytisstjórinn í félagsmálaráðuneytinu, og er hann formaður stjórnarinnar, formaður Búnaðarfélags Íslands, forseti Fiskifélags Íslands, forseti Alþýðusambands Íslands og formaður Sambands íslenzkra sveitarfélaga.“

Ég vænti þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir þessari tillögu, þannig að hún megi berast upp nú við 3. umr.