02.12.1960
Efri deild: 31. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

85. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls benti ég á, að ekki væri venjulegt né viðkunnanlegt, að stjórn opinberra stofnana sé skipuð fjórum mönnum. Ég held meira að segja, að það megi teljast til undantekninga, ef ekki einsdæmi, að það sé. Að vísu man ég eftir einni nefnd, opinberri nefnd, sem er skipuð 6 mönnum, þ.e.a.s. þar er ekki oddatala, það mun vera verðlagsnefnd, sem sett var með efnahagslögunum í fyrra. En í þeim lögum fylgdi það ákvæði, að ef ágreiningur yrði í þeirri n. og 3 yrðu á móti 3, þá hefði formaðurinn 2 atkv., og þar með var sett undir þann leka, að mál fengi ekki endanlega afgreiðslu eða jákvæða afgreiðslu í þeirri nefnd. Þó að ég vilji ekki benda á þetta til fyrirmyndar — og síður en svo, þá er þó séð við því, að mál falli niður, þ.e.a.s. yrðu felld og ekki mögulegt að ná jákvæðri afgreiðslu, ef slíkt kæmi fyrir, slík afstaða innan n. kæmi fram. Aðalatriðið fyrir mér var það, að oddatala yrði höfð í stjórn þessa sjóðs, eins og verið hefur, hvort sem það yrðu 3 eða 5. Auk þess hef ég annað á móti þessari skipan, sem nefnd er í 3. gr. frv., en þar segir, að formaður stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga skuli vera sjálfkjörinn í stjórn bjargráðasjóðs. Það er að vísu stundarfyrirbrigði, en þó er það svo, að þessi formaður er jafnframt framkvæmdastjóri bjargráðasjóðs núna. Og ekki finnst mér það viðkunnanlegt, að Alþingi skipi svo fyrir, að framkvæmdastjórinn skuli jafnframt vera í stjórn sjóðsins, einn af fjórum. Það er svo um alla framkvæmdastjóra, að þeir eiga að gera reikningsskap sinna gerða fyrir stjórninni, og þá er það vægast sagt óviðkunnanlegt, að framkvæmdastjóri sé jafnframt einn meðdómari um eigin verk, svo að eins og á stendur nú, þá verð ég að telja það óviðkunnanlegt, að Alþ. mæli svo fyrir, að hann eigi sæti í stjórninni. Hitt er annað mál, ef einhver stofnun kýs framkvæmdastjórann til þess og telur það viðeigandi, en að Alþingi geri það.

Ég hef flutt brtt. við þetta frv., að 3. gr. orðist þannig, að auk þeirra þriggja, sem verið hafa í stjórn bjargráðasjóðs, skuli koma tveir, sem kosnir eru á fulltrúaráðsfundi Sambands íslenzkra sveitarfélaga til 4 ára í senn. Ég vil ganga til móts við þau sjónarmið, að þessi stofnun eða þetta félag, Samband ísl. sveitarfélaga, hafi sín áhrif þarna innan stjórnar bjargráðasjóðs, og því datt mér það í hug, að vel færi á því, að fulltrúafundur kysi tvo menn í þessa stjórn. Þá væru orðnir fimm menn í stjórninni og áhrifa Sambands ísl. sveitarfélaga ætti þá að geta gætt enn betur en með að eiga einn mann af 4.

Nú hefur verið flutt skrifleg brtt. um það, að 5 skuli eiga sæti í þessari stjórn, en sá fimmti, umfram það, sem er í 3. gr. frv. nú, verði forseti Alþýðusambands Íslands. Ég hef síður en svo á móti því, að sú skipan verði á gerð, og tel, að Alþýðusamband Íslands megi telja jafnframbærilegan aðila eins og Fiskifélag Íslands og Búnaðarfélag Íslands, og hef því í raun og veru ekki á móti þeirri till., en sé ekki ástæðu til að taka mína tillögu aftur, fyrr en séð er, hvað verður um hina. Mér þykir líklegt, að sú tillaga eigi nokkurt fylgi, þar sem tveir menn úr þeirri nefnd, sem fjallar um málið, flytja hana. En hitt vil ég þó benda á, að ég geng nær vilja frv. sjálfs með því að leggja til, að tveir menn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga eigi þarna sæti, því að frv. ætlast til, að einn sé þó úr þeim félagssamtökum, þ.e.a.s. formaðurinn. Samband ísl. sveitarfélaga er félagsmálahreyfing eða félagasamtök, sem ná yfir allt landið. Á fulltrúaráðsfundum þess sambands eiga sæti 25 menn alls staðar að af landinu. Fulltrúaráðsfundurinn mun vera þannig samsettur, að úr Vestfirðingafjórðungi eru mættir 4 fulltrúar, úr Norðlendingafjórðungi 4, úr Austfirðingafjórðungi 2, úr Sunnlendingafjórðungi 10, og auk þess eiga þar sæti stjórnarnefndarmenn 5, svo að þar eru 25 fulltrúar á fundi alls staðar að af landinu. Mér sýnist því, að það mæli full sanngirni með því að taka það tillit til þessa sambands, að það eigi þarna nokkur ítök um stjórn bjargráðasjóðs. Þau mál, sem venjulega koma fyrir bjargráðasjóð, snerta oftast nær almenning, annaðhvort almenning í vissum landshluta eða jafnvel almenning í öllu landinu, svo að það er síður en svo, að fulltrúar frá þessum samtökum eigi ekki rétt á að fjalla um þessi mál, alveg eins og fulltrúi frá Fiskifélagi Íslands og Búnaðarfélagi Íslands.

Ég tel ekki þörf á að fjölyrða um þetta frekar á þessu stigi. Ég mun, eins og ég sagði áðan, sætta mig vel við, að hin skriflega brtt. verði samþykkt, en tel ekki ástæðu til að taka mína brtt. aftur, fyrr en ég sé, hvernig fer um hina.