30.01.1961
Neðri deild: 52. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

85. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Með frv. því, sem hér liggur fyrir á þskj. 149, verða gerðar fjórar meginbreytingar á lögum um bjargráðasjóð, ef frv. nær fram að ganga.

Í fyrsta lagi hækka framlög sveitarfélaga til sjóðsins úr 2 kr. á íbúa í 5 kr., og framlag ríkisins hækkar að sama skapi. Þegar sjóðurinn var stofnaður árið 1913, var gjald sveitarfélaga til hans 25 aurar á íbúa, og ríkissjóður greiddi jafnmikið á móti því. Þetta hélzt til ársins 1950, en þá var gjaldið hækkað í 2 kr. á íbúa frá hvorum aðila, og hefur það verið óbreytt siðan þrátt fyrir mikla röskun á verðgildi peninga. Með þeirri breytingu, sem lagt er til að verði á gjaldinu, má áætla, að tekjur sjóðsins verði um 1.8 millj. kr. á ári á næstunni.

Í öðru lagi verður fjölgað í stjórn sjóðsins um einn mann, og skal hann vera frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Þykir þessi breyting eðlileg með tilliti til þess, að hvert sveitarfélag á séreign í sjóðnum og lán úr honum eru veitt samkvæmt tili. sveitarstjórna og með ábyrgð sveitarsjóða.

Í þriðja lagi gerir frv. ráð fyrir þeirri breytingu, að sjóðsstjórnin ráði framkvæmdastjóra bjargráðasjóðs, í stað þess, að hann hefur verið skipaður af ráðherra samkvæmt gildandi lögum.

Í fjórða lagi er rýmkuð heimild sjóðsstjórnarinnar til lánveitinga, en þó því aðeins, að handbært fé sjóðsins verði meira en ætla megi nauðsynlegt til hallærislána eða styrkja samkvæmt a- og b-lið 9. gr. frv., sem eru efnislega samhljóða gildandi ákvæðum. Fram til þessa hefur bjargráðasjóður einungis mátt veita hallærislán eða styrki. Mörg sveitarfélög hafa aldrei þurft á slíkum lánum að halda, og hafa sérsjóðir þeirra í bjargráðasjóði safnazt fyrir. Frv. gerir ráð fyrir, að framvegis verði heimilt að lána sveitarfélögum úr sjóðnum gegn ríkisábyrgð eða annarri öruggri tryggingu, og mun þá vera átt við það, t.d., að lán megi veita til þeirra framkvæmda sveitarfélaga, sem styrks njóta að lögum úr ríkissjóði, ef sveitarfélögin tryggja endurgreiðslur slikra lána með ávísun á væntanleg framlög ríkissjóðs.

Ég leyfi mér að mæla með því í. h. heilbr.- og félmn., að frv. verði samþykkt.