17.12.1960
Efri deild: 41. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

112. mál, ríkisreikningurinn 1959

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hafði haldið, allt þangað til menn voru að fara úr húsinu í gær, efrideildarmenn, að fjhn. hefði ekki klofnað í þessu má]i. Nm. voru sammála um, að æskilegt væri, að ríkisreikningur lægi sem fyrst fyrir, eftir að fjárhagsári lýkur, en hins vegar virtist þeim líka koma saman um það, að því er þennan reikning snertir, þá væri helzt til hratt farið til þess, að talizt gæti viðkunnanlegt fyrir Alþingi að taka við honum og samþ. hann.

Frsm. hafði verið kosinn hv. 6. þm. Norðurl. e., sem var að gera hér grein fyrir meirihl: nefndarálitinu áðan, en þegar ég sá álit það, sem hann hafði samið, þá virtist mér ekki koma nægilega skýrt fram í því, eins greinilega og ástæða væri til, að nefndin teldi, að reikningurinn væri ekki það vel undirbúinn, að svo mætti endurtakast, og þess vegna skrifaði ég ekki undir nál., þegar komið var með það til mín. Hins vegar bjóst ég við því eftir venju, að leitað mundi samkomulags um orðalagsbreytingar, svo að allir gætu skrifað undir. En meiri hl. skeytti því ekki og gaf sig fram, eins og nefndin hefði klofnað í meiri hl. og minni hl. Sama niðurstaða varð hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., þegar hann sá nál., og skoðuðum við það þó sinn í hvoru lagi. Ég vissi sem sagt ekki um þetta, að ekki yrði leitað samkomulags um orðalag, fyrr en seinast í gær, og þess vegna er það, að nú liggur ekki minnihl. nefndarálit fyrir. Að vísu var það samið og afhent til prentunar í morgun, en skjalavörðurinn var að tilkynna mér það áðan, að fyrir einhver mistök í prentsmiðjunni væri það enn óprentað.

Hv. frsm. meiri hl. minntist á það réttilega áðan, að yfirskoðunarmenn hefðu í einni sinni athugasemd skýrt frá því, að hin umboðslega endurskoðun væri langt á eftir. Þetta er í 42. aths. yfirendurskoðunarmanna frá 14. okt. í haust, og ég vil nú — með leyfi hæstv. forseta — lesa upp þessa 42. aths., hún er á þessa leið:

„Yfirskoðunarmönnum barst ósk um það frá fjmrh., að hraðað yrði yfirskoðun ríkisreikningsins fyrir árið 1959, eftir því sem unnt væri. Við þessum tilmælum vildu yfirskoðunarmenn verða, eftir því sem þeim væri mögulegt. Við yfirskoðun reikningsins kom í ljós, að umboðslega endurskoðunin átti mjög mikið eftir að endurskoða og ef yfirskoðunarmenn hefðu átt að bíða eftir því, að því verki væri lokið, hefði reikningurinn ekki getað verið afgreiddur frá þeim fyrr en löngu síðar. Fyrir þessar sakir hurfu yfirskoðunarmenn að því ráði að afgreiða reikninginn frá sér, svo fljótt sem þeim var mögulegt. Skv. grg. frá ríkisendurskoðuninni, dags. 12. okt. s.l., hafði hún lokið endurskoðun reikninga fyrir árið 1959 frá 15 aðilum, en hins vegar voru aths. við þá óafgreiddar. Endurskoðun var ólokið á reikningum 42 aðila.“

Þannig stendur þá á, að af 57 aðilum, sem endurskoðunin átti að fara fram hjá, var búið að endurskoða hjá 15, þó ekki að leggja fram aths. yfir þá endurskoðun eða skýrslu um þá endurskoðun, en eftir var að ljúka endurskoðun hjá 42 aðilum. Sem sagt: það var búið að endurskoða hjá 15/57 af aðilunum.

Ég lít svo á fyrir mitt leyti, að þó að það sé vafalaust rétt, að það getur varla verið hægt að bíða eftir því, að öll endurskoðendakurl séu komin til grafar, þegar ríkisreikningur er lagður fyrir Alþingi, þá þurfi þarna að setja einhver lágmarkstakmörk. Það hljóta að vera takmörk fyrir því, hvað sæmilegt er að bjóða Alþingi upp á til staðfestingar lítt endurskoðaða reikninga. Það er sjálfsagt rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að það hefur aldrei komið fyrir áður, að reikningur lægi svona fljótt fyrir, svona skammt væri liðið frá fjárhagsárinu, þegar reikningurinn fyrir það er lagður fyrir. En vafalaust er hitt rétt líka, að það hefur aldrei komið fyrir áður og enginn hefur fært sönnur á það, að svo skammt væri komið endurskoðuninni, sem augljóst er að stendur á bak við þennan reikning. Ég tel fyrir mitt leyti, að það þurfi að koma skýrt fram frá þeirri n., sem fjallar um þennan reikning, að þó að hún láti við svo búið standa og leggi til, að reikningurinn sé samþ., þrátt fyrir það, hvernig í pottinn er búið, þá megi það ekki verða regla framvegis að hraða svo útgáfu reikningsins, að slíkt sé til staðar, að ekki sé búið að endurskoða að meira leyti en þessu. Ég hygg, að það megi fullyrða, að það muni ekki tíðkast hjá neinu stóru fyrirtæki, að reikningur sé staðfestur, ef endurskoðun á svona langt í land.

Það er ákaflega gott að fá reikninginn sem fyrst til athugunar á Alþingi, eða áður en hann er orðinn aðeins sögulegt plagg, eins og hv. frsm. meiri hl. sagði að stundum hefði verið með reikningana og má nokkuð til sanns vegar færa, þó að djúpt sé í ár tekið að vísu. En þó að þetta sé gott, að fá reikninginn fljótt, þá er það bæði óviðkunnanlegt og alveg ástæðulaust að leggja svo hráan reikning fyrir Alþingi sem þennan. En ég kalla, að hann sé hrár, þegar töluleg endurskoðun hefur aðeins lokið endurskoðun á 15/57 hlutum. Í minnihlutaályktun okkar tökum við fram, að við leggjum til, að reikningurinn verði samþ., en með fyrirvara þó. Við tökum fram, að við teljum, að sá fyrirvari verði að felast í samþykktinni, að það megi ekki endurtaka sig, að svona skammt sé komið endurskoðun reikningsins. Að því er snertir þann fyrirvara, sem ég sé að meiri hl, hefur hér, fyrirvara um það, að tölur kunni að breytast eitthvað að lokinni endurskoðun, þá má segja, að í hvert skipti, sem reikningur er samþykktur, jafnvel hvort sem tekið er fram eða ekki, þá felist eftir venju slíkur fyrirvari í samþykktinni. En að þessu sinni tel ég, að auk þess eigi þar að vera skýrt, að Alþingi setji á reglu um það, að reikningur skuli betur unninn að endurskoðun en þessi er.