21.11.1960
Efri deild: 25. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

5. mál, happdrætti fyrir Ísland

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv., sem er stjfrv., er flutt eftir ósk stjórnar happdrættis Háskóla Íslands. Í núgildandi lögum er svo fyrir mælt, að hlutatala í happdrætti háskólans megi vera 55 þús. hið mests. Stjórn happdrættisins óskaði eftir heimild til þess að hækka þessa tölu, og var þá um tvær leiðir að velja. Önnur var sú að breyta lögunum þannig, að hámarkstalan skuli ákveðin með reglugerðarákvæði. Hin leiðin að breyta í lögunum þessari upphæð, 55 þús., til hækkunar. Stjórn happdrættisins óskaði fremur eftir því, að fyrri leiðin væri farin, og í samræmi við það var frv. flutt, eins og það í upphafi var lagt fyrir þessa hv. d., þannig að hlutatalan í happdrætti háskólans skuli ákveðin í reglugerð. Hv. fjhn. þessarar d. mælti með samþykkt frv. óbreytts. Þannig var málið afgreitt út úr þessari hv. d.

Fjhn. Nd. óskaði heldur eftir, að hin leiðin yrði farin, að hækka hlutatöluna úr 55 þús. upp í 65 þús., en hafa hana lögboðna eftir sem áður.

Varðandi önnur happdrætti hefur þetta verið sitt á hvað. Þannig er í lögum um happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna höfð sú aðferð að ákveða hámarkstöluna með reglugerðarákvæði. Hins vegar í lögum um vöruhappdrætti Sambands ísl. berklasjúklinga er hámarkið lögákveðið. Ég tel í rauninni litlu skipta, hvor aðferðin er höfð, og tel enga ástæðu til að gera þetta mál að ágreiningsefni milli deilda og legg því til, að það verði samþ. og afgreitt héðan úr þessari hv. d. í því formi, sem Nd. afgreiddi það. Mér er kunnugt um, að stjórn happdrættis háskólans telur þá lausn mjög vel viðunandi. Það er jafnt eftir þeirri leið sem eftir hinni fyrri orðið við óskum háskólans um að hækka hámarkstölu hlutamiðanna. — Ég vil sem sagt leggja til, að þessi hv. d. samþykki frv., eins og það nú liggur fyrir.