06.02.1961
Neðri deild: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

112. mál, ríkisreikningurinn 1959

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð langt síðan Alþingi hefur átt þess kost að fjalla um ríkisreikning, sem er frá næsta ári á undan, og ég hygg, að síðasti reikningur, sem þannig hefur verið um á undan þessum, sé hinn frægi reikningur fyrir árið 1930, sem lá við borð að yrði felldur með jöfnum atkv. í hv. Ed., en var bjargað á mjög undarlegan hátt á því þingi. En hluturinn er sá, að það er mjög þýðingarmikið fyrir Alþ. að fá ríkisreikninga til meðferðar sem allra fyrst, því að ekkert er betur til þess fallið að sjá glöggt, hvernig fjármálaástandið er og fjármálastjórnin hefur verið.

Nú er það svo, að það er fyrir áhuga og eindregin fyrirmæli frá hæstv. fjmrh., að þessi reikningur var búinn svo snemma, að hægt var að leggja hann fyrir þetta þing. og hefði verið auðsjáanlega auðvelt að afgreiða hann fyrir áramót, eins og hæstv. ráðh. ætlaðist til. Ráðh. lagði svo fyrir við aðalreikningshaldarann, sem er okkar ríkisbókari, að reikningurinn væri til svo fljótt sem unnt væri og að endurskoðun væri hraðað, og hann fór fram á það við okkur yfirskoðunarmenn, að þegar við fengjum reikninginn í hendur, þá flýttum við okkar yfirskoðun svo sem okkur væri unnt. Þess vegna var það, að við fórum í það að yfirskoða reikninginn á venjulegan hátt og vorum að því eins og venjulega nokkuð margar vikur og lögðum í það svipaða vinnu og venja hefur veríð til, og við sáum ekki ástæðu til að neita þeim óskum fjmrh. að skila okkar athugasemdum svo fljótt sem við sæjum okkur fært.

En varðandi þær athugasemdir, sem hér hafa komið fram hjá hv. minni hl. fjhn. og í öllum aðalatriðum eru réttar, þá er það að segja, að þetta er ekkert nýtt í sögunni. Og vissulega verð ég að játa, að það hefur ekki veríð og er ekki gott lag á þessum hlutum, fyrr en ríkisendurskoðunin fylgir alveg með jafnóðum, þannig að ríkisreikningurinn og hans undirstöðureikningar geti, verið allir endurskoðaðir. En ef ætti að fylgja þeim fyrirmælum, sem hv. síðasti ræðumaður og hans félagi leggja til, að það væri aldrei skilað, athugasemdum frá yfirskoðunarmönnum, fyrr en búið væri að fullu tölulega að endurskoða allar stofnanir og starfsgreinar ríkisins, þá þori ég að fullyrða, að það hefði mörg ár að undanförnu orðið að geyma ríkisreikningana í 4, 5 og jafnvel 6 ár, því að á tímabili var endurskoðunin svo langt á eftir, að það voru hrein vandræði, og hún er langt á eftir enn. Vitanlega er geysilega mikið verk að fara tölulega í gegnum alla þessa reikninga, og þó að það séu nokkuð margir menn, sem eru í endurskoðunardeild stjórnarráðsins, þá hafa þeir ekki fram að þessu haft við, og þess vegna hefur það skeð á undanförnum árum, að það hafa mjög margir reikningar verið samþykktir þannig, að það hefur ekki verið búin hin tölulega endurskoðun umboðslegu endurskoðunarinnar. Ég, sem er búinn að vera yfirskoðunarmaður í 24 ár, og minn eldri samstarfsmaður, Jörundur Brynjólfsson, enn lengur, við höfum nokkuð mikla reynslu af því, hvernig þessum hlutum er hagað, og við höfum margsinnis, stundum opinberlega í okkar athugasemdum og ég held árlega í viðtali við endurskoðunarmennina, óskað eftir, að þeir hröðuðu sinni endurskoðun meira en verið hefur. Þetta hefur nokkuð færzt í betra horf þrátt fyrir þá skýrslu, sem hér liggur fyrir, en engan veginn er þetta gott.

Þá er að athuga, hvaða afleiðingar hefur það haft á undanförnum árum að samþykkja reikninga á þennan hátt, og hvaða afleiðingar getur það haft að samþykkja þennan reikning, eins og hann liggur fyrir. Því er til að svara, að yfirleitt er mjög lítið um, að það séu reikningsskekkjur hjá ríkisstofnunum og starfsgreinum ríkisins. Óstjórnin í okkar fjármálum hefur á undanförnum árum legið í öðru en því, að það væri rangt reiknað tekjur og gjöld ríkisins, og þó að það komi alltaf fyrir einstaka tölur, sem ekki eru að fullu réttar, þá er haft með því eftirlit af aðalreikningshaldara ríkisins, sem ég nefndi áðan, og okkur yfirskoðunarmönnum, að það sé leiðrétt á næsta reikningi. Og þó að við hefðum fyrir okkur hér eitthvað meira eða minna af tölum, sem þyrfti að leiðrétta í þeim stofnunum, sem er ekki búið að endurskoða, og þyrfti að breyta, þá er .ekki hægt að breyta því, fyrr en á næstu reikningum þessara stofnana. Það má segja, að þetta allt þurfi breytinga við, og það hefur verið skoðun okkar yfirskoðunarmanna lengi og alltaf, að í raun og veru ætti endurskoðunin að vera búin og við þyrftum að fá endurskoðunarskýrslu frá hverri stofnun. En þessi hefur orðið útkoman, og þess vegna hefur veríð til þess gripið, bæði af Alþingi og ríkisstj., að samþykkja reikningana margoft á undanförnum árum á þennan hátt, og það er enginn eðlismunur frá því, sem er, þó að það sé meira nú en stundum áður, sem er óendurskoðað.

Það er svo fleira í þessu sambandi, sem er mjög mikil ástæða til að athuga, og ekki sízt það, hve fljótt reikningum er lokað á hverju ári. Þessum reikningi fyrir árið 1959 var lokað fyrr en nokkrum öðrum í mörg undanfarin ár, og það er fyrir fyrirmæli fjmrh.

Í okkar fyrstu aths., sem hv. þm. hafa sjálfsagt athugað, er það tekið fram, sem okkur finnst óviðfelldið, að það er rúmlega 81 millj. talin í sjóði hjá ríkisféhirði frá áramótum, en var raunverulega ekki nema rúmar 7 millj. Hitt allt, 73 millj. rúmlega, er mismunur á tekjum og gjöldum á því tímabili, sem líður frá nýári og þangað til reikningnum er lokað, og þessi upphæð er hærri á þessu ári vegna þess, að hæstv. þáv. fjmrh., núv. utanrrh., lagði áherzlu á að innheimta tekjurnar og hann hélt meira í gjöldin fyrri hluta ársins en oft hafði áður verið, og vegna þess að reikningnum var lokað fyrr en oft endranær, var þessi mismunur miklu meiri en þegar komið er lengra fram á árið. En þannig er, að t.d. á reikningnum fyrir 1957 er síðasta sjóðfærsla inn á þann reikning framkvæmd 1. okt. 1958, og þannig hafði það verið á svipaðan veg um fjöldamörg ár. Á reikninginn 1958, sem var gerður af þáv. ríkisstj., var síðasta sjóðfærsla 30. júní 1959. En á þennan reikning, sem hér er til meðferðar, fyrir árið 1959, var síðasta sjóðfærsla 27. maí 1960. Þess vegna sjá allir menn, að þó að þetta sé engan veginn gott, þá hefur það þó færzt í miklu betra horf frá því, sem áður var, og raunverulega þyrfti það að komast í það horf, að bæði reikningum stofnana og ríkisreikningi væri lokað mjög snemma á árinu eða fljótt eftir áramót. En afleiðingarnar af þessu eru það ástand, sem um getur í okkar fyrstu aths. og ég var að nefna, og afleiðingin af þessu er líka sú, sem ég kem síðar að, að samkv. þessum reikningi er töluvert meira óinnheimt en árið áður, sem að nokkru leyti stafar af þessu.

Annars er það svo, að ég finn ástæðu til, úr því að svo stendur á, að ég er mættur hér á Alþ., þegar þessi reikningur er til meðferðar, að gera nokkru nánari grein fyrir því ástandi, sem þessi reikningur sýnir, og hvernig horfurnar voru og hvað það er, sem núv. hæstv. ríkisstj. fékk í hendurnar, því að afleiðingarnar af ráðstöfunum vinstri stjórnarinnar koma bezt fram á þessum reikningi fyrir árið 1959, og það er vegna þess, að þær stóru ráðstafanir, sem voru gerðar í maímánuði og eru samkv. lögum frá 29. maí 1958, giltu ekki nema hálft árið 1958, en þær giltu allt árið 1959, og þess vegna verða samanlögð gjöld það ár miklu hærri en þau höfðu áður verið.

Nú er það kunnugt, að fyrir nokkrum árum var ríkissjóðnum skipt í tvennt og að ég taldi að nokkru leyti í blekkingaskyni, sem síðar hefur og komið fram. Annar hlutinn var kallaður útflutningssjóður, hinn ríkissjóður. Útkoman á þessu var þannig, að gjöld á þessum reikningi samkv. sjóðsyfirliti urðu 1193.3 millj. en gjöld útflutningssjóðs á þessu sama ári urðu 1135.3 millj., samtals er þetta, sameiginleg gjöld þessara beggja sjóða, 2328.6 millj. Nú hefur því verið haldið fram af sumum mönnum, að það hafi gífurlega hækkað útgjöldin, eftir að sú stjórn hætti, sem þarna hafði aðaláhrifin. En þannig er því varið, að fjárl. fyrir árið 1960 voru 1501 millj. og þess vegna gjöldin samkv. þeim fjári. 827.6 millj. lægri en samanlögð gjöldin fyrir árið 1959. Og þetta er líka sú upphæð, nokkuð á 9. hundrað millj. kr., sem gengisbreyt. verkaði, því að ef ég man rétt, þá voru uppbætur á útfluttar sjávarafurðir á árinu 1959 um 800 millj. kr. En nú er þess að geta, að þó að þetta sé svona, þá er það bæði samkv. þessum reikningi og mörgum öðrum á undanförnum árum, að það eru mjög miklar upphæðir í gjöldum, sem ekki koma fram í samtölu reikningsins, og svo að skiptir á síðustu árunum hundruðum milljóna. Þetta liggur í því, að fjöldi af ríkisstofnunum og starfsgreinum er gerður upp og ekki færður inn í samtölu reikningsins nema mismunurinn á tekjum og gjöldum. Þannig er um allar stofnanir á 3. gr. fjárl., þannig er um suma skóla, þannig er um öll sjúkrahús, þannig er um raforkumálin, flugmálin, Tryggingastofnunina og margt annað, og sannleikurinn er sá, að það er mjög vafasamt, þó að því hafi ekki fengizt breytt á undanförnum árum, að öll gjöld og allar tekjur væri fært í samtölu reikningsins, enda var það svo, að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir, að ég hygg í umr. í Ed. í vetur, að hann hefði það í athugun eða léti athuga það, hvort ekki væri rétt að breyta þessu frá því, sem verið hefur. Nú er það svo, að t.d. eru rekstrargjöld símans á þessu ári orðin fullar 100 millj., rekstrargjöld útvarpsins 16.5 millj., rekstrargjöld raforkumálanna 46.6 millj., ef ég man rétt, og svo gæti ég haldið lengi áfram, að það er svo sem ekki, að það séu öll ríkisgjöldin talin í þeirri samlagningu, sem ég var hér að fara með.

Nú er það kunnugt, að á árinu 1959 starfaði bráðabirgðastjórn, minnihlutastjórn, sem varla var hægt að búast við neinum stórátökum af. Aðalhlutverk hennar var það að fleyta þrotabúinu, sem vinstri stjórnin skildi eftir, fleyta því yfir árið og fram yfir tvennar kosningar og fleyta því á nauðasamningagrundvelli. Þetta gerði stjórnin, og ég er sannfærður um, að ef hefði ekki orðið nein stjórnarbreyting fyrir ársbyrjun 1959, þá væru útgjöldin samkv. þessum reikningi miklu hærri en þau eru, og það er af tvennum orsökum. Í fyrsta lagi kom þessi bráðabirgðastjórn því til leiðar með stuðningi Sjálfstfl. í ársbyrjun 1959 að stöðva vísitöluskrúfuna á þá leið að skera niður mjög mikinn hluta af þeirri hækkun, sem annars hafði orðið á vísitölunni í desember. Þetta hafði sín áhrif. Í öðru lagi hefur það komið í ljós, að hæstv. fjmrh., núv. utanrrh., hefur haldið það mikið í gjöldin samkv. rekstrarreikningi, að umframgreiðslur eftir honum hafa orðið minni á þessu ári hlutfallslega en á nokkru öðru ári lengi áður, eða rúmar 18 millj. á móti 63 millj. árið áður. Þetta sýndi, að það var þó þarna töluverð viðleitni til þess að draga úr gjöldum. En því miður náði þessi viðleitni ekki eða virðist ekki hafa náð til stofnananna í 3. gr. fjárl., eins og fjáraukalögin, sem fylgja þessum reikningi, sanna, því að umframgreiðslurnar á þeim stofnunum samtals eru rúmlega 27 millj. kr., og þar eru sumar þessar stofnanir, sem um fjöldamörg undanfarin ár hafa aldrei hirt um það að fylgja fjárlögum, sem við yfirskoðunarmenn höfum lengi álitið að væri hrein óhæfa, og þar hefur það sannazt, að ríkisútvarpið er þó þeirra allra verst.

Þá kem ég að því, sem er annað aðalatriðið og hefur alltaf verið í okkar yfirskoðun, og það er að fara í gegnum umframgreiðslur, fara í gegnum það, hvernig er fylgt fjárlögum og lögum, því að það er eitt aðalatriði í starfsemi yfirskoðunar að kanna það, og við höfum árlega gert um það verulegar athugasemdir, og hin hliðin er svo að athuga um skuldaskipti og útlán og ábyrgðir ríkisins.

Um óinnheimtar tekjur er það að segja, að sú skýrsla samkv. þessum reikningi er býsna ljót, og til þess að gefa hv. þm. upplýsingar um það, hvernig því máli er varið, skal ég lesa upp hér nokkrar tölur um þær stærstu upphæðir, sem eru óinnheimtar af tekjum í lok þessa árs. Það er í fyrsta lagi hjá innheimtumönnum, sýslumönnum og tollstjóra og bæjarfógetum, 54.6 millj., það er hjá póstinum 4.9 millj., símanum 14.8 millj., áfengisverzluninni 9.1 millj., tóbakseinkasölunni 13 millj. og þar að auki víxlar, sem út höfðu verið gefnir og að nokkru leyti til þess að koma móti útistandandi skuldum frá fyrra ári og eru 6 milljónir. Hjá útvarpinu eru þetta 4 millj., hjá raforkumálunum 21.9 millj., skipaútgerðinni 4.9 millj., flugmálunum 11.7 millj., vélasjóði ríkisins 6.6 millj., hjá ýmsum stofnunum, sem saman er dregið í einni okkar aths., skólum og spítölum o.fl., eru 7 millj. Svo koma stærstu upphæðirnar, sem svona er ástatt um, og það er í allri tryggingastarfseminni. Þar er ástandið svo ískyggilegt, að við óttumst, að það geti ekki endað nema með einhverri skelfingu. Hjá Tryggingastofnuninni sjálfri eru útistandandi 73.7 millj., atvinnuleysistryggingasjóði 24.3 millj., lifeyrissjóði starfsmanna ríkisins 20.6 millj., togarasjómanna 3.9 millj. Ég tek nú hér ekki hinar smærri upphæðir af þessum óinnheimtu tekjum, en vildi, til þess að þingmenn glöggvuðu sig á, hvað hér er um alvarlegt ástand að ræða, segja frá því, hvernig þarna er umhorfs. En þegar slíkt á sér stað, þá er það, á hvaða sviði sem er, ein gleggsta víssan um óreiðu, ef það gengur svona til. Nú höfum við hvað eftir annað gert harðar athugasemdir og líka talað við nokkra af forstjórum ríkisins. En þetta hefur síður en svo farið batnandi, nema hjá einstöku stofnun, og í þetta sinn veit ég ekki til að nema einn forstjóri, sem var forstjóri áfengisverzlunar ríkisins, tæki þessu mjög skörulega, því að hann gaf út og sendi okkur afrit af greinilegu dreifibréfi, sem hann sendi öllum, sem skulduðu þeirri stofnun, og ég hef fengið frá honum siðan upplýsingar um það, að þar hafi innheimzt miklu betur og nokkrar milljónir komið inn vegna þessarar ráðstöfunar. Hann lýsti því, að hann krefðist þess, að skuldir ættu í sjálfu sér engar stað, og ef þær yrðu eldri en þriggja mánaða, mundi hann leggja á þær bankavexti. Eitthvað svona þyrftu fleiri forstjórar starfsgreina og stofnana að gera, en það hefur ekki viljað ganga rétt vel. En eins og ég sagði áðan, þá verða menn þó að taka tillit til þess varðandi þessar miklu útistandandi skuldir, að nokkuð af þeim stafar af því, hvað reikningnum er lokað fyrr á þessu ári en næsta ár áður.

Þá kem ég að öðru alvarlegasta fyrirbrigðinu í okkar ríkisbúskap hjá ríkissjóði, og það eru ríkisábyrgðirnar. Það er orðið svo ískyggilegt mál, að við, sem erum alltaf að athuga þessa hluti, erum farnir að halda, að þetta ætli að enda með einhverri skelfingu, því að það fer alltaf sívaxandi. Í lok árs 1959 eru ríkisábyrgðir samtals taldar 1572 millj., og það er ískyggilega há upphæð. En því miður er ekki þar með allt sagt, því að samkv. skýrslu, sem hér kemur frá hv. fjhn. Ed. og var útbýtt í dag og var raunar búið að segja frá í blöðum áður; eru ríkisábyrgðirnar orðnar samtals yfir 2200 millj. kr. Ég fór að grennslast um, hvernig getur á þessu staðið, og fékk þær upplýsingar, sem mátti náttúrlega vera skiljanlegt, að þetta geri það, að ríkisábyrgðaskuldirnar hafa verið umreiknaðar. Sem sagt, það er hvorki meira né minna en hátt á 7. hundrað milljóna, sem ríkisábyrgðirnar hækka við það að vera umreiknaðar samkv. núv. peningagengi, — og þegar þær eru komnar í 2200–2300 millj. kr., þá svarar það til þess að vera hér um bil jafnmikið og allt sparifé landsmanna. Nú hef ég gert það hv. þm. til fróðleiks, sjálfum mér líka, að aðgreina þessar ríkisábyrgðir, eins og þær eru taldar á þessum reikningi, aðgreina það, fyrir hvaða aðila þessar ábyrgðir eru, aðgreina það eftir héruðum, kaupstöðum og stofnunum. Þessi skýrsla er ekki mjög löng, og ég ætla að lesa þetta upp, svo að hv. þm. geti séð, hvernig ástandið er. Ég skal taka fram, að það eitt er í þessu að athuga, að það er á einstaka stað, sem stofnanir eru fyrir stærra svæði, en ég færi ábyrgðarskuldina, þar sem fyrirtækin eru heimilisföst. Og nú skal ég lofa ykkur að heyra þessa skýrslu, ég fer ekki í þessum upplestri lengra niður en í milljónir og hundruð þúsunda, nema þar sem um lægri upphæðir er að ræða alls.

Þá er það Reykjavík 101.3 millj.

Hafnarfjörður 30.3 millj.

Gullbringu- og Kjósarsýsla með Keflavík 33.4 millj.

Kópavogskaupstaður 6.8 millj.

Borgarfjarðarsýsla með Akranesi 58.9 millj. Mýrasýsla 3.2 millj.

Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla 26.1 millj. Dalasýsla 820 þús.

Barðastrandarsýsla 9 millj.

Vestur-Ísafjarðarsýsla 27.2 millj.

Norður-Ísafjarðarsýsla 3.7 millj. Ísafjarðarkaupstaður 13.3 millj.

Strandasýsla 2.4 millj.

Vestur-Húnavatnssýsla 614 þús.

Austur-Húnavatnssýsla 4 millj. Skagafjarðarsýsla með Sauðárkróki 10.7 millj. Siglufjörður 14.5 millj.

Eyjafjarðarsýsla með Ólafsfirði 9.6 millj. Akureyri 30.4 millj.

Suður-Þingeyjarsýsla með Húsavík 2.9 millj. Norður-Þingeyjarsýsla 4.9 millj.

Norður-Múlasýsla 11.9 millj.

Seyðisfjörður 19.4 millj.

Suður-Múlasýsla með Neskaupstað 33.7 millj. Austur-Skaftafellssýsla 3.2 millj. Rangárvallasýsla 46 þús.

Vestmannaeyjar 25.3 millj.

Árnessýsla 10.2 millj.

Svo koma bankar og aðrar ríkisstofnanir 872 millj. og byggingarsamvinnufélög 205 millj.

Ég skal taka fram, að það er dálítið einkennilegt og í sjálfu sér merkilegt, að það er ekki nema ein, alls ein sýsla á landinu, sem er að þessu leyti alveg hrein, þannig að það er ekki fyrir hana nein ríkisábyrgð, og það er Vestur-Skaftafellssýsla. Það má heita, að Rangárvallasýsla sé einnig hrein að þessu leyti, því að það er ekki nema milli 40 og 50 þús., sem þar er ríkisábyrgð, og tvær aðrar sýslur, sem er sáralítið fyrir og má kalla að sé ekki neitt, og það eru Dalasýsla og Vestur-Húnavatnssýsla. En þessar fjórar sýslur eru einmitt einlitustu landbúnaðarhéruðin. Og sannleikurinn er líka sá, að meginhlutinn af öllum þessum ríkisábyrgðum er fyrir aðra atvinnuvegi og aðrar stofnanir og til annarra framkvæmda en til landbúnaðarins. Sú eina stóra upphæð, sem er fyrir landbúnaðinn og ríkisábyrgð er fyrir, eru þær skuldir, sem sjóðir Búnaðarbankans, byggingarsjóður og ræktunarsjóður, eru í, og ég býst við, að því miður hljóti það að fara svo fyrr eða síðar, að einnig þar geti eitthvað af ábyrgðaskuldunum fallið á ríkissjóð. Sérstaklega er það vaxtamismunurinn, sem er gífurlega mikill á lögboðnum vöxtum þessara sjóða og þeim vöxtum, sem þeir verða að greiða, og það er að mínu áliti mjög eðlilegt, að sá mismunur verði að lokum að greiðast af ríkissjóði, og ekkert við því að segja, þó að það komi einhver greiðsla fyrir landbúnaðinn á þessu sviði, eins og kemur í stórum stíl, er þegar komið og lítur út fyrir að verði enn meira fyrir aðra atvinnuvegi og margvíslegar stofnanir.

Ég skal nú ekki hafa þessi orð fleiri. En að lokum vil ég endurtaka það, sem ég sagði snemma í þessari ræðu, að ég sé ekki, að það sé mjög mikill eðlismunur, þó að þessi reikningur væri afgreiddur, frá því, sem verið hefur, enda þótt fleiri stofnanir séu óendurskoðaðar af umboðslegu endurskoðuninni en stundum hefur áður verið.