02.02.1961
Efri deild: 51. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

177. mál, sameining Áfengsisverslunar og tóbakseinkasölu

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Undanfarna tvo áratugi hefur oft verið um það rætt að sameina Áfengisverzlun ríkisins og Tóbakseinkasölu ríkisins undir eina stjórn í sparnaðarskyni. Tvívegis hafa verið flutt frv. um það á Alþingi, en hvorugt náð fram að ganga. Það höfðu í sambandi við þau frv. ekki farið fram sérlega ýtarlegar athuganir á því, hversu mikill sparnaður kynni af þessu að verða.

Á síðastliðnu ári var framkvæmd rækileg og gagngerð rannsókn á því, hver sparnaður mundi verða að slíkri sameiningu. Sú athugun beindist á fyrsta stigi að því að sameina stjórn fyrirtækjanna, skrifstofuhald og bókhald, og þeirri rannsókn er lokið, og bendir hún til þess, að á þessum lið, stjórn, skrifstofuhaldi, bókhaldi, megi spara um 1 millj. kr. á ári við sameiningu fyrirtækjanna. Í öðru lagi er ljóst, að mikill sparnaður verður í húsnæðiskostnaði við það að sameina fyrirtækin. Það liggur ekki fyrir endanlega, hversu hárri upphæð það muni nema, en það er töluverð fjárfúlga árlega. Í þriðja lagi er svo talið víst, þótt ekki liggi endanlega fyrir nákvæm áætlun um það, að töluverður sparnaður verði einnig varðandi framleiðslu, vörugeymslu, afgreiðslu, flutning og útsendingu. Það er erfitt, vegna þess að nákvæmar tölur liggja ekki fyrir um það síðasttalda, að gefa upp neinar ákveðnar tölur í því efni, en þó mundi ég ætla, að á þriðju millj. ætti að mega sparast. árlega með sameiningu þessara fyrirtækja.

Eftir þá athugun, sem þegar hefur fram farið, þykir því alveg einsætt að gera þessa ráðstöfun og það hið fyrsta, og um það fjallar þetta frv., sem hér liggur fyrir um sameining rekstrar Áfengisverzlunar ríkisins og Tóbakseinkasölu ríkisins. Er þá ætlunin, að eftir sameininguna skuli þessi fyrirtæki rekin í einu lagi, með heitinu Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.

Ég vænti þess, að mál þetta fái góðar undirtektir, og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.