06.02.1961
Neðri deild: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

55. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft til meðferðar frv. til laga á þskj. 58 um breyt. á lögum nr. 40 1955, um Fiskveiðasjóð Íslands. Nefndin hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl., fjórir nm., leggur til, að frv. verði samþykkt, eins og fram kemur á nái. á þskj. 302, en einn nm., hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, skrifar undir það nái. með fyrirvara. Minni hl., hv. 3. þm. Norðurl. e., Gísli Guðmundsson, skilar séráliti og flytur brtt. við frv. á þskj. 320.

Með frv., ef að lögum verður, eru gerðar tvær breytingar á lögum um Fiskveiðasjóð Íslands. Hin fyrri er sú, að ábyrgð ríkissjóðs á skuldum fiskveiðasjóðs hækkar úr 50 millj. kr. í 150 millj. kr. eða jafngildi þeirra í erlendri mynt. Þessi breyting er nauðsynleg, vegna þess að skuldir sjóðsins í erlendri mynt, tryggðar með ríkisábyrgð, eru nú orðnar um 64 millj. kr. og því þegar komnar fram úr því, sem lög heimila, og sjóðurinn er nú í þann veginn að taka erlend lán til viðbótar. Um þessa breyt. út af fyrir sig hygg ég að ekki sé ágreiningur í sjútvn., að því er séð verður af nál. og brtt. hv. minni hluta. Síðari breytingin er sú, að sjóðnum verður heimilað að endurlána erlent lánsfé þannig, að áskilið sé, að ný lán úr sjóðnum endurgreiðist með breytilegri fjárhæð, sem nemi gengisbreytingu íslenzkrar krónu á lánstímanum, og það er þessi breyting, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. hefur gert ágreining um í sjútvn., sbr. nál. hans. Aðrir nm. telja óhjákvæmilegt að heimila fiskveiðasjóði að taka upp gengisáhættuákvæði í lánaskilmálum sínum, er svari til þess erlenda fjármagns, sem sjóðurinn hefur í útlánum hverju sinni.

Stjórn sjóðsins telur í umsögn sinni um þetta mál, sem birt er í nál. meiri hlutans, að líklegt sé, að sjóðurinn verði í framtíðinni að starfa að verulegu leyti með erlendu lánsfé. Einnig er upplýst, að sjóðurinn hafi þegar orðið að taka á sig 28 millj, kr. gengistap, en öll útlán sjóðsins hafa fram til þessa verið veitt í íslenzkum krónum, og enn fremur kemur það fram i bréfi stjórnar fiskveiðasjóðs, að þau erlendu lán, sem sjóðurinn á nú kost á og honum eru mjög nauðsynleg, verða beinlínis veitt með því skilyrði, að féð verði endurlánað með gengistryggingu.

Sjútvn. leitaði einnig umsagnar Landssambands ísl. útvegsmanna um þetta frv., og í svari stjórnar landssambandsins er mælt með samþykkt frv., af því að telja verði víst, að sú breyting, sem í því felst, muni gera fiskveiðasjóð betur færan til að gegna sínu mikilvæga hlutverki í framtíðinni.

Skuldir fiskveiðasjóðs í erlendri mynt eru nú, eins og áður var getið um, um 64 millj. kr., og ef nota þarf til fulls þá heimild, sem frv. gerir ráð fyrir, þá geta þær alls orðið 150 millj. kr.

Nefndarmenn kynntu sér hjá forráðamönnum sjóðsins, hvernig fyrirhugað væri að framkvæma heimildina til að setja gengisáhættuákvæði í skuldabréf sjóðsins. Þetta atriði skiptir verulegu máli, vegna þess að Fiskveiðasjóður Íslands starfar ekki eingöngu með erlendu lánsfé. Sjóðurinn hefur, sem betur fer, drjúgar tekjur í íslenzkri mynt. Þær tekjur reyndust sem hér segir árið 1959:

millj.

kr.

Útflutningsgjald (þar af 8.8 millj. kr. frá

1958) ..................................

30.9

Framlag ríkissjóðs ......................

2

Vaxtatekjur .............................

9.4

Alls

42.3

Árið 1960 voru tekjurnar þessar:

millj.

kr.

Útflutningsgjald (þar af 5.4 millj. kr. frá

1959) ..................................

37

Framlag ríkissjóðs ......................

2

Vaxtatekjur .............................

11.1

Alls

50.1

Hafa tekjurnar þannig hækkað s.l. ár um 7.8 millj. kr. frá árinu á undan, þ.e.a.s. útflutningsgjaldið hækkaði um 6.1 millj., en vaxtatekjurnar um 1 millj. og 700 þús. kr. Vil ég skjóta því hér inn í, að hækkun vaxtateknanna stafar ekki einungis af vaxtabreytingunni s.l. ár, heldur jafnframt af auknum útlánum sjóðsins. Einnig koma til ráðstöfunar hjá sjóðnum greiddar afborganir eldri lána, og var sú upphæð s.l. ár 20.4 millj. kr.

Það er þannig verulegt innlent fjármagn, sem sjóðurinn hefur til umráða á hverjum tíma, og teljum við, sem að nál. meiri hlutans stöndum, ekki ástæðu til að endurlána það fjármagn gegn gengistryggingu, enda er ekki farið fram á heimild til þess í frv. Innlenda fjármagnið endurgreiðist í sömu krónutölu og það er lánað, þótt gengi krónunnar kunni að vera fellt, og tekjur sjóðsins í krónutölu aukast við gengisfellingu vegna þess, hvernig tekjuöflun hans er háttað (útflutningsgjaldið). Sést þetta m.a. af tekjuaukningunni milli áranna 1959 og 1960, sem ég gat um áðan.

Allt öðru máli gegnir um erlent fé, sem sjóðurinn starfar með. Sjóðurinn skuldar það fé erlendis vegna þess, að honum hefur verið falið það hlutverk að hafa milligöngu um útvegun erlends lánsfjár fyrir viðskiptavini sína. Þessar skuldir vaxa í krónutölu við hugsanlega gengisfellingu, og af því að þær eru á nafni fiskveiðasjóðs, verður hann að sjá um greiðsluna. Hafi ekki verið viðhöfð sú varúð að endurlána hið erlenda fjármagn með gengisáhættuákvæðum í lánsskjölum, þá lendir gengistapið á fiskveiðasjóði eða ríkissjóði, sem ábyrgur er fyrir lánunum. Hefur fiskveiðasjóður þannig tapað 28 millj. nú þegar, eins og upplýst hefur verið. Slíku áframhaldandi tapi gæti sjóðurinn ekki mætt með öðru en innlendum tekjum sínum og höfuðstól, eða þá með því að láta ábyrgðaraðilann borga, þegar hans eigið fé væri þrotið, og gefur þá auga leið, að sjóðurinn yrði ekki mikils megnugur á því sviði, sem honum er ætlað, en það er efling fiskiflotans og fiskiðnaðarins. Ef svo færi fram, þá er bersýnilegt, að betra hefði verið að láta sjóðinn ekki hafa milligöngu um útvegun erlenda fjárins.

Það er þó með öllu ástæðulaust áð taka þetta verkefni af sjóðnum. Viðskiptavinir hans þurfa mjög á hinu erlenda lánsfé að halda, og sjóðurinn getur firrt sig áhættunni af gengisfellingu með því að koma henni fyrir, þar sem hún á heima, þ.e.a.s. hjá viðskiptavinunum. Þetta telur meiri hluti sjútvn. að beri að gera, hvað snertir erlent lánsfé, sem fiskveiðasjóður endurlánar. Til frekari stuðnings þessa sjónarmiðs má á það benda, að þegar fellt er gengi krónunnar, þá er vinningur að því fyrir þá, sem skulda í íslenzkum peningum, og um flesta viðskiptavini fiskveiðasjóðs mun svo vera háttað, að þeir geti talið fram verulegar skuldir. Þeir koma a.m.k. til með að skulda fiskveiðásjóði bæði innlent og erlent fé og af innlenda hlutanum, sem væri ekki gengistryggður, mundu þeir hafa vinning á móti gengistapinu á hinum erlenda hluta.

Fiskveiðasjóður Íslands er orðinn öflug stofnun, sem hefur átt mikilvægan þátt í uppbyggingu fiskiflotans og fiskiðnaðarins, og, það væri mesta skammsýni að halda þannig á málefnum sjóðsins, að tekjur hans og eignir hyrfu í gengis- eða vaxtatap. Þeir menn, sem slíkt vilja, virðast ekki sjá aðrar leiðir í fjármálum þjóðarinnar en áframhaldandi verðbólguþróun, sem leiðir til ófarnaðar, sbr. bitra reynslu okkar Íslendinga síðustu árin. Það er eindreginn vilji stjórnarflokkanáa að forða mikilvægustu stofnlánasjóðum atvinnuveganna, eins og fiskveiðasjóði, frá slíkri meðferð.

Til marks um mikilvægi sjóðsins fyrir sjávarútveginn og uppbyggingu hans, og um þann vanda, sem nú þarf að leysa á vegum sjóðsins, er þetta m.a.:

Í árslok 1959 voru heildarútlán sjóðsins 219.1 millj. kr. Í lok ársins 1960 voru útlánin 376.3 millj. kr. og hafa þannig, á s.1. ári aukizt um 157.2 millj. kr.

Útlánin um síðustu áramót skiptast þannig:

millj.

kr.

Lán gegn veði í skipum .. .... .....

332.3

Fasteignaveðslán ..... .. .....

40.0

Lán vegna skipa í smíðum

. . . .

4.0

Alls

376.3

Af þessari upphæð voru í árslok 1960 óútborguð lán 101,6 millj. kr., og er það 84 millj. kr. hærri upphæð en var óútborguð um næstu áramót þar á undan. Af þessum innstæðum lántakenda á sjóðurinn að greiða á þessu ári 341/2 millj. kr., og 1962 á að greiðast 31 millj. kr. Vitað er um 14 skip, sem komin eru til landsins og líklega 12 skip í smíðum erlendis, sem enn hafa ekki fengið lán hjá sjóðnum, og mun sjóðurinn þurfa að lána um 20 millj. kr. vegna þessara skipa, og vegna skipa og báta í smíðum innanlands er áætlað að þurfi 29 millj. kr. Vegna endurbyggingar, vélakaupa og tækjakaupa er talið að þurfi að lána um 35 millj. kr. Við þetta bætast svo lán út á fasteignir, afborganir erlendra lána og vextir, sem sjóðurinn þarf að greiða öðrum, og annar kostnaður, þannig að fjárþörf sjóðsins á þessu ári mun vera nálægt 130 millj. kr., ef hann á að geta sinnt verkefnum sínum, svo að viðunandi sé.

Áformað mun vera, að lántaka sjóðsins að þessu sinni verði 40 millj. kr., en greinilegt er, að meira þarf til, svo að sjóðurinn geti leyst þau verkefni af hendi; sem við blasa, þó að þessi lánsupphæð bætist við tekjur hans á árinu og eigið fé hans, sem nam um 12 millj. kr. um síðustu áramót.

Ég læt þetta nægja um starfsemi fiskveiðasjóðs og þann vanda, sem sjóðurinn þarf að leysa vegna geysilegra skipakaupa að undanförnu. Í þeim efnum hefur svo mikið verið að gert, að vera má, að talsvert dragi úr eftirspurn eftir lánsfé til skipakaupa í bili. En alltaf ganga gömul skip úr sér, og þörf er á nýjum skipum í þeirra stað. Hinn aukni skipakostur krefst einnig margs konar upphyggingar í landi í sambandi við, útgerðina, og benda má á ótal verkefni, sem æskilegt væri að fiskveiðasjóður gæti sinnt. Sjóðurinn þarf þess vegna ekki að kvíða verkefnaskorti, og það þarf að efla hann, en. ekki veikja.

Ég mun nú að lokum fara nokkrum orðum um brtt. og nál. hv. minni hl.

Mér skilst af brtt. og nál. hv. minni hluta, að hann telji sig koma til móts við það sjónarmið, að firra beri Fiskveiðasjóð Íslands áhættu með því að leggja til, að ríkissjóður skuli bæta sjóðnum gengistap, sem hann kann að verða fyrir af allt að 50 millj. kr. erlendri lántöku á þessu ári. Ég átti satt að segja von á meiri höfðingsskap hjá þeim ágæta fulltrúa Framsfl., sem flytur þessa till. Hvers vegna fylgir hann ekki stefnu flokks síns til fulls og leggur til, að ríkissjóður skuli greiða þær 28 millj. kr., sem fiskveiðasjóður hefur þegar tapað á því að endurlána erlent fjármagn? Hvers vegna leggur hann ekki til, að ríkissjóður skuli taka að sér að greiða allt gengistap, sem verða kann á þeim 150 millj. kr., sem nú á skv. frv. að heimila sjóðnum að taka að láni erlendis? Hvers vegna fylgir hann ekki fordæmi flokksbræðra sinna í hv. Ed., sem hafa lagt til á þskj. 75, að ríkissjóður taki að sér að greiða án nokkurrar endurgreiðslukröfu erlend lán, sem hvíla á Ræktunarsjóði Íslands og Byggingarsjóði sveitabæja, samtals að upphæð 160 millj. kr.? Hvers vegna leggur hv. 3. þm. Norðurl. e. ekki á sama hátt til, að ríkissjóður skuli greiða öll erlend lán Fiskveiðasjóðs Íslands, sem gætu samkv. frv. orðið 150 millj. kr.? Með þeirri hófsemi, sem hv. þm. sýnir í tillöguflutningi sínum, er hann vissulega á flótta frá þeirri meginstefnu flokks síns að loka augunum fyrir afleiðingum verðbólgu og gengisfalls með því að gefa út ávísanir á ríkissjóð og framtíðina og ýta þannig vandanum á undan sér óleystum.

Út af fyrir sig ber að fagna þessu fráviki hv. 3. þm. Norðurl. e. frá flokkslínunni. Það ber þess vott, að sá mæti maður gerir sér nú ljóst, að sú stefna, sem flokkur hans fylgir í þessum efnum, sé óheillastefna og frá henni beri að hverfa, þó að hann stigi ekki sporið að þessu sinni nema til hálfs af tillitssemi við flokk sinn. Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um fram komna brtt. hv. minni hl., en legg til, að hún verði felld.

Það skiptir að sjálfsögðu meginmáli, hvernig við skuli brugðizt, ef gengistap verður á erlendu fjármagni, sem íslenzkar lánsstofnanir hafa endurlánað, og er að þessu vikið í nál. hv. minni hl., þar sem bent er á, að þrír aðilar geti borið gengistapið hver fyrir sig eða allir að einhverju leyti. Þessir aðilar eru hlutaðeigandi lánsstofnun, lántakandi og ríkissjóður. Með afgreiðslu sinni á þessu máli sýnir meiri hl. sjútvn. skýrt og ótvírætt, að hann fylgir þeirri stefnu að láta lántakendur sjálfa bera gengisáhættuna, og er sú afstaða í fyllsta samræmi við stefnu hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. Annað mál er svo það, að nauðsyn ber til að leysa þann vanda, sem skapazt hefur vegna þeirrar glundroðastefnu liðna tímans, sem hefur stórskaðað stofnlánasjóði atvinnuveganna, og þann vanda hefur hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar sýnt á þessu þingi að þeir hafa vilja og getu til að leysa, þó að hv. Framsfl. standi alveg utan gátta. Stjórnarflokkarnir vænta þess að sjálfsögðu, að þótt sett verði gengisáhættuákvæði í lánsskjöl stofnlánasjóðanna. eftirleiðis, þá sé ekki þar með sagt, að þeir, sem fái endurlánað erlent fé hjá sjóðunum, þurfi endilega að bíða af því tjón vegna gengisfellingar. Það er von okkar, sem stjórnina styðjum, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til stöðvunar verðbólgunni, fái að þróast í friði, þannig að ekki þurfi að grípa til nýrrar gengisfellingar á næstu árum. Í trausti þess, að þetta takist,. legg ég til fyrir hönd meiri hl. sjútvn., að frv. verði samþykkt.