23.02.1961
Efri deild: 65. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

55. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti.. Eins og hv. frsm. meiri hl. sjútvn. hefur nú greint frá, náðist ekki samkomulag í sjútvn. um afgreiðslu þessa máls. Þrír nm. mæla með samþykkt frv. óbreytts. Einn var fjarverandi og tók ekki þátt í afgreiðslu málsins. En ég hef skilað sérstöku áliti um þetta mál.

Það eru tvenns konar breytingar á gildandi lögum, sem þetta frv. felur í, sér. Annars vegar að hækka ríkisábyrgðina fyrir lánum sjóðsins úr 50 millj. kr. upp, í 150 millj. kr. Hin breytingin er sú að heimila fiskveiðasjóði að setja gengisákvæði í skuldabréf þeirra lána, sem tekin eru í sjóðnum, svo að gengisáhættan hvíli á lántakendum, ef til gengisbreytingar kemur á lánstímanum.

Eins og segir í nál. mínu á þskj. 404, er ég samþykkur l. gr. þessa frv. Það er óhjákvæmilegt að hækka ríkisábyrgðina, svo að fiskveiðasjóður geti aflað sér viðbótarlána til þess að fullnægja eftirspurn ,sjávarútvegsins eftir lánum úr sjóðnum. Um þetta voru. allir sammála, og um þetta hygg ég að sé ekki ágreiningur hér á Alþingi. En það gegnir öðru máli um hina breytinguna, sem í, frv. felst. Hún er um það, hver eigi að bera þá gengisáhættu, sem af því stafar, að sjóðurinn tekur lán í erlendum gjaldeyri og lánar svo aftur út í íslenzkum krónum. Samkvæmt 2. gr. frv. er ætlazt til, að sú gengisáhætta hvíli á lántakendum að öllu leyti. Það á að heimila stjórn fiskveiðasjóðs að setja það ákvæði í skuldabréf fyrir þessum lánum, að upphæð skuldabréfanna breytist í samræmi við þær breytingar á, skráðu gengi íslenzku krónunnar, sem verða á lánstímanum. Þetta þýðir það, að ef t.d. útgerðarmaður kaupir sér fiskibát og tekur til þess lán í fiskveiðasjóði, við skulum segja 3 millj, kr., þá getur svo farið, að hann þurfi að endurgreiða þetta lán með 31/2 eða 4 millj. eða eitthvað meiri upphæð eftir því, hvort gengisbreyting hefur orðið og hve mikil hún er á lánstímanum.

Um þetta mundi gegna öðru máli, ef þetta væri lögmál, sem gilti almennt á lánamarkaðnum eða um lánveitingar til útflutningsframleiðslunnar yfirleitt, og að jafnframt væri tryggt, að hver gengislækkun væri útflutningsframleiðslunni til hagsbóta. En þessu er alls ekki til að dreifa. Það er fjarri því, að allar slíkar lánveitingar fari í gegnum fiskveiðasjóð eða að slíkum lánum fylgi almennt gengisáhætta, og skammt er þess, að minnast, að gengislækkun varð sjávarútveginum til helzt til lítilla hagsbóta.

Ákvæði þessa frv. um gengisáhættu, er nú á að leggja á herðar lántakendum, hljóta að hafa það í för með sér, að útvegsmenn og eigendur hraðfrystihúsa, sem starfa jafnvel hlið við hlið að framleiðslustörfum, búi við gerólík lánskjör í framkvæmd. Einn er háður gengisáhættunni, annar er það ekki. Einn getur orðið að taka á sig gengistap, sem nemur hundruðum þúsunda króna eða jafnvel milljónum, en annar, sem starfar á sama stað og í sams konar atvinnurekstri, getur sloppið algerlega við þessar byrðar.

Ákvæði 2. gr. þessa frv. um gengisáhættuna hafa verið rökstudd m.a. með því, að bæði stjórn fiskveiðasjóðs og stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna mæli með samþykkt frv. En það liggja fyrir tæmandi skýringar á því, hvernig muni standa á þessum meðmælum beggja þessara aðila. Þegar þetta frv. lá fyrir hv. Nd., var það sent til umsagnar beggja þessara aðila. Í svari stjórnar fiskveiðasjóðs til hv. sjútvn. Nd. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Skuldir sjóðsin í erlendri mynt, tryggðar með ríkisábyrgð, nema nú um 641/2 millj. kr. með núverandi gengi og eru þannig komnar yfir hið lögleyfða hámark. Af þeim ástæðum svo og vegna þess, að fyrirhugaðar eru nú erlendar lántökur með milligöngu Framkvæmdabankans og fyrir þeim sett það skilyrði, að féð verði endurlánað með gengistryggingu, mælir stjórn sjóðsins með því, að framangreint frv. verði samþ., enda á sjóðurinn ekki kost á öðrum lánum, eins og sakir standa.“

M.ö.o.: sjóðurinn átti ekki kost á öðrum lánum en erlendu lánsfé; og það var sett það skilyrði, að féð yrði endurlánað með gengistryggingu. Hvað átti þá sjóðsstjórnin að gera? Hverju átti hún að svara öðru en því að sæta þessum kostum, þegar við hana var sagt, að annaðhvort fengi hún þetta lán og með þessum skilyrðum eða ekki neitt? Auðvitað vildi hún ekki og gat ekki setið uppi fjárvana. Það var því augljóst, að sjóðsstjórnin átti engra kosta völ nema að taka því, sem hér var boðið fram. Þessi meðmæli stjórnar fiskveiðasjóðs segja því ekkert um það, hvort hún hefði ekki fremur viljað fara aðrar leiðir, hvað gengisáhættuna snertir, ef hún hefði átt þess kost, ef ekkert skilyrði hefði verið sett. En sjóðsstjórninni voru sett þessi skilyrði um gengisáhættuna, að hún skyldi hvíla á lántakendunum, og þar með voru aðrar leiðir útilokaðar.

Um meðmæli stjórnar Landssambands ísl. útvegsmanna geri ég ráð fyrir, að megi segja hið sama. Henni er kunnugt um það, að aðeins er um erlent lán að ræða, og henni er líka kunnugt um það, hvaða skilyrði eru sett fyrir þessu erlenda láni.

Báðir þessir aðilar setja það að sjálfsögðu ofar öðru að afla fiskveiðasjóði nauðsynlegs fjár til útlána og beygja sig því fyrir skilyrðunum, sem sett voru:

Það er óneitanlega vandamál að setja reglur um það, hvernig skuli mæta þeim áföllum, sem lántakendur erlends fjár verða fyrir, þegar breytt er skráðu gengi íslenzkrar krónu, en slíkar reglur þarf að setja og það sem fyrst. Atvinnurekendur, sem hér um ræðir, komast ekki hjá því að fá þessi stofnlán, annars geta þeir ekki komið sér upp þeim framleiðslutækjum, sem þeim eru nauðsynleg. Þeim er vísaður vegurinn á fiskveiðasjóð, annað þýðir ekki fyrir þá að fara, og þan fá þeir þessi svör, að lán geti þeir fengið, ef þeir taki á sig gengisáhættu, annars ekki. Auðvitað verða menn að sæta þessum kostum. Það er ekki um annað að ræða.

Með ákvæðum 2. gr. þessa frv., ef þau verða samþ. óbreytt, er stigið spor í þá átt að innleiða það sem reglu, þegar lánsstofnun tekur erlent fé til að endurlána í íslenzkum krónum, að gengisáhættan hvíli eingöngu á þeim, er þétta fé fá endurlánað. Þá reglu tel ég óviðunandi. Ekki ráða þessir lántakendur neinu um það, hvenær gengisbreytingar eru framkvæmdar, og þeir ráða heldur engu um það, hverjir hafa aðgang að innlendu lánsfé eða hverjir verða að sætta sig við erlent lánsfé með gengisáhættu.

Samkvæmt því, sem ég hef hér gert grein fyrir, flyt ég brtt, við 2. gr. frv. á þskj. 405, en hún er þess efnis, að ríkissjóður bæti fiskveiðasjóði það tap, sem sjóðurinn kann að verða fyrir vegna breytinga á skráðu gengi íslenzkrar krónu á allt að 50 millj. kr. erlendri lántöku á þessu ári. Ef slík till. yrði samþ., þá geri ég ráð fyrir, að það yrði til þess, að hraðað yrði undirbúningi að því að setja reglur um það, hvernig skuli mæta hugsanlegum gengistöpum af erlendu lánsfé, sem síðan er endurlánað íslenzkum útflutningsatvinnuvegum. Með þessari till. er séð fyrir því, að fiskveiðasjóður geti tekið erlent lán, sem honum nægi til útlána á þessu ári, og án þess að stofna sér í fjárhagslega hættu vegna hugsanlegra gengisbreytinga. Það er því fyllilega náð því marki, sem annars er ætlazt til að gera með 2. gr. frv., þótt þessi brtt, sé samþ., og kæmi ekki að neina tjóni fyrir fiskveiðasjóð og ekki heldur fyrir væntanlega lántakendur þessara lána. En hins vegar mundi samþykkt þessarar till. vafalaust ýta undir það að undirbúa nýja skipun um þessi mál almennt.

Hv. frsm. meiri hl. drap hér á það áðan, að það væri svo að segja ekki um aðrar lánastofnanir að ræða en fiskveiðasjóð, sem nú lánaði stofnlán til sjávarútvegsins. Það er nokkuð til í þessu. Þó vil ég minna hann á það, að nú er verið að opna lánaflokka úr stofnlánadeild sjávarútvegsins og það í allstórum stíl, og ég man ekki eftir því, að það sé neinn stafur um það, að þar eigi gengisáhætta að koma til.

Hv. frsm. gat þess, að meiri hl. tæki undir þau sjónarmið Landssambands íslenzkra útvegsmanna að tryggja sjóðnum nægilegt fé. Ég tek engu siður undir þessi sjónarmið með minni brtt., því að ég tel það alveg tvímælalaust tryggt, að sjóðurinn geti fengið jafnmikið fé og hann þarf á að halda á þessu ári, þó að hún yrði samþ. Það er því öðru nær en ég vilji á nokkurn hátt hindra það, að fiskveiðasjóður hafi nægilegt fé til útlána. Það eina, sem ég fer fram á með minni till., er það, að í bili hlaupi ríkissjóður þarna undir bagga, svo að ekki þurfi að skella þessari gengisáhættu á lántakendur, en síðan verði þetta til þess, að undirbúnar verði reglur um slíka hluti. En verði þessi brtt. mín felld, sé ég mér ekki fært annað en greiða atkvæði gegn frv., þótt ég sé samþykkur 1. gr. þess, en það hef ég áður tekið fram, að ég er henni fyllilega samþykkur.