23.02.1961
Efri deild: 65. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

55. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Það eru einungis fá orð út af þessari seinni ræðu hv. frsm. meiri hl. n. Hann gat þess, að eignir þeirra, sem tækju á sig þessa gengisáhættu, hækkuðu líka í verði við gengisbreytingu, og það má segja, að það er nokkuð rétt, en ekki er það alltaf. Þó er það háð ýmsu, hvort eignirnar hækka nokkuð í verði við þetta. En ég vil benda honum á, að eignir hinna, sem enga gengisáhættu hafa tekið á sig, hækka nákvæmlega jafnmikið í verði, og það er þetta misrétti, sem ég tel að þurfi að leiðrétta.

Hann drap á það, að gengislækkanir væru oftast hugsaðar til hagsbóta fyrir útflutningsframleiðsluna, og rétt er það. En það er bara oft svo, að það er engin trygging fyrir því, að hagsbætur verði af gengislækkun, þótt hún sé framkvæmd. Eða er sjávarútvegurinn miklu færari um það nú en á sama tíma í fyrra að taka á sig gengisáhættu af lánum? Nei, það, sem fyrir mér vakir, er það, að það þurfi að athuga það rækilega, á hvern hátt megi dreifa meira áhættunni af gengislækkunum, þegar þær eiga sér stað, og þessi ákvörðun, að þeir einir, sem hafa tekið erlenda féð að láni, eigi að bera hana, það tel ég ekki réttlátt.

Ég vil nefna eitt dæmi enn. Ég ætla, að við allar gengislækkanir komi líka einhvers staðar fram gengisgróði. Er það nokkur fjarstæða að hugsa sér, að gengisgróði mæti gengistapi? Ef það er svo, að raunverulegur hagnaður verður af gengislækkun fyrir útflutningsframleiðsluna, þá er það vel. En það er engin trygging fyrir því, að svo verði, þótt gengislækkun sé framkvæmd. En umfram allt tel ég það aðkallandi að skapa reglur um það, hverjir eigi að bera byrðarnar af gengisbreytingum, þegar notað er erlent lánsfé. Ég tel það fjarri lagi, að sú áhætta eigi að hvíla eingöngu á þeim, sem lánin taka, enda hafa þeir ekkert val um það, hvort þeir fá lánað til sinnar framleiðslu innlent fé eða erlent, og innlent lánsfé er sannarlega í stórum stíl í umferð hjá framleiðslunni, en auk þess líka erlent fé, og þarna þarf nokkurn jöfnuð á. Gengisáhættan má ekki eingöngu hvíla á þeim, sem verða að nota hið erlenda fé. Þeir hafa ekki ráðið því sjálfir, hvort þeir hafa orðið að taka það að láni eða fengið hið innlenda fé, og þeir hafa ekki heldur ráðið því sjálfir, þegar gengisbreytingar eru gerðar. Það er hið opinbera, sem ræður slíku.