16.02.1961
Neðri deild: 64. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

30. mál, ríkisfangelsi og vinnuhæli

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Um það er enginn ágreiningur, að fangelsismál Íslendinga eru í mikilli niðurlægingu og þurfa rækilegra umbóta við. Af þessu tilefni fékk ég á s.l. ári sakadómarann í Reykjavík, sem er þessum málum allra manna kunnugastur, til þess að taka þessi málefni til íhugunar og tillögugerðar, og ferðaðist hann m.a. um Norðurlönd til þess að kynnast framkvæmd i þessum efnum þar. Síðan samdi hann í samráði við dómsmrn. tvö frumvörp til úrlausnar málinu, það frv., sem nú er til umr. í hv. d., frv. til laga um ríkisfangelsi og vinnuhæli, og frv. um héraðsfangelsi, sem er hér næst á dagskrá. Þessi frumvörp voru lögð fyrir hv. Ed. í upphafl þings, og hefur hún nú samþ. þau óbreytt að efni.

Samkv. þessum frumvörpum er ætlazt til, að eins og nú verði tvenns konar háttur um greiðslu kostnaðar til fangelsa, annars vegar þau fangelsi, sem ríkið standi eitt straum af, og hins vegar héraðsfangelsi, sem kostuð séu af ríkinu og sveitarfélögum í sameiningu. Ríkisfangelsin eiga samkv. þessu frv. að vera ríkisfangelsi í Reykjavík eða nágrenni hennar, vinnuhæli og unglingafangelsi, og er þá jafnframt ráðgert, að vinnuhæli verði áfram á Litla-Hrauni, eins og nú er, en stækkað verulega, hins vegar verði það hæli á Kvíabryggju fyrir afplánun óinnheimtra barnsmeðlaga, sem rekið var um sinn og nú hefur verið endurreist, lagt niður, þegar fullkomin skipan er komin á þessi mál. Segja mætti, að frekari sundurgreining fangelsa væri æskileg heldur en lögð er til í þessu frv., en miðað við aðstæður hér á landi er slíkt naumast framkvæmanlegt. Það hefur t.d. verið bent á, að æskilegt væri að hafa sérstakt kvennafangelsi. Sem betur fer, eru svo fáar konur, sem dæmdar hafa verið til fangelsisvistar að undanförnu, — og við skulum vona, að ekki verði á því nein gerbreyting, — að rekstur sérstakrar stofnunar í því skyni er ekki framkvæmanlegur. Þess vegna er ráðgert í þessu frv., að kvennafangelsi verði ein deild ríkisfangelsis.

Hvað sem líður athugasemdum við einstakar greinar frv. eða einstök fyrirkomulagsatriði, þá eru allir sammála um það, sem þetta frv. hafa skoðað, að í því felst mikil umbót, þ.e.a.s. ef það kemst í framkvæmd, svo sem áætlað er. En ég vil mjög vekja athygli manna á því, að sú fjárveiting, sem ákveðin er í frv., 1 millj. kr. á ári, nær auðvitað ekki í námunda við að fullnægja þeirri þörf, sem hér er fyrir hendi. Hér er um algera lágmarksupphæð að ræða, og verður óhjákvæmilegt, að Alþingi héðan í frá veiti mun hærri fjárhæðir í þessu skyni, ef endurbætur eiga að nást á sæmilega skömmum tíma. Hins vegar þótti ekki fært að ákveða hærri upphæð í lögunum sjálfum, vegna þess að hag ríkissjóðs getur verið misjafnlega komið frá ári til árs. Eins er það ljóst, að það hlýtur að taka nokkurn tíma, þangað til hægt er að hefjast handa um framkvæmdir í þessum efnum. Þegar búið verður að samþykkja þetta frv. sem lög, verður að fara í að undirbúa athafnir, — og teikningar verða ekki gerðar nema eftir mjög rækilega íhugun, — bæði um staðarval fyrir ríkisfangelsi og unglingafangelsi og eins um athugun á því, hvernig fangelsunum sjálfum verður fyrir komið. Það er því alveg ljóst, að fyrr en á árinu 1962 er útilokað að hefjast handa um framkvæmdir í þessum efnum, og fjárveitinguna, sem veitt er í fjárlögum nú, þ.e. þessa eina milljón á ári, sem hér er ætlunin að lögbjóða, ber þess vegna frekar að skoða sem ábendingu eða áminningu um þá þörf, sem fyrir hendi er, heldur en að nokkrum hafi komið til hugar, að hún mundi nægja í þessu efni. Hér er sem sagt um ramma að ræða, sem eftir er að útfylla, bæði með miklum fjárframlögum og svo með enn frekari sérfræðilegri athugun um fyrirkomulag hinna einstöku fangelsa, sem ákveðið er að byggja.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um málið, en leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. og að frv. fái greiðan gang í gegnum þessa hv. d., svo að hægt verði að hefjast handa í alvöru um undirbúning framkvæmda á þessu ári, svo að þær þurfi ekki að dragast lengur en ég bentí til fyrr í orðum mínum.