09.02.1961
Efri deild: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

29. mál, héraðsfangelsi

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að mæla á móti samþykkt þessa frv. eða ræða mikið efni þess. En ég vil leyfa mér með örfáum orðum að bera fram fyrirspurn til frsm. nefndarinnar eða leita skýringar á einu atriði frv. og jafnframt að benda nefndinni á atriði, sem ég tel að betur megi fara.

Það er ótvírætt, að nauðsyn ber til þess að halda uppi löggæzlu í sérhverju réttarríki, og með frv. þeim, sem hér eru til umr., mun vera stefnt í rétta átt. En þessi tvö frv., sem hér eru rædd, ber að skoða í samhengi hvort við annað, og í frv., sem verið var að afgreiða, um ríkisfangelsi og vinnuhæli, segir berum orðum í 1. gr. þess, að ríkið skuli eiga og reka þessi fangelsi, sem siðan eru talin. En í frv. um héraðsfangelsi eru ákvæði um, í hvaða hlutföllum stofnkostnaður og rekstrarkostnaður Skuli greiddur, annars vegar af ríkinu og hins vegar af hlutaðeigandi sveitarfélagi. En ég hef ekki komið auga á, að það sé nokkurs staðar tekið fram í frv. berum orðum, hvaða aðili verði eigandi eða hafi eignarrétt á þessum stofnunum, héraðsfangelsunum, eftir að þau hafa verið reist og tekið til starfa. Út af þessu vil ég bera fram þessa fyrirspurn til frsm. nefndarinnar: Ber ekki að skilja þetta frv. svo, að þessar stofnanir, héraðsfangelsin, verði eign hlutaðeigandi sveitarfélaga, en framlag ríkisins skoðist sem styrkur vegna stofnkostnaðar og rekstrar fangelsanna? Eða í annan stað: Eiga þessar stofnanir að verða sameign ríkisins og hlutaðeigandi sveitarfélaga og þá væntanlega í réttu hlutfalli við það, sem stofnkostnaður er greiddur? En ef þetta ber að skilja svo, sem ég vil nú vænta, að héraðsfangelsin verði eign sveitarfélaganna, finnst mér eðlilegt, að inn í frv. kæmu ákvæði um íhlutun sveitarstjórnar um rekstur fangelsisins, eða með öðrum orðum, að það væri ákveðið í löggjöfinni um verkaskiptingu sveitarstjórnar annars vegar og ráðuneytis hins vegar að þessu leyti. Það mun vera gert ráð fyrir, að þetta verði reglugerðarákvæði, en óneitanlega væri gleggra, að meginstefnan að þessu leyti væri ákveðin í löggjöfinni sjálfri.

1. gr. þessa frv., fyrri málsgr. hennar, er svo hljóðandi:

„Nú telur sveitarstjórn nauðsyn á, að fangelsi til geymslu handtekinna manna og gæzlufanga sé reist í héraðinu, og skal hún þá beina til dómsmálaráðherra beiðni um framlag úr ríkissjóði í þessu skyni.“

Orðið sveitarstjórn ætla ég að hafi verið látið tákna í löggjöf hreppsnefnd eða bæjarstjórn, en nái ekki yfir sýslunefnd, a.m.k. er það áreiðanlegt, að þegar talað er um sveitarsjóð í löggjöf, þá er átt við hreppssjóð eða bæjarsjóð, en það nær ekki til sýslusjóðs. Milli þessara tveggja stiga ætla ég að sé skilgreining í löggjöfinni. Nú er skv. 1. gr. sveitarstjórn, þ.e.a.s. einni sveitarstjórn, ætlað að meta þörf á því að reisa héraðsfangelsi og standa að byggingu þess og rekstri, — fangelsi, sem á að gegna hlutverki fyrir heilt hérað, en orðið hérað hefur víðtækari merkingu en sveitarfélag. Út af þessu kemur mér til hugar, hvort ekki sé ástæða til að bæta inn í frv. ákvæðum um það, hvernig tryggja eigi rétt annarra sveitarfélaga í héraðinu til þess að eiga aðgang að og mega nota héraðsfangelsið, eftir því sem þörf krefur. Mér finnst vel koma til álita í þessu sambandi, að sýslusjóðum yrði gert að skyldu að greiða einhvern hluta af því framlagi, sem úr héraðinu á að koma, og á þann hátt verði tryggður réttur allra sveitarfélaga í héraðinu til fangelsisins, eftir því sem þurfa þykir.

Þetta frv. er flutt af hæstv. ríkisstj. og allshn. hefur fjallað um það, og í áliti meiri hl. nefndarinnar segir, að nefndin hafi fengið umsagnir frá lagadeild háskólans, Dómarafélagi Íslands, Sambandi íslenzkra sveitarfélaga og félaginu Vernd. Þetta frv. er því vel undirbúið og hefur fengið mikla athugun. Eigi að síður verð ég að láta í ljós það álit, fyrst ég kvaddi mér hljóðs, að á sumum stöðum megi orðalag frv. betur fara en nú er. Ég geri ekki brtt., en vil aðeins með örfáum orðum benda á atriði þessu til sönnunar, ef nefndinni þætti hlýða að gefa því gætur á milli umr.

Í 1. mgr. 1. gr. er talað um að beina til dómsmrh. beiðni. Þetta getur staðizt, en mætti samt orða að mínum dómi nær gildandi málvenjum. Í 2. mgr. segir: „Beiðninni skal fylgja skýrsla um nauðsynina.“ Þetta tel ég ekki rökrétt orðalag. Ætli það reynist ekki torvelt að skrásetja nauðsynina? Mér finnst rökréttara að segja: Beiðninni skal fylgja rökstudd grg. um nauðsyn þess að reisa fangelsi o.s.frv.

2. gr. hefst þannig, að fyrri málsliður gr. er svo: „Sveitarfélög leggja til á sinn kostnað lóðir héraðsfangelsa, en annar stofnkostnaður greiðist að hálfu úr sveitarsjóði, en að hálfu úr ríkissjóði.“ Fyrri hlutinn er í fleirtölu, það er átt við mörg sveitarfélög, en síðari hlutinn í eintölu. Það væri fyllra samræmi að hefja greinina á því að segja: Hlutaðeigandi sveitarfélag eða sveitarfélag, sem héraðsfangelsi reisir o.s.frv. Þá kemur það eðlilega, að það greiðist úr sveitarsjóði. Ég skal bæta því við, að þessi athugasemd sýnist mér réttmæt með tilliti til 1. gr. og enn fremur með tilliti til þess, að í síðari málslið 2. gr. er rætt um, hvernig með skuli fara, ef tvö sveitarfélög standa saman o.s.frv.

3. gr. hefst þannig: „Beiðni sveitarfélaga skv. 1. gr. skal dómsmrh. senda Alþ., og ákveður það við afgreiðslu fjárl., hvort við henni skuli orðið.“ Ef hér er átt við umsóknir sveitarfélaga, margar umsóknir, sem sendist Alþ., þá getur orðalagið „hvort við henni skuli orðið“ ekki staðizt. En sé átt við beiðni frá sérhverju sveitarfélagi fyrir sig, þarf að koma þarna: beiðni sveitarfélags, í samræmi við: „hvort við henni skuli orðið.“

Ég skal svo ekki fjölyrða um málið. Aðalatriðið var að beina þessari fyrirspurn, sem ég áðan gerði, til frsm. nefndarinnar, og ég vænti þess að fá svar við henni.