09.02.1961
Efri deild: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

29. mál, héraðsfangelsi

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteínsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Austf. hefur beint hér til mín þeirri fyrirspurn, hver sé eigandi þessara héraðsfangelsa, hvort það séu sveitarfélögin eða hvort þau verði talin sameign ríkis og sveitarfélaga. Ég skal viðurkenna það, að nefndin hefur ekki beinlínis velt þessu vandamáli fyrir sér, enda ekki þörf á því. Með þessu frv. er í raun og veru ekki breytt neitt fyrri reglum um þetta, þannig að raunverulega ætti hv. fyrirspyrjandi að spyrjast þá fyrir um það, hvernig þetta sé með þau héraðsfangelsi, sem þegar hafa verið reist og hafa kannske staðið áratugum saman, hver eigi þau fangelsi. Það mundi verða alveg sama svarið við þeirri spurningu eftirleiðis, og hv. þm. gæti þá væntanlega beint þessari spurningu til dómsmrn. eða einhverrar slíkrar stofnunar, ef þetta er deilumál. Út af fyrir sig held ég nú, að spurningin um sjálfan eignarréttinn yfir þessum húsum sé ákaflega óraunhæf. Ég mundi fyrir mína parta álíta það eðlilegast, að þetta yrði talin sameign ríkis og sveitarfélaga, án þess að ég geti þó á nokkurn hátt kveðið upp nokkurn fullnaðarúrskurð um það mál. En aðalsvarið hlýtur að vera það, að um eignarréttinn fer eftirleiðis eins og áður. Þetta frv. breytir engu í því efni.

Þá var hv. fyrirspyrjandi að drepa á, að það vantaði þarna reglur um íhlutun sveitarstjórnar um rekstur héraðsfangelsa. Ég hef ekki orðið var við það, að sveitarfélögin væru óánægð yfir því, hvernig rekstri héraðsfangelsa væri háttað, og nefndin sendi þetta frv. m.a. til umsagnar til Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Að vísu var það aðalsjónarmið þess, að ríkið ætti að borga þetta allt saman, og satt að segja eðlilegt sjónarmið úr þeirri átt. En hins vegar var ekki neitt minnzt á þetta, að sveitarfélög þyrftu að fá frekari íhlutunarrétt, sem hefði þó a.m.k. verið eðlilegt að setja fram til vara af hálfu sambandsins, þannig að ég sé ekki, að það hafi út af fyrir sig gefizt neitt sérstakt tilefni til þess að fara að setja þar einhverjar nýjar reglur.

Um athugasemd hv, þm. varðandi málið á frv., þá get ég vel tekið undir það með honum, að það er ekki góð íslenzka á þessu, og það er ef til vill ekki til fyrirmyndar, að nefndir, sem fjalla um mál hér í þessari hv. d. og Alþ. yfirleitt, skuli gefa yfirleitt lítinn gaum að því að endurbæta málið á frv. En ég skal a.m.k. bera það upp við nefndina, hvort hún vill gera till. um, að þetta verði fært til betra máls, áður en 3. umr. fer fram um málið.