09.02.1961
Efri deild: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

29. mál, héraðsfangelsi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. frsm., að mér vitanlega hefur aldrei á það reynt, hver væri formlegur eigandi þessara fangelsa. En ég tel, að skilja verði bæði gildandi löggjöf og þetta frv. svo, að hér verði um sameign þessara tveggja aðila að ræða, ríkis og sveitarsjóða, þannig að ef húsið verður tekið til annarra nota, þá verða þeir aðilar að koma sér saman um ráðstöfun á þeirri eign, sem þarna er um að ræða. En meðan notkunin stendur, eins og ætlazt er til skv. þessu frv., þá segir um það, að það er dómsmrh., sem setur reglugerð um rekstur þessara fangelsa og ræður því yfir þeim að því leyti, sem til rekstrarins kemur. En hvorugur aðili getur án samþykkis hins, eins og ég segi, ráðstafað eigninni, ef þetta frv. nær samþykki. Ég hygg, að ákvæðin verði ekki skilin á annan veg.

Varðandi orðalag frv., þá má auðvitað lengi um orðalag deila. Héraðsfangelsi í þessu sambandi merkir þau fangelsi, sem komið er upp af sveitarstjórnum, og það er ljóst, að það er fyrst og fremst miðað við, eins og hv. 5. þm. Austf. sagði, annaðhvort bæjarstjórnir eða hreppsnefndir í því sambandi. Ef fleiri sveitarfélög koma sér saman um rekstur á byggingu og rekstur á fangelsi með þeim hætti, sem hér er um fjallað, þá er ákvæði um það í 2. gr., svo að ég hygg, að það mál horfi nokkuð glöggt við. En um aðrar orðabreytingar má segja, að hvort á að „beina beiðni“ til ráðh. eða „senda beiðni“ sé algert smekksatriði. „Að beina beiðni“ hygg ég að sé orðalag, sem fyllilega fái staðizt og sé í raun og veru jafngott og að „senda beiðni“. Eins er það, að þótt ekki sé hægt að setja nauðsynina á pappír, þá er enginn vafi á því, að það er hægt að setja skýrslu um nauðsynina á pappír. Það segir ekki. að það eigi að setja nauðsynina í bréfið, heldur skýrslu um nauðsynina, og það er efni, sem vel er hægt að skrá. Hitt játa ég, og það eru alveg réttar athugasemdir hjá hv. 5. þm. Austf., að það er ónákvæmt orðalag, sem þarfnast leiðréttingar, í 2. og 3. gr. Þar er ýmist notuð eintala eða tvítala á orðinu sveitarfélag á þann veg, að það þarf að setja samræmi á milli, og væri ég nefndinni þakklátur fyrir, ef það væri leiðrétt. Það eru bersýnilega pennaglöp, sem þar hafa átt sér stað, og þakka ég hv. þm. fyrir að vekja athygli á því.