13.10.1960
Neðri deild: 3. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

10. mál, almenn hegningarlög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem þingheimi er kunnugt, eru núgildandi hegningarlög frá árinu 1940. Í þeim eru vissar meginreglur, sem munu um ófyrirsjáanlegan tíma halda gildi, en einnig ýmis atriði, sem vegna breyttra þjóðfélagshátta og breyttra skoðana á eðli afbrota og skynsamlegum viðbrögðum gegn þeim, þ. á m. meðferð á brotamönnum, hljóta að koma til endurskoðunar ætíð öðru hvoru. Af þessum sökum var það, að er ég var dómsmrh. 1952, skipaði ég 3 menn í nefnd til þess að endurskoða hegningarlögin, þá próf. Ármann Snævarr og hæstaréttardómarana Jónatan Hallvarðsson og Þórð Eyjólfsson. Þeir lögðu þegar á árinu 1954 fram frv. um breyt. á almennum hegningarlögum, og var aðalefni þess um skilorðsbundna frestun ákæru og skilorðsbundna dóma, sem voru merk nýmæli á sínum tíma og voru lögfest á árinu 1955. Síðan gerðu þeir till, um aðra veigaminni breyt., sem lögfest var 6 árinu 1956, aðallega um, hver færi með ákæruvald í víssum brotamálum, svo sem nánar greinir í þeim lögum. Fyrir þingið 1957 voru svo af hálfu þessarar nefndar lögð fram allmörg frv., hin sömu sem nú eru borin fram á ný á þskj. 10–28. Þessi frumvörp voru á þinginu 1957 flutt af allshn. þessarar hv. d. og að því er ég hygg einungis rædd hér við 1. umr., en dagaði síðan uppi og fengu ekki frekari meðferð þingsins. Þetta er samanlagt allmörg lög og virðast við fyrsta álit kannske allflókið mál, en er þó miklu einfaldara, þegar það er skoðað, heldur en í fljótu bragði virðist. Við athugun þótti mér rétt að taka þessi frumvörp til flutnings á ný og leggja þau fyrir Alþingi, jafnframt því sem rétt er að geta þess, að ég hef beint því til nm., að þeir haldi áfram endurskoðunarstarfi sínu á hegningarlögunum í heild og einstökum greinum þeirra, eftir því sem þeir sjá ástæðu til, en mér hefur skilizt, að frá því að þeir sendu frá sér þessi frumvörp, sem lögð voru fyrir þingið 1957, hafi starf þeirra legið niðri. En ég tel síður en svo, að enn sé hinni nauðsynlegu endurskoðun lokið, heldur þurfi hún að halda áfram og sérfræðingar að fara yfir þennan marggreinda lagabálk í heild til þess að færa hann í nútímahorf.

Þó að ekki séu nema 20 ár, frá því að hegningarlögin voru lögfest, hafa orðið meiri breytingar innanlands en nokkru sinni áður á jafnlöngum tíma, og kunnugt er, að viðhorf manna til brotamanna tekur stöðugum breytingum við auknar rannsóknir í þessum efnum og skoðun þess, hvað að haldi kemur í viðureigninni við það böl, sem hér er barizt gegn.

Það má segja, að rýmkun hinna skilorðsbundnu dóma og heimildin til þess að falla frá málshöfðun með skilyrði, sem lögfest var 1955, og eðli þeirra frumvarpa, sem hér liggja fyrir, sé í raun og veru hvort tveggja svipað. Þar er að því stefnt, að viðurlög af hálfu ríkisins við brotum raski sem minnst högum afbrotamannsins, og það miðast við, að þó að ekki verði komizt hjá refsingum, sem auðvitað eru aldrei æskilegar, heldur einungis neyðarvörn þjóðfélagsins, þá sé það, ljóst, að forðast beri, að þær hafi þau áhrif að einangra brotamanninn til frambúðar frá þjóðfélaginu, gera hann að varanlegum fjandmanni þess, bæði til böls fyrir hann sjálfan og hans aðstandendur og einnig með því móti að auka á hættuna um áframhaldandi afbrot af hans hálfu.

Sú regla, sem upp var tekin með lögunum frá 1955, að heimila að falla frá málshöfðun með tilteknum skilyrðum, hefur reynzt vel, og að athuguðu máli hygg ég einnig, að þær breytingar, sem eru meginatriði þessara frumvarpa á þskj. 10–29, sem ég — með leyfi forseta — mun ræða um öll í einu lagi, muni hafa svipuð áhrif. En aðalefni þeirra er að breyta reglunum um réttindasviptingu ýmiss konar, sem látin hefur verið fylgja refsingu, a.m.k. meiri háttar refsingu, við þeim brotum, sem talin hafa verið svívirðileg að almenningsáliti. Það er að vísu enginn efi á því, að réttindasvipting getur oft og tíðum haft mikil áhrif til varnaðar á þann veg, að brotamenn óttast það yfirleitt eða oft meira að missa ýmiss konar réttindi og þá ekki sízt almenn mannréttindi, svo sem kosningarrétt og kjörgengi, — þeir óttast það meira en refsidóm, t.d. stutta fangelsisvist, og þetta kann oft að koma harðar niður á þeim.

Oft og tíðum er það einnig svo, að mjög eðlilegt er, að slík viðurlög liggi við. Ef menn hafa með broti sýnt, að þeim er ekki treystandi til þess að njóta einhverra tiltekinna réttinda, er mjög eðlilegt, að það sé látin vera afleiðing af brotinu, að þeir séu sviptir þeim réttindum. En núgildandi reglur um réttindasviptingu ganga miklu lengra en miðað sé við, hvort eðli brotsins sé slíkt, að manninum sé ekki í hverju einstöku tilfelli treystandi til að nota þessi réttindi. Og þá hefur það þótt vera raun, bæði hér og víða annars staðar, og er staðfest af fræðimönnum, að svo almenn réttindasvipting geti leitt til einangrunar brotamannsins, hindri það, að hann samlagist þjóðfélaginu á ný, komi oft í veg fyrir, að hann geti stundað þá vinnu, sem honum er hentust og heppilegust fyrir hann og hans aðstandendur og þjóðfélagið í heild, að hann stundi, og einnig um almenna mannréttindasviptingu, að hún sé óþarflega hörð refsing miðað við það brot, sem um kann að vera að ræða.

Þessar ástæður hafa leitt til þess, að í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hefur á síðari árum verið gerð gerbreyting á reglunum um réttindasviptingu frá því, sem áður var, og hún látin gilda í miklu færri tilfellum en áður, og í öllum þessum löndum er nú búið að fella niður skilyrðið um það, að maður hafi óflekkað mannorð, til þess að njóta almenns kosningarréttar, þetta hefur verið fellt niður í þessum löndum, þó að t.d. í Danmörku hafi þurft að breyta sjálfri stjórnarskránni til þess að koma nýjunginni í rétt lagaform.

Hér á landi er að óbreyttri stjórnarskrá ekki um það að ræða að fella niður skilyrðið um óflekkað mannorð fyrir almennum kosningarrétti. Ef menn telja rétt, að það sé fellt niður, verður það að gerast með stjórnarskrárbreytingu, en í þeim frv., sem hér liggja fyrir, er gert ráð fyrir, að þetta skilyrði sé fellt brott varðandi kosningarrétt og kjörgengi til sveitarstjórna og varðandi prestskosningar, og fyrirmælinu varðandi alþingiskosningar og þá einnig um forsetakosningar, kosningu á forseta Íslands, er breytt þannig, að ný túlkun er tekin upp á því, hvað þurfi til þess, að um mannorðsflekk verði talið að ræða.

Löggjafinn hefur áður talið sér heimilt að túlka þetta á mismunandi vegu. Áður fyrr var það á mati þeirra, sem sömdu kjörskrár, í fyrstu, hverjir skyldu vera taldir hafa mannorðsflekk, og þá var talið, að afbrotíð þyrfti að vera svívirðilegt að almenningsáliti, sem er mjög teygjanlegt hugtak. Með hegningarlögunum 1940 var hins vegar lagt á vald dómara hverju sinni að kveða á um það, um leið og dómur skyldi ákveðinn, hvort þessi mannorðsflekkur skyldi fylgja. Þetta hefur ekki þótt reynast vel, talið, að það valdi óþörfum sárindum hjá brotamanni, að þetta sé sérstaklega fram tekið, og þess vegna er það ein af nýjungunum í þessum frv., að aftur skuli tekið upp það, sem áður gilti, að ákvörðun um þetta er lögð í hendur þeirra, er semja kjörskrána, er undir mati þeirra komið, en þó á þann veg, að menn geta borið það sjálfir undir dómstól, ef þeir telja sig ranglega svipta réttindum. Jafnframt er svo ákveðið, að brot þurfi að vera framið af manni, eftir að hann er búinn að ná víssum aldri, 18 ára, og refsing ekki vera minna en 4 mánaða varðhald eða frelsissvipting, til þess að um mannorðsflekk verði talið að ræða, þannig að svipting kosningarréttar mundi eftir hinum nýju reglum verða mun sjaldgæfari en áður var, fleiri njóta kosningarréttar, þótt þeir brjóti lögin, heldur en hingað til hefur verið talið gilda.

Túlkun löggjafans á þessu stjórnarskrárákvæði er engin nýjung. Eins og ég gat um, var breytt til 1940, dómstólunum fengið í fyrstu vald, sem á sama stigi hafði áður verið hjá þeim, sem sömdu kjörskrána, og eins var með lögum 1955, sem ég vitnaði í áður, ákveðið, að skilorðsbundnir dómar skyldu ekki hafa áhrif til mannorðsflekkunar, gagnstætt því, sem áður hafði verið talið. Það er því enginn vafi á því, að þessi túlkun, sem tekin er upp í þessum frv., fær staðizt eftir stjórnarskránni. Hitt er svo annað mál, hvort menn telja þessi ákvæði vera eðlileg, efni sínu samkvæmt, að rýmka kosningarréttinn með þeim hætti, sem ég hef gert grein fyrir. En aðalbreyting frv. er þessi, að nema þessa takmörkun kosningarréttarins alveg úr gildi varðandi sveitarstjórnarkosningar og prestskosningar og takmarka áhrifin varðandi þingkosningar og kosningar til forsetadæmis, svo sem. ég var að reyna að skýra.

Samhliða þessu eru einnig felldar úr gildi reglur í ýmsum einstökum tilfellum, þar sem mannorðsflekkur hefur verið látinn hafa áhrif til réttindasviptingar. Það er ýmist alveg fellt úr gildi eða breytt svo, að einungis er um heimild að ræða fyrir dómara til þess að kveða á um það í hverju einstöku tilfelli, hvort hann telji brotið, sem framið hefur verið, vera þess eðlis, að það gefi tilefni til þess að svipta menn tilteknum réttindum. Hér getur oft verið um allmikið matsatriði að ræða, en engir eru hæfari til en hlutlausir dómarar að kveða þann úrskurð upp.

Þetta er í raun og veru aðalkjarni þessa máls, og veit ég ekki, hvort ég geri málið gleggra fyrir þingmönnum, sem ég man að 1957 áttuðu sig lítið á því, hvað hér var um að ræða, með því að fjölyrða öllu meira um það. En það er þó rétt að taka fram, að fyrstu greinar frv. á þskj. 10, þ.e.a.s. frv. um breytingu á sjálfum hegningarlögunum, fjalla að nokkru leyti um önnur atriði.

Ákvæðin í 1. gr. eru nánast öryggisákvæði, sem ég mundi halda að væru talin vera í gildi nú þegar, þó að ekki sé berum orðum tekið fram í lögum, en sérfræðingunum hefur þótt réttara að kveða beinlínis á um, en það er, að viðurlög samkvæmt 7. kafla hegningarlaganna, m.a. þau, sem ég var að gera grein fyrir, megi ekki leggja á, nema bein heimild sé til þess, með sama hætti og gildir um heimild til þess að leggja á sjálfa refsinguna.

Eins er í 2. gr. ákveðið, að þessum viðurlögum í 7. gr. megi ekki beita, nema því aðeins að ljóst sé, að heimildin hafi verið i lögum, þegar brotið var framið, þ.e.a.s., að það er ekki hægt að láta heimildina verka aftur fyrir sig. Þetta hefur verið talin algild regla í okkar refsirétti um langa hríð. En við vitum, að sums staðar annars staðar hefur nú verið vikið frá því meginatriði í refsirétti, sem sjálfsagt er fyrir okkur að halda fast við.

Ákvæðið í 3. gr. er mjög lítilsvert. Þar er tekið skýrt fram, að reynslutími, sem þar er ákveðinn, megi aldrei standa lengur en til loka refsitíma. Áður var ákveðið, að hann gæti staðið allt að tveimur árum, en nú takmarkast þessi tvö ár af því, að það má sem sagt aldrei vera lengur en til loka sjálfs refsitímans.

Í 4. gr. eru fyrirmæli um það, að falla skuli niður heimild, sem nú er í hegningarlögunum, um það, að banna megi eftir nánar ákveðnum reglum tilteknum mönnum að kaupa áfengi. Þessu fyrirmæli hefur ekki verið fylgt og er talið gersamlega þýðingarlaust og er þess vegna fellt niður.

Í 5. gr. eru svo fyrirmæli um það að gera skýrari eða samræmdari núgildandi reglum fyrirmæli um það, að menn sem haldnir eru drykkjufýsn, megi leggja inn á viðeigandi hæli.

Varðandi aftur á móti 6. og 7. gr. og öll hin frv. á þskj. 11–28, þá fjalla þau um þetta meginatriði, sem ég ræddi um, takmörkun á reglunum um réttindasviptingu, sem leiði af afbroti, þannig að réttindasvipting komi yfirleitt ekki til greina, nema því aðeins að talið sé, að brotið gefi sérstakt tilefni til hennar.

Enn fremur er veitt heimild til þess, að ef maður hefur verið sviptur rétti um óákveðinn tíma, þá geti hann leitað til dómstólanna til að fá úr því skorið, hvort hann megi öðlast réttinn að nýju.

Það eru vafalaust enn fleiri ákvæði en þau, sem hér eru talin upp, í þessum lagafrv., sem skoða þarf. En gerð hefur verið grein fyrir, að eðlilegra væri að endurskoða þau ákvæði í samræmi við allsherjarendurskoðun tiltekinna lagabálka eða reglna, sem um ákveðin efni gilda.

Ég vil að lokum nefna sem dæmi ákvæðis, sem á að haldast og sjálfsagt er að halda, vegna þess að þar gefur brotið sjálft vísbendingu um, að manni sé ekki trúandi fyrir réttindunum, og það er ef maður er sviptur rétti til að aka bifreið vegna brota á umferðarlöggjöf eða áfengislöggjöf. Þar er það alveg ljóst, að ef maður hefur ekið með þeim hætti, að hann fylgir ekki umferðarreglum, hvað þá ef hann er undir áhrifum áfengis við aksturinn, þá er hann búinn að sýna, að honum er ekki treystandi til þess að njóta þess sérstaka réttar, sem í ökuleyfinu felst. Þetta ákvæði á að haldast og er dæmi um það, hvers eðlis þær réttindasviptingar eru, sem ráðgert er að haldist þrátt fyrir þær reglur, sem hér er ætlunin að setja, um leið og hin almennu, víðtæku áhrif réttindasviptingar, sem leiðir af hinu gamla hugtaki um mannorðsflekk eða brot, sem er svívirðilegt að almenningsáliti, ýmist falli alveg burt eða verði mjög takmörkuð.

Ég leyfi mér að leggja til, að þetta frv. fari til hv. allshn. ásamt öllum hinum frv., sem ég mun ekki mæla sérstaklega fyrir.