13.10.1960
Neðri deild: 3. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

15. mál, hlutafélög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem menn e.t.v. muna, var fyrir nokkrum árum skorað á ríkisstj, með samþykkt Alþingis að láta endurskoða hlutafélagalögin, og fór sú endurskoðun fram og frv. var lagt fyrir Alþingi. Það frv. þótti þó við athugun vera allt of flókið og þungt í vöfum. Það fékk þess vegna aldrei afgreiðslu hér á þingi, og mun vera samhuga álit, að það mundi vera allt of erfitt í framkvæmd, til þess að bót yrði að lögfestingu þess. Þetta frv. var að langsamlega mestu leyti sniðið eftir þá nýjum hlutafélagalögum í Svíþjóð, sem hafa þótt reynast mjög illa í framkvæmd, einmitt af þeim sömu ástæðum sem mönnum leizt ekki á að lögfesta frv. hér.

Hins vegar hafa nú verið gerðar ráðstafanir til þess, að norrænir lögfræðingar endurskoði hlutafélagalögin á Norðurlöndum almennt og færi þau í viðráðanlegt horf með meira samræmi innbyrðis en verið hefur undanfarið. Einn af fremstu lögfræðingum í Danmörku, Borum prófessor, sem hér var á lögfræðingaþinginu í sumar, ræddi einmitt þetta mál við mig og óskaði eftir þátttöku Íslands og bauðst til þess að láta okkur fylgjast í einu og öllu með og gera okkur aðvart um, hvað þeirra starfi liði.

Við fylgjumst auðvitað, ef við sjálfir óskum, með þessu samstarfi og eigum ætið kost á að taka þátt í því. Borum vissi um viðleitni okkar og áhuga til að endurskoða lögin og sagði, að þeir mundu nú í haust eða vetur koma saman og vinna verulega í þessu og láta okkur síðan vita, hvað þeirra starfi liði. Ég tók þessu góða boði og mun fylgjast með því, hvað þessari endurskoðun líður, sem að verulegu gagni getur orðið fyrir okkur og undirstaða nýrrar löggjafar, sem brýn þörf er á.

Ég þakka þess vegna hv. 1. þm. Vestf. fyrir hans ábendingu, en tel, að eins og á stendur sé ekki þörf fyrir þingið að gera um þetta beina ályktun, þar sem málið er þegar til athugunar hjá rn. og eitt þeirra mála, sem er í sameiginlegum undirbúningi innan hins norræna löggjafarsamstarfs, ef svo má að orði kveða.