13.10.1960
Efri deild: 3. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

4. mál, ríkisreikningurinn 1958

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, er um samþykkt á ríkisreikningnum, fyrir árið 1958. Ríkisreikningurinn hefur verið endurskoðaður að vanda af yfirskoðunarmönnum, þeir gert sínar athugasemdir, þeim athugasemdum verið svarað af fjmrn. og yfirskoðunarmenn gert að lokum tillögur við ríkisreikninginn.

Ég vil taka það fram hér, sem segir á bls. 261 í ríkisreikningnum, með leyfi hæstv. forseta: „Fram skal tekið, að núv. fjmrh. hafði ekki með höndum framkvæmd þessara mála á því tímabili, sem hér um ræðir, en að sjálfsögðu munu ábendingar og athugasemdir yfirskoðunarmanna verða gaumgæfilega athugaðar.“

Niðurstöður ríkisreikningsins fyrir 1958 eru í stórum dráttum þær, að tekjur eða innborganir voru áætlaðar 807,1 millj. kr., en urðu 964 millj., m.ö.o., tekjurnar fóru u.þ.b. 157 millj. fram úr áætlun. Útborganir eða gjöld voru í fjárlögum áætluð 806,9 millj. kr., en urðu 936,7 millj., eða rétt tæplega 130 millj. meiri en áætlað var í fjárlögum. Greiðsluafgangur, sem hafði í fjárlögum verið áætlaður 238 þús., varð hins vegar samkv. þessu 27,3 millj. kr., þar sem tekjurnar fóru um 27 millj. kr. meira fram úr áætlun fjárlaganna en gjöldin fóru.

Ég vil leggja til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.