28.11.1960
Neðri deild: 29. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

4. mál, ríkisreikningurinn 1958

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Á borðum okkar alþm. hafa nú legið um skeið tvær bækur ekki svo litlar. Það eru ríkisreikningarnir fyrir árin 1958 og 1959. Og er það vel og raunar þakarvert, að ríkisreikningarnir fyrir þessi ár skuli þegar hafa verið lagðir fram í þinginu, því að ólíkt er það skemmtilegra að hafa fyrir framan sig ríkisreikninginn frá árinu áður heldur en þriggja eða fjögurra ára gamla reikninga, svo sem mér skilst að hafi verið venjan á undanförnum þingum. Hér hefur orðið á góð breyting, sem ég vil leyfa mér að þakka.

Ég hef verið að glugga í þessar stóru bækur, og mér þykir þær um, margt vera girnilegar til fróðleiks og næsta forvitnilegar. Sá kapítuli þeirra, sem vakti þó einna mesta athygli mína, var kaflinn um ríkisábyrgðir. Þar eru allar ríkisábyrgðir taldar upp; og sú skrá nær yfir hvorki meira né mínna en milli 30 og 40 blaðsíður í þessari stóru bók, og er þó skýrsla þessi prentuð með smáu letri. Í árslok 1958 voru ríkisábyrgðir, sem tóku til lána ýmissa aðila, um 1300 millj. kr. Síðan hefur þessi upphæð hækkað allverulega og mun nú vera nær sama upphæð og niðurstöðutala, fjárlaga er. Greiðslur vegna ríkisábyrgðalána urðu á árinu 1958, samkv. reikningi þess árs, nær 24 millj., 1959 urðu þessar greiðslur nær 29 millj., og samkv. því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir hæstv. Alþ., er áætlað, að útlagðir vextir og afborganir af ýmsum lánum með ríkisábyrgð, sem eru í vanskilum; nemi 38 millj. kr. Ég get ekki að því gert; að mér finnst vera hér um varhugaverða þróun að ræða, og ég tel það illt, ef rétt er, sem menn þó bera í munn sér, að sá hugsunarháttur þróist með þjóð okkar, að lán með ríkisábyrgð þurfi hreint ekki að greiða. Ég vona, að þetta sé ekki þannig, því þegar svo er komið, að mönnum þykir jafnvel sómi að því að standa ekki við skuldbindingar sínar og að hafa skuldir sínar í vanskilum, þá er ekki að undra, þótt ýmislegt fari að hallast í þjóðlífi okkar.

Ég var að lesa skrána um ríkisábyrgðirnar fyrir árin 1958 og 1959. Þar kennir vissulega ýmissa grasa, og væri freistandi að ræða þessa skýrslu hér nokkuð ýtarlega, t.d. gera samanburð á því, hvernig þessar ríkisábyrgðir skiptast milli landshluta og einstakra kjördæma, og mætti sú athugun verða næsta lærdómsrík. En ég ætla ekki að fara út í það að þessu sinni. Ég vil aðeins benda á það sem öllum þingheimi er kunnugt, að nær allar þessar ábyrgðir taka til lána, sem eru tekin af bæjarfélögum og hreppsfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum við sjávarsíðuna, í kaupstöðum og kauptúnum. Ég vek athygli á þessu ekki sízt vegna þess, að hér á þessu þingi hafa farið fram miklar og næsta fróðlegar umræður um styrki, sem landbúnaðurinn fær frá hinu opinbera, og um fjárútlát ríkisins til þessa atvinnuvegar. Ég fæ ekki betur séð, þegar ég virði fyrir mér þessa stóru skýrslu um ríkisábyrgðirnar og þær stóru upphæðir, sem hafa verið greiddar úr ríkissjóði vegna vanskila á þessum lánum, en það séu fleiri en við sveitamennirnir, sem njóta styrkja frá hinu opinbera.