29.11.1960
Neðri deild: 30. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

25. mál, atvinna við siglingar á íslenskum skipum

Davíð Ólafsson:

Herra forseti. Brtt. á þskj. 156. sem ég hef leyft mér að flytja ásamt þeim hv. 3 þm. Sunnl. og hv. 6. þm. Sunnl. við frv. til l. um breyt. á l. um atvinnu við siglingar, sem liggur hér fyrir hv. d. til 3. umr., fjallar að vísu um efni, sem er óskylt þeim breytingum, sem frv. er ætlað að gera á þessum lögum, en þar er, sem kunnugt er, um að ræða breytingu, sem er afleiðing af breytingu á hegningarlögunum. Hins vegar töldum við flm. till. ekki óeðlilegt, úr því að lögin eru hér til meðferðar, að freista þess að fá leiðréttan galla, sem er á l., sem má segja að til hafi orðið vegna aldurs þess ákvæðis l., sem hér um ræðir. Hér er sem sé um að ræða, að aðstæðurnar hafa breytzt, svo að það ákvæði l., sem hér um ræðir, á ekki við lengur.

Hér er um að ræða f-lið 2. gr. l. um atvinnu við siglingar frá 1946, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Innanlandssigling er sigling og fiskveiðar við strendur Íslands og á hafinu kringum landið allt að 60 sjómílur frá sjálfu landinu.“ Ákvæðið miðast við, að þeir, sem hafa hið svokallaða minna skipstjórapróf, geti ekki siglt nema við strendur Íslands eða innanlandssiglingu, eins og kallað er, og takmörkin eru sett 60 sjómílur, og hefur svo staðið í l. frá því 1936. Það er ljóst, að miðað við aðstæður á þeim tíma var þetta ákvæði eðlilegt og fullnægjandi, hvaða veiðar sem um var að ræða á þessari stærð skipa hér við land. Í sjálfu sér setti stærð skipanna þá takmörk fyrir því, hversu langt þau gátu sótt. Langflest fiskiskipanna voru smáskip, sem gátu ekki sótt á djúpmið.

Þegar l. var breytt 1946, var miðað við 85 rúmlesta skip, í staðinn fyrir 75 áður, með bráðabirgðaákvæði, sem sett var í þau lög. En áfram var haldið því ákvæði í l. frá 1936 að miða hámarksfjarlægð frá ströndinni við 60 sjómílur. Á þeim tíma mátti raunar segja, að þetta væri ekki óeðlilegt, því að fiskveiðar á þessari stærð skipa voru þá yfirleitt stundaðar innan þessara marka. En upp úr því fara að breytast veiðar hér við land, einmitt á þessum skipum, og þá fyrst og fremst síldveiðarnar breytast mjög á árunum eftir 1946, og einkum þegar kemur fram yfir 1950, þá fjarlægjast síldargöngurnar ströndina fyrir norðan og austan og flotinn verður að sækja lengra og lengra út frá ströndinni til þess að fylgja síldargöngunum eftir. Og nú er svo komið undanfarin ár, að algengt er, að flotinn elti síldargöngurnar yfir 100 mílur á haf út eða út á yztu mörk landgrunnsins.

Árið 1957 var gerð breyting á bráðabirgðaákvæði l. frá 1946 og minnaprófsréttindin voru þá aukin þannig, að miðað var við 120 rúmlesta skip, enda var þá svo komið, að skipin höfðu stækkað mjög. Ný skip, sem byggð voru á þessum árum, voru einmitt mjög mörg af stærðinni yfir 85 rúmlestir, og eins og við vitum nú, þá er mjög algengt, að stærð fiskiskipa sé milli 80 og 120 rúmlestir. Þá hefði í sjálfu sér verið eðlilegt að breyta fjarlægðarmörkunum vegna breyttra aðstæðna, því að segja má, að ósamræmi sé í því að miða réttindin við 120 rúml. skip, en takmarka hins vegar fjarlægðina, sem sigla má frá ströndinni, við 60 sjómílur.

Afleiðingin af þessu, eins og það er nú, er sú, að í mjög mörgum tilfellum, — og á það við fyrst og fremst um síldveiðarnar á sumrin, — eru skipin og hafa verið nú um nokkurt skeið á veiðum á svæðum, sem eru utan við hin löglegu fjarlægðartakmörk, og skipstjórnarmenn, sem minnaprófsréttindi hafa, eru því raunverulega réttlausir, þegar þeir koma út fyrir þau takmörk. Þetta er í sjálfu sér óviðunandi ástand.

Þessi brtt. við lögin miðar að því að laga lögin að þeim aðstæðum, sem nú eru, og þannig, að til frambúðar geti verið, á meðan gert er ráð fyrir minna prófi, sem miðist við takmörkuð siglingaréttindi. Með 150 sjómílna fjarlægð, eins og gert er ráð fyrir í tillögunni, má telja, að farið sé út fyrir yztu mörk þess, sem bátar af þessari stærð sækja til veiða, og þetta á þegar í dag, eins og ég sagði áðan, við um síldveiðarnar fyrir Norður- og Austurlandi. Það er að vísu enn ekki sótt svo langt til veiða á öðrum stöðum við landið. Í viðræðum, sem ég átti við skólastjóra stýrimannaskólans, Friðrik Ólafsson, taldi hann ekki nú þörf á að hafa fjarlægðina nema 100 sjómílur við Suður- og Vesturland, en hins vegar 150 sjómílur við Norður- og Austurland, en að öðru leyti féllst hann á, að eðlilegt væri að gera þá breytingu á l., sem hér ræðir um.

Flm. hafa hins vegar að athuguðu máli talið heppilegra að hafa sömu fjarlægð alls staðar við landið, þar sem mismunandi fjarlægðir á mismunandi stöðum mundu aðeins valda erfiðleikum, og með því að miða við 150 sjómílur, þá má segja, að allt landgrunnið umhverfis Ísland sé innan takmarkanna, en fiskveiðar okkar fara nú einmitt vaxandi á miðum, sem liggja fjarri ströndinni. Bátaflotinn sækir lengra og lengra út til fanga, og þess vegna er eðlilegt, að reynt sé að miða ákvæði l. við að ná yfir það svæði, sem bátaflotinn stundar veiðar á. Það er því von okkar, að hv. þdm. geti fallizt á þessa brtt. okkar.