06.12.1960
Neðri deild: 33. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

25. mál, atvinna við siglingar á íslenskum skipum

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka undir það, sem síðasti ræðumaður, hv. 11. landsk. þm., sagði um það, að málið verði athugað nokkru betur í þessari hv. d., áður en það fer út úr henni, og það liggja til þess tvær ástæður, utan þeirra raka, sem hv. þm. bar fram.

Í fyrsta lagi er það, að í frv. um breyt. á l. nr. 66 17. júlí 1946, um atvinnu við siglingar, eins og það frv. liggur fyrir, er einungis um eitt ákveðið atriði að ræða og raunar í sambandi við fjöldamörg önnur lög til þess að breyta þessu sama atriði þar eins og í hinum öðrum lögum, sem voru þessu frv. samferða. Að mínu viti hefði þess vegna átt að afgreiða þetta atriði út af fyrir sig, án þess að fleiri efnisatriði væru tekin þar til meðferðar. Lögin um atvinnu við siglingar hafa verið í endurskoðun, og er þess að vænta, að fram komi frv. til l. um breyt. á siglingalögunum nú bráðlega, og ættu þá efnistillögurnar, sem hér liggja fyrir við upphaflega frv., frekar að ræðast í sambandi við það. Ég held, að það megi segja, að þessar nýju tillögur um gagngerða endurskoðun á siglingalögunum komi mjög bráðlega fram, og mér fyndist þá, að það gæti vel komið til álita að afgreiða bæði tillöguna á fskj. 176, sem hér hefur nú verið lýst, og aðra tillögu, sem líka hefur komið fram í sambandi við frv., í sambandi við afgreiðslu siglingalagafrv. í heild, þó að þetta eina tiltekna atriði, sem í frv. felst, væri látið ganga sinn gang.

Umr. frestað.