28.11.1960
Neðri deild: 29. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

4. mál, ríkisreikningurinn 1958

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég tek að sjálfsögðu með þökkum þeim upplýsingum, sem hv. 1. þm. Austf. gaf hér í sambandi við ríkisreikninginn. Það út af fyrir sig raskar ekki hinu, að ég óska mjög eftir því, að hv. fjhn. segi álit sitt um þá liði, sem sérstaklega er vísað til aðgerða Alþingis í sambandi við greiðslurnar, og skal ekki ræða það atriði nánar á þessu stigi málsins.

Hvað snertir fyrirspurn frá hv. 3. þm. Reykv., þá vil og fyrst og fremst benda honum á, að það eru hreinir órar, að nokkurt atvinnuleysi sé fram undan. Það sýnir bara, hvernig hans heilabú. er, að hann getur ekki hugsað sér annað en atvinnuleysi, af því að ákveðin stjórn situr hér að völdum, þó að hann viti, að það er útilokað að manna út heilan hóp af togurum, sem verða að liggja hér bundnir, vegna þess að það er ekki hægt að fá menn til að starfa á þeim. Þetta bendir ekki til þess, að það sé að verða eitthvert atvinnuleysi í landinu. Og ef hann vill athuga þær atvinnuleysisskýrslur, sem liggja fyrir, þá mun hann geta séð, að það er ekkert nálægt því, að hér sé um atvinnuleysi að ræða. Þess vegna er allt of fljótt fyrir mig að fara að svara um það, hvort ég vil halda áfram að styðja ríkisstj., sem hann heldur að sé að skapa atvinnuleysi í landinu, en ég veit að ekki á sér stað í veruleikanum: Ég vil einnig leyfa mér að beina því til hv. þm. Hefur hann gert sér ljóst, hve mikla erfiðleika sú stjórn, sem hann studdi, vinstri stjórnin, skildi hér eftir og hvernig sú stjórn var búin að torvelda stórkostlega trausta fjárhagslega þróun, og alveg sérstaklega, hvernig hún var búin að eyðileggja álit landsmanna og vilja um að halda áfram að starfa á eigin ábyrgð um afkomu framleiðslunnar? Er það þetta, sem hann hefur alveg gleymt? Hvers vegna sagði mikill meiri hluti þjóðarinnar við síðustu kosningar: Aldrei aftur vinstri stjórn? (Gripið fram í: Hún sagði einmitt: Aftur vinstri stjórn.) Það var vegna þess, að hún vissi, að vinstri stjórnin gafst upp við að leysa vandann. Hvers vegna hélt ekki vinstri stjórnin áfram fram af brúninni, eins og hæstv. þáv. forsrh. lýsti að hann væri að fara með hina flokkana með sér? Og hvers vegna var ekki þessi flokkur einmitt, Alþb., hvers vegna vildi hann ekki ljá þáv. forsrh. lið til þess að halda áfram, ef ske kynni, að hann gæti snúið við Og færi ekki fram af brúninni með öll atvinnumál í landinu?

Ég get sagt hv. þm. það, að skömmu eftir uppgjöf vinstri stjórnarinnar átti ég persónulegt samtal við Hermann Jónasson. Tjáði ég honum, að ég ásakaði hann ekkert fyrir það, þó að hann gæti ekki lagað vandann, því að það þarf meira en meðalmann til þess að laga fjárhagsmál þjóðarinnar og erfiðleika með slíkan flokk við hliðina á sér eins og Alþb. En hitt ásakaði ég hann fyrir, að leggja ekki sjálfur fram fyrir sína hönd og síns flokks ákveðin úrræði um það, hvernig ætti að leysa vandann, í stað þess að þjóta í burt úr stjórninni. Og svar Hermanns Jónassonar var, að það hefði verið samningsrof við Alþb. að bera fram tillögur, jafnvel þó að þær væru skynsamlegar og nauðsynlegar, svo lengi sem þeir héngu í stjórninni.

Þegar þjóðin vissi um þetta, sagði hún réttilega. Aldrei aftur vinstri stjórn, sem semur um, að foringinn megi ekki bera fram skynsamlegar tillögur í vandamálum, — aldrei framar menn, sem setja það inn í stjórnarsamningana á bak við tjöldin, að ekki megi bera fram á Alþ. nægilega skynsamlegar tillögur til þess að bjarga frá voðanum. — Heldur hv. 3. þm. Reykv., að það sé þessi samfylking, sem ég vil styðja til þess að leysa þann vanda, sem nú er fyrir höndum, — þann vanda, sem 99% var skapaður í stjórnartíð vinstri stjórnarinnar? Og það hefði verið allt annað að eiga við að halda áfram uppbyggingu hér í þessu landi, ef sú óhamingja hefði ekki skeð hér, að vinstri stjórnin sat við völd í nærri tvö og hálft ár.