28.11.1960
Neðri deild: 29. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

4. mál, ríkisreikningurinn 1958

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það var út af ummælum hv. 1. þm. Vestf., sem ég kvaddi mér hér hljóðs til þess að gera örstutta athugasemd við ræðu hv. þm.

Hv. þm. hélt því fram, að þjóðin hefði sagt: Aldrei framar vinstri stjórn. — Ég vil benda þessum hv. þm. á, að það var enginn flokkur í þessu landi, sem stóð eins vel að þeirri stjórn og Framsfl. Það var heldur enginn flokkur í þessu landi, sem fékk eins mikla fylgisaukningu í kosningunum á s.l. ári og Framsfl. Þetta segir allt annað en þessi hv. þm. vildi vera láta.

Hv. þm. hélt því fram, að það væri verið að fást við erfiðleikana frá vinstri stjórninni. Sannleikurinn er hins vegar sá, að s.l. ár var lifað á sjóðunum, sem vinstri stjórnin skildi eftir. Vegna þess að þeir eru nú upp étnir, er verið að fást við erfiðleika frá núverandi valdasamsteypu, sem þessari hæstv. ríkisstj. ætlar ekki að takast að leysa, þó að hv. þm. héldi því fram, að nú væri verið að leysa vandann. Hvaða vanda er búið að leysa í efnahagsmálum íslenzku þjóðarinnar? Vandinn er aldrei meiri en nú, eftir að stjórnarliðar hafa farið með völdin í landinu í tvö ár. Það eru því öfugmæli í meira lagi, sem þessi hv. þm. hélt hér fram.