09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

184. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég er samþykkur þeirri aðalstefnu, sem kemur fram í þessu frv., að í stað styrkja sé farið meira inn á lánabrautina, svo sem frv. mælir fyrir um. En ég tók hér til máls til þess að benda á, að þetta frv. er aðeins um einn flokk námsmanna, þ.e. háskólaborgara, styrkur eða lán til háskólaborgara innanlands, en síðan til fleiri námsflokka, þegar lært er erlendis. Í þessu sambandi vil ég benda á, hvort það sé alveg rétt fyrir Alþingi að hlúa eingöngu að þessum námsflokkum í landinu, og vildi mega beina því til hæstv. menntmrh., hvort hann væri til viðtals um það að gera verkefni lánasjóðsins víðtækari innanlands.

Ég vil leyfa mér að benda á, að eftir því sem tækniþróunin vex í þessu landi, er vaxandi þörf á þeim mönnum, sem stunda iðnnám. Til dæmis var hér á Íslandi komið á stofn 1916 vélstjóraskóla, og þegar borin er saman námsbraut vélstjóra og þeirra manna, sem nema hér við háskólann, þá sýnist ekki óeðlilegt, að tekið sé nokkurt tillit til þess kostnaðar, sem vélstjóranámið hefur í för með sér. Eins og nú er komið fræðslulöggjöfinni í landinu, verða þessir menn að inna af höndum gagnfræðanám, sem tekur 2 ár, áður en þeir koma í verknám. Síðan er þeim gert að skyldu að vera við verknám í 4 ár og á sama tíma vera við iðnskólanám, sem kostar þá mikla vinnu, bæði daga og nætur, alveg gagnstætt því, sem almennt er um þá unglinga, sem ganga í menntaskóla. Og þegar því er lokið, verða þeir að fara í bóklegt nám í vélstjóraskólanum í 3 ár. Þeir eru þá komnir samanlagt með 9 ára nám, án þess að hafa að nokkru leyti meiri tekjur en sá, sem gengur til háskólanáms. Ef við berum þetta saman við stúdentanámið, þá þurfa stúdentar fyrst að inna af hendi gagnfræðanám eða landspróf, sem tekur líka 2 ár, menntaskólanám, sem tekur 4 ár, og stytzta háskólanám 3 ár, ef farið er í guðfræðinám eða annað, sem hægt er að taka á skemmsta tíma. Við erum þá komnir í 9 ára nám, nákvæmlega sama tíma og vélstjórar. Haldi þeir áfram tvö ár til við háskólann, þá erum við komnir í 11 ára nám, miðað við 9 ára nám hjá vélstjórunum.

Nú skulum við ekki loka augunum fyrir því, að síðan var farið að byggja hér ýmiss konar iðjuver, frystihús, sementsverksmiðjur, áburðarverksmiðjur og rafmagnsiðjuver, eru fyrst og fremst kallaðir til starfa þessir menn, sem eytt hafa 9 árum til náms, og auk þess kallar til þeirra skipafloti landsmanna, eftir því sem hann eykst, þar koma stærri og vandaðri vélar og meiri þörf þar á mönnum með góða þekkingu til þess starfa. En flotinn er í dag þannig settur, að mjög mikill hluti af fiskveiðiflotanum hefur orðið að sætta sig við undanþágu frá náminu og verður að gera enn og það til stórtjóns fyrir alla útgerð og alla aðila, og það er vegna þess, að aðgangurinn að skólanum er ekki eins mikill og eftirspurn. Það er í þessum skóla nú eitthvað á annað hundrað manns, en fullnægir hvergi eftirspurninni, og það er m.a. vegna þess, að þeim er gert erfiðara um nám en t.d. í Háskóla Íslands, einkum og sér í lagi þegar miðað er við þau lög, sem hér á að setja.

Ég vil því mega beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh.: Er hann til viðtals um það, að einnig þessir menn fái að njóta á líkan hátt sams konar lána og hér er gert ráð fyrir? Ég get vel skilið, að það sé kannske ekki hægt á þeim stutta tíma, sem eftir er af þessu þingi, að fella það inn í þetta frv., og ég get vel fellt mig við það, að hæstv. ráðh. lýsi því yfir, að það skuli tekið til athugunar fyrir næsta þing, hvort ekki væri hægt að koma þessu á. Ég mundi vel fella mig við þá lausn málsins, því að ég hef fullan skilning á því, að það verði erfitt að fella það inn í þetta frv., vegna þess að það þurfi meiri undirbúning. En ég vænti þess, að hæstv. ráðh. láti orð falla um það hér, að hann vilji láta athuga þetta mál, athuga, hvort hægt sé að sameina þetta síðar við þetta frv., ef það verður ekki hægt nú, og hann vilji þá beita sér fyrir því, að það verði gert, því að mér er fullkomlega ljóst, að það er mjög mikil nauðsyn, að þetta mál sé tekið til athugunar. Ég tel, að það sé ekki rétt stefna hjá hv. Alþingi að beita sér eingöngu fyrir því, að sem flestir þegnar þjóðfélagsins fari í háskólanám á Íslandi.