09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

184. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var rætt hér á þingi í fyrra, vakti ég máls á því, að ekki væri nægilega langt gengið þá til að bæta upp íslenzkum námsmönnum þá kjaraskerðingu, sem hefði hlotizt af völdum gengislækkunarinnar, með þeirri fjárveitingu, sem þá var ætluð til þessara mála. Það hefur nú komið á daginn, að þessi athugasemd mín var rétt, eins og kemur fram í grg. þessa frv., að þær úrbætur, sem fengust þá, hafa hvergi nærri hrokkið til þess að bæta þá kjaraskerðingu námsmanna, sem leiddi af gengislækkuninni.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er stigið nokkurt spor í þá átt að bæta námsmönnum þetta með því að gefa þeim kost á auknum lánum. En ég dreg hins vegar mjög í efa, að það sé rétt stefna að ætla að gera þetta eingöngu með lánaleiðinni. Ég held, að það sé líka nauðsynlegt að gera þetta á þann veg að auka námsstyrkina frá því, sem veríð hefur. Við sjáum það, ef við athugum þetta frv. nánar, að þó að reynt verði að bæta úr þörfum námsmanna með auknum lánum, kemur til með að hvíla á þeim talsvert mikill baggi að námi loknu, þó að þeir njóti þeirra hlunninda, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er gert ráð fyrir því, að námsmaður geti fengið 25 þús. króna lán árlega í fimm ár, a.m.k. á sá möguleiki að vera fyrir hendi, eða samtals um 125 þús. kr., og þennan möguleika yrðu að sjálfsögðu allir þeir námsmenn að nota sér, sem hafa ekki þeim mun efnaðri aðstandendur. Mér sýnist, að þetta mundi þýða það, að þegar farið væri að endurborga lánin, mundu afborganir og vextir af þeim vera um 12 þús. kr. á ári í 15 ár, og það er að sjálfsögðu æði mikill baggi. Þess vegna dreg ég í efa, þó að námsmenn fái þau hlunnindi, sem felast í þessu frv., að þau verði nægjanleg, sérstaklega fyrir þá, sem efnaminni eru, og þess vegna ætti ekki síður að vinna að því að bæta úr þeirri nauðsyn, sem hér er fyrir hendi, með því að auka námsstyrkina en með því að fara lánaleiðina.

Það var alveg rétt, sem hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að einhver sú bezta og öruggasta fjárfesting, sem til væri, væri að styrkja unga og efnilega menn til framhaldsmenntunar, og ég held, að þetta komi til með að eiga enn þá frekar við í framtíðinni en það hefur þó átt við að undanförnu vegna þess, hve mikið kemur til með að velta á því, að þjóðfélagið hafi sem flestum vel menntuðum og ekki sízt tæknilega menntuðum mönnum á að skipa. Þess vegna held ég, að við þurfum að gera enn meira en gert er ráð fyrir í þessu frv. til að hvetja menn til að afla sér slíkrar menntunar og að gera mönnum það mögulegt, án þess að á þeim þurfi að hvíla mikill skuldabaggi um langan tíma, eftir að þeir hafa lokið námi. Víða erlendis færist það nú í vöxt til þess að hvetja unga menn til framhaldsmenntunar, að þeir séu látnir fá styrki í vaxandi mæli, og víða er ekki hægt að kalla þetta styrki, heldur námslaun, sem ég held að sé alveg eins rétt og gefi raunverulega réttari hugmynd um það, sem meint er með því framlagi, sem ríkið veitir í þessum efnum.

Ég vil í framhaldi af því, sem ég hef nú sagt; beina þeim tilmælum til þeirrar nefndar, sem kemur til með að fjalla um þetta mál, að jafnframt því sem að sjálfsögðu ber að taka vel frv., að því leyti sem það gengur í þá átt að skapa mönnum betri skilyrði til lána, þurfi að taka það alveg sérstaklega til athugunar, hvort ekki eigi að ganga mun lengra á þeirri braut en hingað til hefur verið gert að veita aukna námsstyrki. Ég vil í því sambandi endurnýja eða árétta þau ummæli að nýju, sem hæstv. menntmrh. sagði, að betri fjárfestingu er tæpast um að ræða en það að tryggja efnilegum mönnum sem bezta menntunarmöguleika.

Ég vil svo enn fremur taka undir það, sem hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) sagði, að mér finnst, að það eigi að athuga í þessu sambandi, hvort ekki sé rétt að veita fleiri ungum mönnum möguleika til námsstyrkja og námslána en þeim, sem stunda háskólanám.