10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

184. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins láta í ljós ánægju mína yfir því, að sú breyting hefur verið gerð á þessu máli, að styrkjunum verður haldið áfram, en þeir ekki lagðir niður, eins og gert var ráð fyrir í frv. upphaflega. Ég hefði hins vegar heldur kosið, að þetta hefði verið gert með þeim hætti, að heildarupphæðin yrði aukin, sem færi til styrktar námsmönnum, þannig að það framlag til lánanna, sem var í frv. upphaflega, hefði staðið óbreytt, en heildarupphæðin verið hækkuð, þannig að styrkirnir hefðu getað haldizt. Það hefði verið í samræmi við þær tillögur, sem við framsóknarmenn lögðum fram, er fjárlögin voru hér til umræðu. Ríkisstj. mun hins vegar hafa talið rétt að binda sig við þá upphæð og þess vegna kosið að fara þá leið, sem hér er nú farin, að lækka aftur þá upphæð, sem átti að verja til lána samkv. frv., og láta styrkina þá heldur haldast. Ég vænti þess, að við næstu fjárlög á næsta þingi verði þetta mál tekið til endurskoðunar á þann veg, að heildarupphæðin, sem fer til námsmanna, verði hækkuð, svo að lánin geti aukizt, þó að haldið verði svipuðum styrkjum og nú er og jafnvel nokkru hærri, og í trausti þess, að það verði gert á næsta þingi, get ég fylgt þessu frv. nú.