02.02.1961
Neðri deild: 54. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

178. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins, af því þetta mál er nú til umr. sérstaklega um Framkvæmdabankann, minna á það, sem ég sagði í umr, um frv. um Seðlabanka Íslands, að ég álít, að þetta frv., sem hér liggur fyrir um breyt. á lögunum, eigi að endurskoða mjög alvarlega í fjhn. með það fyrir augum að fella þennan banka niður og taka þá starfsemi hans, sem helzt gæti til heilla orðið, inn í starfsemi Seðlabankans. Ég álit, að það nái ekki nokkurri átt, að það sé haldið áfram, þegar á að endurskoða bankalöggjöfina til frambúðar, að halda einum banka, sem á að vera nokkurs konar, — ég vil ekki segja einkabanki fjmrh., en banki, sem er þannig út úr kerfinu, að hann heyrir alveg sérstaklega undir meira að segja annan ráðh. en bankamálaráðherrann og hefur verkefni, sem stangast allt saman á við það, sem aðrir bankar eiga að vinna og þá fyrst og fremst Seðlabankinn. Ég held, að ég hafi fært áðan rök fyrir því máli, að það sé ekki eðlilegt, þegar verið er að endurskoða bankalöggjöfina, að láta þennan banka haldast áfram, og mun þess vegna, þegar þetta mál verður rætt í fjhn., gera það að brtt. minni, að það úr starfsemi Framkvæmdabankans, sem rétt sé að haldist áfram, verði fellt inn í Seðlabanka Íslands og sérstaklega inn í þá hagfræðideild, sem þar ætti að starfa.