02.02.1961
Neðri deild: 54. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

178. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram, áður en þetta mál fer til nefndar, að ég tel þá breytingu, sem hér á að gera á bankaráðinu, ekki til bóta, og þá ekki heldur þá breytingu, sem á að gera á skipun bankaráðs Landsbankans, og það er vegna þess, að ég álít, að þau tengsl við ríkisstj., sem í því felast, að formaður bankaráðsins sé skipaður af henni, séu nauðsynleg og heppilegra að halda þeim en að breyta til eins og hér er gert ráð fyrir. Ég byggi þessa skoðun mína m.a. á því, að Framkvæmdabankanum er ætlað að vinna mjög mikið fyrir ríkisstj., hafa milligöngu um lántökur og útlán svo að segja á hennar vegum, og að þar þurfi þess vegna að vera talsvert mikil tengsl á milli og því frá mínu sjónarmiði síður en svo ástæða til þess að draga úr þeim frá því, sem þau eru nú.

Um Framkvæmdabankann að öðru leyti vil ég segja þetta: Ég átti mikinn þátt í því, að Framkvæmdabankinn var stofnaður, og tel, að það hafi verið alveg sérstakt heillaspor, að honum var komið á fót. Það var orðið þannig, að fjmrn. var að vissu leyti orðið bankastofnun. Það kom sem sé í ljós alltaf betur og betur, að viðskiptabankarnir og seðlabankinn töldu sig ekki geta haft með höndum þá lánastarfsemi alla saman, sem á ríkisins vegum þurfti að vera. Þeir töldu sig ekki geta haft á sinni könnu að taka fjárfestingarlán erlendis, t.d. með ríkisábyrgð, og lána þau aftur út innanlands.

Þess vegna var þetta í ríkara og ríkara mæli að verða þannig, að ríkisstj. sjálf tók þessi lán fyrir ríkissjóðs hönd og lánaði þau síðan aftur út. Þetta var orðin geysimikil starfsemi í sjálfu fjmrn., og það var augljóst, að það fór ekki vel á því, að þetta þyrfti að vera þarna í þessari stjórnardeild.

Enn fremur varð það augljóst, að Íslendingum var að áskotnast talsvert fjárfestingarlánafé, þar sem var mótvirðisféð, sem kom inn í landið í sambandi við Marshall-aðstoðina, og það var mjög þýðingarmikið, að þetta fjármagn yrði að sem mestu leyti útlánafé til framkvæmda og það varanlega, ekki bara lánað út í eitt sinn, heldur innheimt og síðan lánað út aftur og aftur, þetta yrði sem sagt að fjárfestingarfé til frambúðar. Augljóst var, að það var ekki hægt að setja þetta fé í eina framkvæmd, þetta var það mikið fé, að það varð að deila því í ýmsar framkvæmdir, og kom þá til álita, hvaða stofnun skyldi hafa þessa fjárfestingarlánastarfsemi með höndum.

Og þá sýndist ekki ráð að leggja þessa fjárfestingarlánastarfsemi til einhvers af viðskiptabönkunum. Það gat tæpast staðizt, að einhver einn af viðskiptabönkunum hefði slíka stórfellda almenna fjárfestingarlánastarfsemi fyrir landið með höndum. Og ekki hæfði heldur fyrir seðlabankann að hafa þetta hlutverk. Að þessu athuguðu, bæði því, hvernig þróunin varð um erlendu lántökurnar og milligöngu ríkisstj. og fjmrn. í því, og svo einnig með tilliti til þess, að þarna var að myndast í landinu talsvert af fjárfestingarlánafé, þá sýndist það vera einfaldasta og heppilegasta lausnin að setja upp fjárfestingarbanka hér, eins og gert hefur verið í mjög mörgum löndum, og mér er satt að segja ekki kunnugt um, að seðlabankar í öðrum löndum hafi með höndum hliðstæða fjárfestingarlánastarfsemi og Framkvæmdabankinn hefur hér.

Mín skoðun er sú, að reynslan hafi sýnt, að það var hyggilegt að koma Framkvæmdabankanum upp og láta hann hafa þessi hlutverk, bæði að vera lántakandi erlendis að lánum, sem voru tekin af opinberri hálfu, og svo að vinna að því að ráðstafa því fjárfestingarfé, bæði mótvirðisfénu og þá öðru fjárfestingarfé, sem inn í bankann kæmi hér innanlands. Hugsunin var sú, að með tímanum gæti komið inn í bankann eitthvað af innlendu fé, öðru en Marshallfé, þótt það hafi ekki orðið enn þá.

Ég álít, að það hafi komizt miklu betri skipan á fjárfestingarlán en áður með því að koma þessari stofnun upp, og mín spá er sú, að Framkvæmdabankinn eigi eftir að vaxa stórkostlega og verða með merkari stofnunum þjóðarinnar. Ég vil einnig benda á, að auk þess, sem ég nú þegar hef nefnt, hefur Framkvæmdabankinn einnig haft milligöngu um ýmsar aðrar lántökur erlendis, sem hefur orðið stórfellt hagræði að fyrir ýmis fyrirtæki í landinu, sem hafa verið að byggja sig upp, og það mjög heilbrigðar lántökur að mínu viti, sem engin önnur lánastofnun hér hefði talið sitt hlutverk að sinna. Starfsemi Framkvæmdabankans til þess að greiða fyrir uppbyggingunni hefur verið harla viðtæk.

En einmitt af því, að starfsemi Framkvæmdabankans er á þessa lund og hún er ákaflega mikið tengd ríkisvaldinu, svo sem ég vildi rifja upp í sambandi við þetta frv., tel ég, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, gangi ekki í rétta átt.