10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

178. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft mál þetta til meðferðar, en við afgreiðslu þess í n. var aðeins viðstaddur meiri hl., svo sem fram kemur á þskj. 442.

Eins og frv. var, þegar það var lagt fyrir, er í raun og veru ekki önnur efnisbreyting á lögunum um Framkvæmdabankann en breyting á skipan bankaráðsins til samræmis við tilsvarandi ákvæði um bankaráðin í hinum ríkisbönkunum, sem bæði hefur verið lögfest og liggja fyrir till. til lögfestingar um. En undir meðferð málsins komu tilmæli til n. frá hæstv. fjmrh. að hækka nokkuð heimildina til ríkisábyrgðar fyrir lánum, sem bankinn hefur, en samkvæmt 9. gr. laganna um Framkvæmdabanka Íslands frá 1953 eru ákvæði um það, að fjmrh. sé heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs erlend lán og erlendar skuldbindingar bankans með þeim skilmálum, er hann samþykkir, þó má samanlögð upphæð þeirra erlendra skulda bankans, sem ríkissjóður ábyrgist samkvæmt þessari grein, ekki vera hærri en 80 millj. kr. Þessi upphæð, 80 millj., var svo hækkuð með l. nr. 39 frá 1954 upp í 225 millj. og enn með l. nr. 35 frá 1957 um 150 millj., þannig að heimildin er nú 375 millj. Það er nokkuð ónotað af þessari heimild, en hefur náttúrlega breytzt i gildi í sambandi við gengisbreytinguna, og ef bankinn aðeins fengi að halda sömu heimild og hann hefur nú, miðað við gengisbreytinguna, þá mætti hækka heimildina um 125 millj. kr. M.ö.o.: ef hámarkið verður fært upp í 500 millj., er það efnislega ekki breyting frá því, sem var hjá bankanum fyrir gengisbreytinguna. En það er lagt til i brtt. meiri hl. á þskj. 442, að hámarksupphæðin verði 600 millj., og er það í samráði við eða eftir ósk hæstv. fjmrh., og þá er aukin raunverulega og efnislega um 100 millj. kr. heimildin til ríkisábyrgðar á erlendum lántökum.

Það liggur ekki fyrir nein sundurliðuð grg. um það, en bankinn hefur verið að leita eftir erlendum lántökum, sem sennilega þyrfti að nota ríkisábyrgðina í sambandi við, bæði almennt og i sambandi við hús bændasamtakanna og fyrirhugaðar ráðagerðir um að koma upp hóteli í hluta af því húsi. Einnig hefur verið leitað eftir lánum í sambandi við a.m.k. að breyta í lengri lán stuttum lánum, togaralánum, sem áður hafa verið tekin. Og svo hefur bankinn fyrir hönd ríkissjóðs að jafnaði tekið þessi svokölluðu PL-480 lán frá Bandaríkjunum, sem ríkisábyrgð hefur jafnan verið á, þannig að það þótti eðlilegt að breyta núna hámarki heimildarinnar fyrir ríkisábyrgð til samræmis í fyrsta lagi við gengisbreytinguna, og það nemur um 125 millj. kr., en þar að auki 100 millj. kr., svo að hámarkið færist með þessum hætti úr 375 millj. upp í 600 millj. kr.

2. brtt. frá fjhn. er sú, og það er til samræmis við aðrar brtt., sem n. hefur flutt, bæði í sambandi við landsbankalöggjöfina, seðlabankalöggjöfina og útvegsbankalöggjöfina, að fella niður ákvæði um það, ef bankaráðsmaður eða varamaður fellur frá eða verður óhæfur til starfsins, áður en starfstími hans er á enda, að Alþingi kjósi þá annan mann í hans stað. Þetta er fellt niður, og það stendur þá opið, ef svo fer, að bæði aðalmaður og varamaður falla frá á tímabilinu, sem þeir eru kosnir, og var sá skilningur í n., svo sem gerð hefur verið grein fyrir í sambandi við önnur hliðstæð frv., að fram úr þeim vanda yrði þá að ráða hverju sinni, væntanlega með samkomulagi þingflokka á hverjum tíma og eftir þeirri meginreglu, að það röskuðust þá ekki hlutföll í bankaráðunum af þessum sökum á milli þingflokkanna.

3. brtt. er aðeins afleiðing af 1. brtt., að fella þá úr gildi þær fyrri breyt., sem voru gerðar um hámark ríkisábyrgðarinnar, því að það þótti eðlilegra að taka upp þann hátt að taka beinlínis upp 9. gr., eins og hún er í löggjöfinni, og hún er þá óbreytt samkvæmt 1. brtt. eins og hún er þar, aðeins með hámarksupphæðinni 600 millj., sem upphaflega var 80 millj., en er komið upp í 375 millj.

Ég vænti, að hv. þdm. séu ljósar þær breyt., sem hér um ræðir, og meiri hl. leggur sem sagt til, að með þessum breyt. verði þetta frv. samþ.