10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

178. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gat ekki mætt á fundi fjhn., þegar mál þetta var afgreitt þaðan, af sérstökum ástæðum, og hef ekki skilað nál.

Eins og frv. er nú, væri það í samræmi við önnur stjórnarfrumvörp um bankamál, sem hér hafa verið til meðferðar í d. Breytingin, sem í frv. felst, er varðandi skipun bankaráðsins, og ég get ekki fallizt á það, að rétt sé að gera þessa breyt., hvorki hjá Framkvæmdabankanum né hinum bönkunum. Ég mun því ekki greiða atkv. með 1. gr. frv., sem um þetta fjallar, og ekki með frv., eins og það er, heldur leggja á móti því.

En nú hefur hv. meiri hl. fjhn. borið fram brtt. í sínu nál. á þskj. 442 um það að auka við þær heimildir, sem fjmrh. hefur í lögum til að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs erlend lán, er Framkvæmdabankinn kann að taka. Samkv. því, sem frsm. meiri hl., hv. 5. þm. Reykv., gerði grein fyrir, eru ábyrgðarheimildir, sem áður hafa verið veittar, alls 375 millj., en svo er talið, að hækka þurfi upphæðina um 125 millj. Vegna þess að nokkuð af nefndri heimild er nú ónotað og vegna gengisbreytingarinnar þarf að hækka upphæðina, til þess að jafnmikið fáist og áður í erlendri mynt. Frsm. taldi, að það þyrfti 125 millj. kr. hækkun af þessum sökum, og þó að það yrði samþykkt, þá yrðu ábyrgðarheimildirnar raunverulega óbreyttar. En þar til viðbótar er lagt til, að samþ. verði viðbót við heimildirnar, 100 millj. kr.

Það má vel vera, að það sé þörf til eða ástæða fyrir að hækka þessa ábyrgðarheimild fyrir Framkvæmdabankann. En ég hefði talið það æskilegt, áður en Alþingi samþykkir slíka hækkun, að það lægju fyrir fyllri upplýsingar um það, hvernig áformað væri að nota þær ábyrgðarheimildir, til hvaða framkvæmda væri ráðgert að bankinn tæki lán gegn ábyrgð ríkissjóðs. Ég hefði talið, að það ætti að liggja fyrir skýrsla um það, hvernig eftirstöðvar ábyrgðarheimildanna, sem nú eru og mundu verða 125 millj. samkv. því, sem hér hefur komið fram, yrðu notaðar og þá einnig viðbótin. Sem sagt, ég hefði talið, að það ættu að liggja fyrir nánari upplýsingar um notkun á þeim 225 milljónum, sem lagt er til í till. meiri hl. að við bætist ábyrgðarheimildirnar.