10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

178. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur ekki viljað verða við þeirri ósk að gefa neina yfirlýsingu um, til hvers ætti að nota þær auknu lánheimildir, sem hér er farið fram á. Er það þó venjulega það, sem hefur þótt það minnsta, sem gert væri, þegar farið er fram á heimildir til lánveitinga á Alþingi af hálfu ríkisstj., að sagt sé, til hvers það sé.

Hæstv. fjmrh. talar um það í því sambandi, að þegar lánsheimildir hafi áður verið veittar vegna Framkvæmdabankans, hafi ekki verið óskað eftir upplýsingum um, til hvers ætti að nota féð, að því er mér skildist. Ég hef ekki farið gegnum Alþingistíðindin, sem ég sé að hann hefur allmikinn bunka af, en skal taka hann trúanlegan um þetta, að það hafi enginn óskað eftir því, hvorki fylgjandi stjórnar né stjórnarandstaða, að neinar upplýsingar væru gefnar um þetta, og því hafi ekki verið ástæða fyrir fjmrh. á þeim tíma að gefa neinar upplýsingar. Það er út af fyrir sig alveg ágætt, að það skuli hafa verið svo gott samræmi og samkomulag um þessa hluti á þeim tíma og svona mikið gagnkvæmt traust, að stjórnarandstaða, hver svo sem hún hefur verið á þessum tíma, — og það hafa m.a. verið í stjórnarandstöðu á þessum tíma báðir þeir flokkar, sem nú sitja í stjórn, — hefur ekki fundið neina ástæðu til þess að spyrja um slíkt. Ég get ekki skýrt þetta öðruvísi en svo, að á þessum undanförnu 10 árum, sem þessar lánsheimildir hafa verið hækkaðar til Framkvæmdabankans, hafi menn hér á Alþingi, hvaða flokkar sem hlut áttu að máli, yfirleitt ekki verið hræddir um, að það væri farið þannig að viðvíkjandi gengisskráningu íslenzku krónunnar, að það væri einhver stórhætta á ferðum í hvert skipti, sem ætti að veita lánsheimild, og þess vegna hafi hvorki Sjálfstfl. né Alþfl.Sósfl. né Alþb., sem hafa allir verið í stjórnarandstöðu á þessum tímum, fundið ástæðu til þess að spyrja um slíkt eða vekja athygli á slíku. Það er þess vegna mjög eftirtektarverð staðreynd, sem hæstv. fjmrh. upplýsir, að það sé í fyrsta skipti nú, ef þetta er allt rétt hjá honum, sem ég ekki efa, að það koma fram óskir um að fá að vita, til hvers eigi að nota peningana.

Hvernig stendur á því, að þessar óskir skuli nú komnar fram og það frá tveimur flokkum í þinginu? Það þarf ekki að leita lengi að því til að sjá, hvernig á því stendur. Það hefur aldrei á þessum tíu árum verið svo óábyrg fjármálastjórn, verið svo samvizkulauslega farið með fjármuni ríkisins og með lánstraust ríkisins erlendis eins og nú er gert. Það hefur aldrei legið fyrr fyrir á Íslandi í sambandi við, þegar menn hafa verið að taka lán, að Alþingi mætti eiga það á hættu, að þegar væri búið að gefa ríkisstj. heimild til þess að taka lán, væri farið út í það rétt á eftir að lækka gengið. Það er þetta, sem veldur því, að nú er spurt og það af hálfu tveggja flokka í þinginu, til hvers eigi að nota peningana. Meðan menn gátu nokkurn veginn treyst því, eins og hæstv. fjmrh. virðist hafa upplýst með þessu, að það mundi ekki verða farið svo ógætilega með þetta lánsfé, sem ríkið tæki, að það væri verið að leika sér bókstaflega að því eða verið að nota það sem vopn i stéttabaráttunni innanlands að lækka gengi krónunnar, — meðan menn gátu nokkurn veginn treyst slíku, og eftir gengislækkunina 1950 hafa menn auðsjáanlega gengið út frá því, að þetta mundi vera tiltölulega traust um tíma, þá voru menn ekki eins mikið að spyrja um þetta. Það, sem hins vegar veldur því, að menn nú óska upplýsinga, er, að menn eru orðnir hvekktir. Menn eru hvekktir af því, að þarna sé farið svo ógætilega að, að það sé verið að leika sér að því bókstaflega að fella gengi íslenzku krónunnar, og það sé ekki nóg með, að það sé verið að leika sér, heldur er bókstaflega verið að hóta því og það af hálfu valdamanna i þjóðfélaginu, að svo framarlega sem t.d. verkamenn fá sitt kaup hækkað, verði lagt út í lækkanir á genginu.

Hæstv. fjmrh. má engan veginn búast við því, að þó að það hafi verið þannig á undanförnum árum, að Sjálfstfl., þegar hann hefur verið í stjórnarandstöðu, og Alþfl. og Sósfl. eða Alþb., þegar þeir hafa verið í stjórnarandstöðu, hafi ekki gert mikið veður út af slíku eða jafnvel fundið ástæðu til þess að spyrja eða koma fram með óskir, þá er ástandið orðið þannig í þjóðfélaginu núna. Við vitum, hvernig þetta ástand er. Við vitum, að það eru nokkrir stórlaxar, m.a. í Sjálfstfl., sem skulda tugi, ef ekki hundruð millj. króna í bönkunum, sem vinna að því öllum árum, að gengi krónunnar sé lækkað, og vilja nota til þess hverja átyllu, sem þeir geta fengið, til að láta strika út hjá sér skuldirnar og skeyta ekki um það í því sambandi, þó að mikil lán, sem ríkið hefur tekið erlendis, margfaldist þar með í verði. Það er þetta samvizkuleysi. Það er þessi vægðarlausa misnotkun á pólitísku valdi nokkrum skuldakóngum til framdráttar, sem gerir, að menn eru nú hvekktir. Þess vegna þykir mér það slæmt, að hæstv. fjmrh. skuli ekki hafa orðið við því að ræða nokkuð um þetta.

Ég held satt að segja, að hæstv. ríkisstj. standi ekki þannig að vígi í meðferð fjármála, sízt af öllu í sambandi við ríkisábyrgðir fjmrn., að hún hafi efni á því að neita þm. um upplýsingar. Hæstv. fjmrh. hefur heimild af hálfu ríkisins til þess að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs lán, sem tekin eru erlendis. Og það er gert ráð fyrir því, að hæstv. fjmrh. noti slíkar heimildir af samvizkusemi. Ég vil bara rétt minna á það, til þess að segja þeim stjórnarflokkum, sem nú fara með völdin, að það er ekki rétt af þeim að vera með neinn hroka í slíku sambandi, að það er fullkomin þörf rannsóknar á, hvernig fjmrh. þessara flokka hafa hagnýtt slíkt vald. Ég á þar með alveg sérstaklega við þann fjmrh., sem sat á undan hæstv. núv. fjmrh., núv. utanrrh. Ábyrgðirnar, sem menn hafa heimild til þess að gefa fyrir hönd ríkissjóðs, eru gefnar á þeim grundvelli, að fjmrn. álíti tryggingarnar gildar, sem gefnar séu. Og ég býst við, að það verði tilefni hér bráðum í þinginu til þess að taka þau mál til nákvæmrar rannsóknar, hvernig þessar heimildir hafa verið notaðar, þannig að það er engin ástæða til þess, svo framarlega sem menn vita betur, að vera að neita um upplýsingar í þessu efni. Hitt er aftur á móti allt annað mál, ef menn segja sem svo: Okkur langar til þess að hafa þetta fé til vara, til þess t.d. að tryggja ýmis gagnleg innkaup viðvíkjandi framleiðslutækjum, sem bæta gjaldeyrisaðstöðu landsins. — Það er ekki alveg sama, um hvað er að ræða í slíku. Mér þykir það sem sé slæmt, að hæstv. fjmrh. skuli ekki hafa orðið við þessari ósk, en við því er ekkert að gera.