10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

178. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta mál er svo einfalt, að í rauninni ættu þessar umr. að vera gersamlega óþarfar. Framkvæmdabankinn hefur farið fram á það af tveimur ástæðum, að ríkisábyrgðarheimildin í gildandi lögum verði hækkuð. Önnur ástæðan er gengisbreytingin á s.l. ári, og þarf að hækka upphæðina í íslenzkum krónum, til þess að bankinn geti haft svipaða aðstöðu um erlendar lántökur og áður. Ég hélt, að þetta væri auðskilið mál, og ætti varla að þurfa um það að deila. Hin ástæðan er sú, að Framkvæmdabankinn, sem hefur nú að mestu notað þær heimildir, sem hann hefur i lögum, óskar eftir að fá nokkra viðbótarheimild, til þess að hann hafi möguleika á erlendum lántökum, þegar á þarf að halda og þær eru mögulegar. Þetta er allt og sumt, sem frv. snýst um. Varðandi síðara atriðið hefur það frá stofnun bankans þótt sjálfsagt, að bankinn hefði nokkuð rúmar hendur varðandi ríkisábyrgðir til að taka erlent lán til þeirra framkvæmda eða umbóta, sem bankaráð bankans og bankastjóri hafa ákveðið.

Það er nú þannig eins og jafnan áður, að það er ekki ákveðið, til hverra einstakra framkvæmda eða lántaka þessar ábyrgðir verði notaðar. Hv. frsm. meiri hl. nefndi hér nokkur atriði, sem væru til athugunar hjá bankanum, en lántaka hefur ekki verið ráðin né ríkisábyrgð ákveðin í neinu þeirra tilfella.

Það er furðulegt, að þessir tveir hv. þm., síðustu ræðumenn, 3. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Norðurl. v., sem báðir hafa staðið að því að veita hækkunarheimildir ríkisábyrgða fyrir Framkvæmdabankann án þess sjálfir að minnast á það í þingræðum eða nál., til hvers ætti að nota þetta, að nú gera þeir veður út af þessu.

Ég skal nú sýna, hvernig þetta var síðast, þegar heimildin var hækkuð um 150 millj. kr. Það var á þinginu 1956–57, þegar báðir þessir hv. þm., sem hér hafa verið með gagnrýni, voru í stjórnarliði, stjórnarstuðningsmenn. Þá er lagt fram frv. um breyt. á framkvæmdabankalögunum. Það eru tvö atriði í því: annað er breyting á bankaráðinu og hitt er um hækkun á ríkisábyrgðarheimild fyrir Framkvæmdabankann um 150 millj. kr. Í grg. er ekki minnzt á einu orði, til hverra framkvæmda eigi að nota þetta. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárhæðin var upphaflega 80 millj., var hækkuð í 225 millj., en nú er svo komið, að eigi er eftir af heimild þessari nema 60–70 millj., og þykir óhyggilegt, að ráðh. hafi eigi meiri möguleika til að veita bankanum ríkisábyrgð á erlendum lánum, þegar litið er til þess, hver reynslan hefur verið undanfarið. Með því er með frv. lagt til, að til viðbótar þeirri fjárhæð, sem nú er lögum samkv. heimilt að ábyrgjast, megi ríkissjóður ábyrgjast allt að 150 millj. kr.“

Síðan er ekki eitt einasta orð um, til hvers á að nota þetta, í hvaða einstakar framkvæmdir. Þetta er í sjálfu stjfrv., sem var borið fram af hv. núv. 1. þm. Austf. Síðan var málinu vísað til fjhn. Nd. Hún klofnar, og meiri hl. leggur til, og í meiri hl. eru þeir Skúli Guðmundsson og Einar Olgeirsson, að þetta sé samþ. óbreytt. Þeir minnast ekki á það, hvorki í nál.umr., til hverra hluta eigi að nota þetta, af því að þeir voru þá þeirrar skoðunar, eins og þeir hafa verið frá stofnun bankans eða a.m.k. hv. 1. þm. Norðurl. v., að það væri eðlilegt, að bankinn hefði nokkrar heimildir til þess að fá erlent lán og ríkisábyrgð á þeim, þegar á þyrfti að halda til einhverra einstakra framkvæmda. Sem sagt, það hefur aldrei komið fyrir, meðan þessi mál hafa verið til umr. hér í Alþingi, að það væri sundurliðað í einstökum atriðum, til hverra hluta ætti að nota þessar ábyrgðir.