15.03.1961
Efri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

178. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í þessu frv. um breyt. á lögum um Framkvæmdabankann felast tvær aðalbreytingar. Önnur snertir skipun bankaráðsins. Þegar bankinn var stofnaður, var bankaráð hans þannig skipað, að Alþ. kaus þrjá menn í bankaráð, fjórði maður var tilnefndur af Seðlabankanum og sá fimmti var sjálfkjörinn, ráðuneytisstjórinn í fjmrn. Árið 1957 var skipun bankaráðsins breytt með lögum. Skyldu þá fjórir bankaráðsmenn kosnir hlutfallskosningu af Alþ., en sá fimmti skipaður af fjmrh., og skyldi hann vera formaður bankaráðsins. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að breyta skipun bankaráðsins í það horf, að allir fimm bankaráðsmenn skuli kosnir hlutfallskosningu af Sþ. Sú skipan er til samræmis við það, sem gert er ráð fyrir í öðrum bankafrv., sem hér liggja fyrir, Seðlabanka, Landsbanka, Útvegsbanka, og samþ. var á síðasta Alþ. um Búnaðarbanka Íslands. Gert er svo ráð fyrir, að ráðh. skipi einn þessara þingkjörnu manna sem formann bankaráðsins. Enn fremur er ákvæði um, að ráðuneytisstjórinn í fjmrn. skuli eiga sæti á fundum bankaráðsins með málfrelsi og tillögurétti. Bankinn hefur margvísleg störf á höndum fyrir fjmrn., og hefur frá öndverðu verið talið sjálfsagt, að náið samstarf yrði milli rn. og bankans. Það þykir því eðlilegt, að ráðuneytisstjórinn eigi sæti með þessum hætti í bankaráðinu.

Hin breyt. er sú, var gerð í meðförum Nd., að breyta þeirri hámarksupphæð, sem veita má ríkisábyrgð fyrir á erlendum lánum bankans. Þegar Framkvæmdabankinn var stofnaður, var ákvæði um það, sem er óbreytt einnig samkv. þessu frv., að ríkissjóður beri ábyrgð á innlendum skuldbindingum bankans. Enn fremur var svo ákveðið, að fjmrh. væri heimilt að ábyrgjast erlend lán fyrir Framkvæmdabankann að upphæð allt að 80 millj. kr. Það var talið þá, að nauðsynlegt væri fyrir bankann að hafa slíkar heimildir, þegar hann tæki lán erlendis til einhverra sérstakra þarfa eða framkvæmda, sem bankinn vildi lána til og greiða fyrir. Ári eftir að bankinn var stofnaður, eða árið 1954, var þessi 80 millj. heimild hækkuð upp í 225 millj., og árið 1957 var þessi upphæð enn hækkuð um 150 millj., þannig að hún er nú 375 millj. Það er sú upphæð, sem heimilt er að veita ríkisábyrgðir fyrir á erlendum lánum bankans. Nú er þessi upphæð að sjálfsögðu reiknuð í íslenzkum krónum, og vegna gengisbreytingarinnar er þörf á að endurskoða og breyta þessari upphæð. Nokkur upphæð af þessum 375 millj. er enn ónotuð. Til þess að bankinn geti fengið með ríkisábyrgð jafnháa upphæð í erlendum gjaldeyri og fyrir gengisbreytinguna, þarf að hækka þessa fjárhæð í ísl. kr. Auk þess er eðlilegt, að um leið og greitt er af þeim lánum með ríkisábyrgð, sem bankinn hefur þegar tekið, skapist bankanum möguleikar til að taka jafnháa upphæð í erlendum gjaldeyri í staðinn, þannig að möguleikar hans að þessu leyti minnki ekki. Þetta er önnur ástæða til þess, að hækka þarf þessa upphæð. Loks hefur bankinn farið fram á, þar sem nokkuð langt er komið um notkun þessarar heimildar, að hann fái nokkra viðbótarheimild til þess að hafa möguleika á erlendum lántökum, þegar hann þarf á að halda vegna framkvæmda, sem hann vill eða ætlar að lána til. Af þessum ástæðum flutti meiri hl. fjhn. hv. Nd. till. um að hafa þessa hámarksupphæð 600 millj. kr., og liggja til þess þær þrjár ástæður, sem ég hér hef rakið.

Ég vænti þess, að þetta frv. fái góðar undirtektir í hv. þd., og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.