20.03.1961
Efri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

178. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef ekki gefið út neitt nál. sem nm. í fjhn., en það er tekið fram, sem rétt er og frsm. meiri hl. gat um, að ég sá mér ekki fært að mæla með frv.

Þetta frv. er eitt af fjórum samhliða frumvörpum um breytingar á bankalöggjöfinni, og mér virðist það athugavert við öll þessi frumvörp sameiginlega, að þau eru ekki gerð með gagngerri endurskoðun á bankalöggjöfinni, sem þó hefði mátt telja þörf á að gera og rétt hefði verið að gera, úr því að haft er fyrir því að breyta löggjöf þessara banka hér á Alþingi. Í öðru lagi virðist mér það ekki fullkominn tilgangur eða meðmælaverður að breyta löggjöf þessara banka fyrst og fremst með tilliti til þess að stytta gildistíma kosninga þeirra bankaráðsmanna, sem voru gerðar á sínum tíma. Umboð þeirra hafa ekki enn gengið út, og mér sýnist, að það hefði gjarnan verið hægt að bíða með slíkar ráðstafanir, þangað til búið væri að endurskoða löggjöfina. Enn fremur virðist mér, að þetta gæti verið dálítið athugavert, ef ríkisstjórnir tækju upp á því yfirleitt, — þær eru fljótar að fara frá völdum oft og einatt og nýjar koma, — að hver ný stjórn felli niður umboð bankastjórna til þess að koma að sínum stuðningsmönnum og gera gildandi sína pólitísku stefnu hverju sinni. Það er hætt við, að þá mundi bankastarfsemin geta orðið alllaus í rásinni í framkvæmd frá stjórnartímabili til stjórnartímabils.

Sú breyting, sem hér á að gera á l. um Framkvæmdabanka Íslands samkv. 1. gr. þessa frv., er vafalaust mjög réttmæt vegna breytts peningagildis. Hins vegar sé ég ekki, að hún gefi frv. það gildi og skapi því þá nauðsyn, að hún yfirskyggi aðrar þær breytingar, sem ég er búinn að nefna, og það athugaverða við setningu þeirra laga, sem nú á að setja um þessa fjóra banka, og þess vegna mun ég greiða atkv. á móti þessu frv. í heild.