17.10.1960
Efri deild: 5. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

41. mál, Listasafn Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Frv. um Listasafn Íslands samhljóða þessu frv. var flutt á síðasta Alþ., en varð þá eigi útrætt.

Um listasafnið eru nú ekki til nein lög. Því var það, að ég í janúar 1957 skipaði nefnd til þess að semja frv. til laga um safnið. Áttu sæti í n. Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, Björn Th. Björnsson listfræðingur, Gunnlaugur Scheving listmálari, dr. Gunnlaugur Þórðarson stjórnarráðsfulltrúi og frú Selma Jónsdóttir, umsjónarmaður listasafnsins. Er frv. þetta í öllum aðalatriðum eins og n. lagði til, að það skyldi vera. Áður en frv. var lagt fyrir Alþ., var það borið undir Bandalag ísl. listamanna, Félag íslenzkra myndlistarmanna, félagið Óháðir listamenn, Nýja myndlistarfélagið, þjóðminjavörð og menntamálaráð Íslands. Þær umsagnir þessara aðila, sem menntmrn. bárust, eru birtar með frv. sem fylgiskjöl. Að höfðu samráði við nefndina, sem frv. samdi, tók rn. til greina nokkrar ábendingar Félags ísl. myndlistarmanna, sem fjallaði um frv. fyrir hönd Bandalags ísl. listamanna, og sumar aths. þjóðminjavarðar.

Árið 1885 hafði Björn Bjarnarson, síðar sýslumaður og alþm. Dalamanna, forgöngu um það, að gefin voru hingað til lands 38 málverk, flest eftir danska málara, eða 29, en 6 eftir Norðmenn, 1 eftir Svía, 1 eftir Austurríkismann og 1 eftir Þjóðverja. Málverkin voru send landshöfðingja, en hann kom þeim fyrir í alþingishúsinu. Árið 1895 bættust 29 myndir i safnið, en þær hafði Edvald J. Johnsen læknir ánafnað safninu eftir sinn dag. Ári síðar áskotnuðust safninu enn 2 málverk. En fyrsta myndin, sem listasafnið eignaðist eftir íslenzkan mann, var höggmyndin Útilegumaður eftir Einar Jónsson frá Galtafelli. Ditlev Thomsen ræðismaður gaf safninu þá mynd árið 1902. Fyrsta málverkið, sem safnið eignaðist eftir Íslending, var málverkið Áning eftir Þórarin B. Þorláksson, en þá mynd gáfu nokkrir menn í Reykjavík safninu 1911.

Hinn 16. sept. 1915 fólu forsetar Alþingis þjóðminjaverði „alla umsjón, niðurskipun og skrásetningu allra málverka og listaverka þeirra, er Alþingi á eða landið“. Er sagt í bréfi forsetanna til þjóðminjavarðar, að þeir ætlist til, að safn þetta verði „framvegis sem sérstök deild af þjóðminjasafni landsins“, og verði ekki keypt neitt af listaverkum til safnsins nema í samráði við þjóðminjavörð. Samtímis veitti Alþingi nokkurt fé, til þess að unnt væri að hafa safnið til sýnis. 24. jan. 1916 ákvað stjórnarráðið, að „Listasafn Íslands, hér undir telst málverkasafn landsins og önnur listaverk, sem landið á, skal vera undir umsjón þjóðminjavarðar og vera ein deild af þjóðminjasafninu. Öll listaverk, sem landið síðar kann að eignast, skulu jafnóðum lögð til listasafnsins“. Kom safnið þannig í umsjón þjóðminjavarðar, Matthíasar Þórðarsonar. Alþingi veitti jafnvel nokkurt fé til kaupa á erlendum listaverkum, auk þess sem safnið eignaðist smám saman verk eftir íslenzka listamenn.

Ýmsar góðar gjafir bárust safninu og á næstu árum. Má þar til nefna gjafir Guðjóns Sigurðssonar úrsmiðs, Helga Sigurðssonar prests á Melum, Christians Gierlöffs rithöfundar í Osló, frú Kristínar Andrésdóttur, ekkju Markúsar Ívarssonar forstjóra, og dætra þeirra, Magnúsar Grönvolds yfirkennara í Osló, Ragnars Moltzaus útgerðarstjóra í Osló og L. Foghts forstjóra í Kaupmannahöfn.

Síðast, en ekki sízt, ber að nefna verðmætustu gjöfina, sem listasafninu hefur hlotnazt. Árið 1958 eignaðist listasafnið öll málverk Ásgríms Jónssonar listmálara, húseign hans og lausafé. En hann hafði í gjafabréfi ákveðið, að eftir andlát sitt skyldu öll málverk sín, hús og peningar verða eign listasafns ríkisins, og skulu þau varðveitt í húsi hans, þar til listasafn hafi verið byggt, þar sem myndunum sé tryggt svo mikið rúm, að gott yfirlit fáist um safn hans. Í safninu reyndust 423 fullgerðar myndir, þar af 198 olíumálverk og 225 vatnslitamyndir, auk þess 236 ófullgerðar myndir, 203 olíumálverk og 33 vatnslitamyndir, og enn fremur mjög margar teikningar. Er þetta ein verðmætasta gjöf, sem íslenzka ríkinu nokkru sinni hefur verið gefin.

Árið 1928 voru sett lög um menntamálaráð og menningarsjóð, og var í þeim ákveðið, að listasafnið skyldi vera undir stjórn menntamálaráðs og fé varið úr menningarsjóði til listaverkakaupa. Á árunum 1928—59 hefur verið varið 1.9 millj. kr. til listaverkakaupa. Á árinu 1951 var safninu komið fyrir í byggingu þjóðminjasafnsins, og hefur það verið þar síðan. Hefur aðsókn að safninu jafnan verið mikil. Auk þess sem þar hafa verið sýndar myndir safnsins sjálfs, hefur verið efnt þar til ýmissa sérsýninga, svo sem á myndum Ásgríms Jónssonar, Jóns Stefánssonar og Jóhannesar S. Kjarvals.

Þá skal ég fara nokkrum orðum um helztu ákvæði frv.

1. gr. kveður svo á, að safnið sé eign íslenzka ríkisins og fari menntmrn. með yfirstjórn þess. Þá er þar kveðið svo á, að menningarsjóður greiði listasafninu a.m.k. 500 þús. kr. árlega af tekjum sínum til listaverkakaupa. Þegar ný löggjöf var sett um menntamálaráð og menningarsjóð árið 1957 og menningarsjóði séð fyrir mjög auknum tekjum með því að leggja sérstakt gjald á aðgöngumiða að skemmtunum, var það að sjálfsögðu gert til þess að bæta skilyrði menningarsjóðs til þess að gegna hlutverki sínu. Verkefni menningarsjóðs hafa frá upphafi verið þríþætt: bókaútgáfa, listaverkakaup handa listasafninu og stuðningur við vísindarannsóknir. Tekjurnar, sem menningarsjóður hafði úr að spila i þessum tilgangi, voru sektir fyrir áfengislagabrot, og höfðu þær numið um 1/2 millj. kr. um nokkurt skeið. Höfðu tekjur þessar reynzt allt of litlar til þess að sinna þessum miklu og fjölbreyttu verkefnum. Með þeirri breytingu, sem gerð var á lögum um menningarsjóð 1957, voru tekjur hans um það bil sexfaldaðar eða auknar upp í því sem næst 3 millj. kr. Jafnframt var að vísu stofnaður vísindasjóður og menningarsjóði ætlað að greiða til hans a.m.k. 800 þús. kr. árlega, en jafnframt var þeirri skyldu í aðalatriðum létt af menningarsjóði að efla vísindarannsóknir í landinu. Tekjur þær, sem menningarsjóður skyldi hafa til ráðstöfunar til þess að sinna hinum öðrum verkefnum sínum, urðu því rúmlega fjórfaldar á við það, sem áður hafði verið. Með hliðsjón af því, að menntamálaráð hafði um allmörg undanfarin ár varið um það bil 100–150 þús. kr. árlega til listaverkakaupa, er eðlilegt, að nú sé varið um það bil hálfri milljón árlega í þessu skyni. Eru ákvæði 1. gr. um þetta efni við það miðuð.

Í 2. gr. eru ákvæði um það, hvert vera skuli aðalhlutverk listasafnsins, og ætti ekki að þurfa að vera ágreiningur um þau ákvæði.

Í 3. gr. er svo ákveðið, að safnið skuli vera til sýnis almenningi án endurgjalds.

Í 4.–7. gr. eru ákvæði um stjórn safnsins, og eru það þau ákvæði frv., sem skoðanir geta helzt orðið skiptar um, enda var n., sem undirbjó frv., ekki á einu máli um þetta efni. Stjórn safnsins er nú í höndum menntamálaráðs Íslands undir yfirstjórn menntmrn. Menntamálaráð hefur lýst sig andvígt þessu frv. og telur það að taka stjórn safnsins undan menntamálaráði brjóta í bága við það, sem til hafi verið ætlazt með þeim nýju lögum um menningarsjóð og menntamálaráð. Þau lög voru á sínum tíma sett fyrir mitt frumkvæði, og sé ég ástæðu til að taka fram, að hér gætir misskilnings hjá menntamálaráði, því að í þessum lögum segir í 7. gr., að meðal verkefna menntamálaráðs sé „að hafa yfirumsjón með listasafni ríkisins, þar til lög verði sett um safnið: Það var alltaf ætlun mín að gangast fyrir því, að frv. yrði flutt að sérstökum lögum fyrir listasafnið, svo sem nefndarskipunin í ársbyrjun 1957 ber einnig vott um. Það virðist og í alla staði eðlilegt, að sérstök lög gildi um listasafnið og það lúti sérstakri stjórn, enda mun sá háttur vera hafður á hvarvetna í nágrannalöndum.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að skipaður sé sérstakur forstöðumaður safnsins. Er hér ekki um nýmæli að ræða, því að síðan í október 1950 hefur verið starfandi sérstakur umsjónarmaður við safnið. Ákvæði greinarinnar um safnvörð og annað nauðsynlegt starfslið eru við það bundin, að fé sé veitt í því skyni í fjárlögum. Samþykkt þessa frv. mun því ekki hafa í för með sér neina aukningu starfsliðs né aukin útgjöld.

Í 5. gr. eru ákvæði um safnráð, en verkefni þess á að vera að kaupa listaverk til safnsins, taka ákvörðun um viðtöku gjafa og sérsýningar, er safnið gengst fyrir. Ákvæðin um skipun safnráðsins eru eins og meiri hluti nefndar þeirrar, sem undirbjó frv., lagði til, að þau yrðu. Forstöðumaður listasafnsins á að vera formaður ráðsins, en auk hans skulu eiga sæti í því þrír listamenn, kjörnir úr hópi íslenzkra myndlistarmanna til fjögurra ára í senn, og skulu tveir þeirra vera listmálarar, helzt fulltrúar mismunandi liststefna, og einn myndhöggvari. Fjórði maðurinn skal vera tilnefndur af heimspekideild háskólans, þangað til kennsla í listsögu er hafin við háskólann, en þá skal kennarinn í þeirri grein eiga sæti í safnráðinu. Minni hl. n., sem undirbjó frv., þeir Gunnlaugur Scheving listmálari og dr. Gunnlaugur Þórðarson stjórnarráðsfulltrúi, taldi óeðlilegt, að heimspekideild háskólans eða listsögukennari þeirrar deildar eigi samkv. stöðu sinni sæti í safnráðinu, og lagði til, að menntmrh. skipaði einn safnráðsmanninn í þess stað. Félagið Óháðir listamenn tók undir þessa skoðun minni hl. nefndarinnar.

Í 6. gr. eru ákvæði, sem veita forstöðumanni safnsins og formanni safnráðsins meiri áhrif á ákvarðanir ráðsins, þ.e. fyrst og fremst listaverkakaup, en öðrum ráðsmönnum, því að þar segir, að sé safnstjóri tillögu andvigur, þá þurfi einróma samþykki hinna fjögurra, til þess að tillagan teljist samþykkt. Virðist með þessu sæmilega tryggt, að ákvörðun sé ekki tekin, nema gild rök liggi til hennar. Á hinum Norðurlöndunum er hvarvetna um að ræða safnráð, enda virðist með því móti bezt tryggt, að sem flest sjónarmið komi til greina við val á listaverkum, Í Danmörku og Noregi er forstjóri safnanna sjálfkjörinn formaður safnráðanna. Í Danmörku og Noregi eiga myndlistarmenn einnig allmikla hlutdeild í safnráðunum, 2 af 4 í Danmörku og 6 af 11 í Noregi. Í Svíþjóð eiga listamenn hins vegar enga aðild að safnráðinu.

Í þessu sambandi má geta þess, að þegar fjallað var um þetta frv. í Nd. í fyrra, gerðu tveir nm. menntmn., sem skiluðu áliti um frv. og lögðu til, að það yrði samþykkt, tillögu um, að ákvæðum um safnráð yrði breytt þannig, að íslenzkir myndlistarmenn, þeir sem séu eða hafi verið félagar í einhverju félagi myndlistarmanna, skuli kjósa úr sínum hópi 15 menn í nefnd, er velji úr hópi myndlistarmanna 3 menn í safnráð til 4 ára í senn og jafnmarga varamenn, tvo listmálara, er æskilegt sé, að séu fulltrúar mismunandi liststefna, og einn myndhöggvara, en aðild heimspekideildar háskólans eða listsögukennara hennar að safnráðinu falli niður og skipi menntmrh. mann í ráðið í stað þess.

Um önnur ákvæði frv. sé ég ekki ástæðu til að geta sérstaklega, nema ákvæði 14. gr. um rétt safnsins til eftirmyndunar eða annarrar eftirgerðar af listaverkum. Við meðferð málsins í hv. menntmn. Nd. í fyrra kom fram ósk um það af hálfu samtaka listamanna, að síðustu málsgr. 14. gr. yrði breytt í það horf, að til allrar eftirgerðar þurfi samþykki höfundar eða annars handhafa höfundarréttar og eigi hann þá rétt til þóknunar, en í frv., eins og n. gekk frá því og það er flutt hér, er gert ráð fyrir því, að ekki þurfi samþykki höfundar né heldur eigi hann rétt til þóknunar, ef safnið lætur gera eftirmyndir af listaverkunum til afnota fyrir það sjálft og til sölu innan veggja þess. Þótt ákvæði greinarinnar séu hér eins og þau voru í upphaflega frv., ber ekki að skilja það svo, að ég hafi neitt á móti þessari breyt., og get ég fyrir mitt leyti fallizt á hana, ef þeirri hv. n., sem fær málið til meðferðar hér, sýnist svo.

Ég óska þess mjög, að þetta frv. fái afgreiðslu nú á þessu þingi. Það er ekki vansalaust, að ekki skuli vera til löggjöf um Listasafn Íslands, einn verðmætasta fjársjóð, sem Íslendingar eiga. Þótt ég því á engan hátt finni að stjórn menntamálaráðs á listasafninu, er i alla staði eðlilegt, að svo stórri og mikilvægri stofnun sem Listasafni Íslands sé fengin sérstök stjórn, sem hafi ekki öðrum störfum að gegna. Hitt er svo rétt, að ekki er nægilega vel séð fyrir þörfum listasafnsins með því einu að setja um það löggjöf. Brýnasta hagsmunamál safnsins er bygging húss fyrir listaverk þess. Að því máli er ekki vikið á annan hátt í þessu frv. en að í 13. gr. segir, að reisa skuli sérstakt hús fyrir listasafnið, þegar nægilegt fé sé veitt til þess á fjárlögum eða á annan hátt. En það má ekki dragast miklu lengur, að hafizt sé handa um að reisa byggingu, þar sem þjóðin geti notið þess mikla fjársjóðs, sem í listasafninu felst.

Fyrir tveimur árum samþykkti Alþingi lög um byggingarsjóð Listasafns Íslands. Var tilefni þess það, að Jóhannes S. Kjarval afþakkaði, að ríkið reisti hús, sem vera skyldi honum vinnustofa og jafnframt til sýningar á verkum hans, en um það hafði Alþingi samþykkt fjárveitingu. Óskaði Kjarval þess, að það fé, sem veitt hafði verið til Kjarvalshúss, skyldi renna sem stofnfé í byggingarsjóð listasafnsins. Samþykkti Alþingi þegar í stað stofnun byggingarsjóðsins með framlögum til Kjarvalshúss sem stofnframlagi. Síðan hefur 1/2 milljón kr. verið veitt árlega á fjárlögum í þennan byggingarsjóð. En betur má, ef duga skal, til þess að listasafn rísi fljótlega af grunni. Er suðséð, að sérstakrar tekjuöflunar er þörf í því skyni.

Ég hef áður sett fram þá hugmynd, að hluta af þeim tekjum, sem hin þrjú stóru happdrætti, happdrætti Sambands ísl. berklasjúklinga, happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna og happdrætti Háskóla Íslands, nú hljóta í skjóli löggjafar frá Alþingi og með margs konar öðru tilstilli ríkisvaldsins, væri vei varið til þess að stuðla að byggingu listasafns, auk þess sem styðja ætti vísindarannsóknir í landinu í auknum mæli af þessum tekjum, en þær munu nú nema alls um 10 millj. kr. árlega. Þessi hugmynd hefur ekki enn fengið nægilegan hljómgrunn, fyrst og fremst eflaust vegna þess, að menn hafa talið, að skipting fjárins milli fleiri verkefna en það nú er notað til mundi draga úr stuðningi við þau góðu mál, sem þessar tekjur nú styrkja. En svo þyrfti þó ekki að vera, þar sem tekjur þessar vaxa ört ár frá ári. Fjárþörf til sumra þeirra verkefna, sem nú eru studd með þessum tekjum, hefur hins vegar fremur farið minnkandi en vaxandi. Ég er því enn þeirrar skoðunar, að þessa leið ætti að fara til þess að stuðla að framgangi þess ótvíræða nauðsynjamáls, sem bygging listasafns er. Ég minni á þetta í þessu sambandi, þótt það sé þessu frumvarpi í sjálfu sér óviðkomandi. En ég get þó ekki látið vera að undirstrika þörfina á byggingu listasafns, þegar löggjöf um safnið er til umræðu. Hitt vona ég, að þótt skoðanir manna séu eitthvað skiptar um það, hvaða leið eigi að fara til þess að tryggja fé til byggingar safnsins, þá verði það ekki til þess að tefja fyrir því, að nauðsynleg löggjöf verði sett um safnið, því að við svo búið má ekki lengur standa, að jafnvel sjálfsögð lagaákvæði séu ekki til um eina merkustu og mikilvægustu stofnun þessarar þjóðar.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.