10.03.1961
Efri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

9. mál, verkstjóranámskeið

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég skal aðeins taka það fram, að það er auðvitað sjálfsagt, ef hv. flm, óskar þess og vill taka sína fyrri brtt. aftur, að n. athugi það mál milli umræðna og kynni sér það til hlítar, hvort hér hefur verið ætlunin að gera nokkra efnisbreytingu á, enda þótt þetta ákvæði félli niður úr frv. Í grg. frv. er tekið fram, hvaða efnisatriðum hafi verið ætlunin að breyta, og þar er þetta atriði ekki tilgreint. Því höfum við talið, að það hafi ekki verið ætlunin að gera þar neina breytingu á, þó að þetta væri ekki beint tekið fram, vegna þess, eins og ég áðan sagði, að raunverulega þarf ekki að taka slíkt fram, þegar svo skýr ákvæði eru sett eins og í greininni eru um, hvernig gengið sé frá prófbók. Það er hins vegar sjálfsagt að athuga það til hlítar, svo að enginn vafi verði á því, ef hv. flm. vill taka sína tillögu aftur til 3. umr. Að öðru leyti vil ég taka það skýrt fram, að ég lít svo á, að enda þótt sú till. yrði felld, sé það á engan hátt nein ábending um, að það skuli ekki gefa út skírteini, heldur standi þau orð og sá skilningur í því sambandi, sem ég hef hér lýst.

Varðandi síðara atriðið sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum en ég gerði í ræðu minni áðan. Það er stórt efnisatriði, sem að sjálfsögðu þarf að íhuga vandlega, áður en sett er, því að þarna er um mikil réttindi að ræða. Varðandi það, að þessir menn hafi þá ekkert gott af sínu námi, álít ég, að það sé ekki rétt, vegna þess að ef á annað borð einhver trú er á þessum námskeiðum, sem við verðum að vona að verði og a.m.k. umsagnir allra aðila, sem til hefur verið leitað, benda til, að þeir telji hér vera um mikilsverða starfsemi að ræða, þá liggi það í augum uppi, að ef um jafngóða menn er að ræða að öðru leyti, þá hljóti það án nokkurra forréttinda í lögum að vera svo, að forstjórar fyrirtækja telji sér fremur hag í því að velja þann manninn, sem meiri menntun hefur.