15.03.1961
Efri deild: 72. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

9. mál, verkstjóranámskeið

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Hv. frsm. iðnn. benti á ákvæði í 4, gr. varðandi útgáfu prófskírteina. Þar segir, að með reglugerð skuli ákveða m.a. um útgáfu prófskírteina, hvernig henni skuli hagað. Í þessari gr. felst ekki skuldbinding um, að prófskírteini skuli gefin út handa hverjum þeim, sem stenzt prófið, heldur er aðeins ákveðið, hvernig haga skuli útgáfu prófskírteina, hvort menn skuli fá þau eða ekki, hverjir skulu fá þau og hverjir ekki. Þetta má teygja, ef í það fer, og með tilliti til þess, að það þótti ástæða til árið 1959 af þeirri nefnd, sem þá útbjó frv. sömu tegundar, að láta það standa skýrt og skorinort, að þeir, sem próf stæðust, ættu rétt á að fá prófskírteini, þá finnst mér það engan veginn óþarft, að þetta ákvæði standi, og því sé ég ekki ástæðu til að draga mína till. til baka, þrátt fyrir þetta óljósa og loðna ákvæði, sem um þetta er í 4. gr.

Síðari brtt. mín er miklu mikilvægari, þar sem þar er ákveðið, að þeir, sem standast prófið, fái einhver réttindi og að prófin skuli gilda sem meðmæli um stöðuveitingar hjá hinu opinbera. Að öðru jöfnu tel ég hana að sjálfsögðu miklu þýðingarmeiri og vil enn minna á, að ef hún verður felld, þá verða það fyrstu lögin um námskeið, um skóla, sem gera kröfur til nemenda um inntökuskilyrði og prófkunnáttu, en veita þeim engin réttindi.