16.03.1961
Neðri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

9. mál, verkstjóranámskeið

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Áður hafa legið fyrir Alþingi till. um verkstjóranámskeið, en ekki náð fram að ganga. Málið var tekið upp til endurnýjaðrar athugunar á síðasta ári, og þótti rétt að leggja það fyrir í því formi, sem þetta frv. hefur hlotið. Það hefur verið frá upphafi þings til athugunar í hv. Ed. og einungis gerð á því lítilvæg breyting þar.

Segja má, að hér sé um að ræða eins konar heimildarlöggjöf, þar sem framkvæmdaraðilum undir umsjá og með samþykki ríkisstj. er fengin viðtæk heimild til þess að koma á þeim námskeiðum, sem frv. fjallar um. Sú aðferð þykir hentari en setja um þetta fastákveðnar reglur þegar í upphafi, af því að hér er um nýbreytni að ræða, og verður nokkuð að koma fram í þróun málanna, hver háttur sé heppilegastur.

Sama er um það atriði að segja, sem nokkur ágreiningur varð um í Ed., hvort veita ætti mönnum forgangsrétt til vinnu og þá einkum hjá opinberum aðilum, þeim er lokið hafa því verkstjóraprófi, sem ráðgert er. Slíkur forgangsréttur er ekki tímabær á þessu stigi málanna, þó að vel geti komið til greina síðar, a.m.k. um tiltekin próf og tilteknar starfsgreinar, að veita slík forréttindi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið, en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn., sem ég hygg að hafi haft málið í Ed.