20.03.1961
Neðri deild: 78. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

9. mál, verkstjóranámskeið

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Frv. það til laga um verkstjórafræðslu, sem hér liggur fyrir, á sér nokkuð langan aðdraganda. Það eru a.m.k. nokkur ár síðan áhugi varð til fyrir því, að komið yrði upp námskeiði eða skóla fyrir verkstjóra. Málið hefur verið í athugun hjá ýmsum áhugamönnum og verið á undirbúningsstigi í nokkur ár. Þeir aðilar, sem fyrst og fremst hafa haft málið til athugunar og undirbúnings, eru verkstjórarnir sjálfir, Iðnaðarmálastofnunin og samtök atvinnurekenda. Frv. um þetta efni hafa áður verið lögð fyrir þingið, fyrst árið 1939, en síðan 1950 og loks árið 1959, en ekki orðið að lögum. Þrátt fyrir þetta hefur Verkstjórasamband Íslands reynt að bæta úr brýnni þörf með því að halda námskeið öðru hverju með stuðningi ríkissjóðs og Vinnuveitendasambands Íslands. En frv. gerir ráð fyrir, að um föst, árleg námskeið verði að ræða. Um þörfina eru allir sammála, sem um málið hafa fjallað, enda gegnir verkstjórinn þýðingarmiklu hlutverki i þjóðfélaginu og á vinnumarkaðnum. Hann þarf að hafa góða almenna menntun og auk þess ýmsa sérþekkingu.

Í iðnþróuðum nágrannalöndum er nú lögð mikil og vaxandi rækt við verkstjóraþjálfun. Í Noregi er það Statens Teknologisk Institut í Osló, sem sér um þessa fræðslu og vinnur að vísindalegum athugunum um verkstjórn. Forstöðumaður þeirrar deildar, sem annast þetta starf í Noregi, Rolf Wattne yfirverkfræðingur, kom hingað til lands í apríl 1959. Hann kynnti sér hér alla málavexti og gerði ýtarlegar tillögur um verkstjóranámskeið, og mun frv. það, sem hér liggur fyrir, styðjast við þá álitsgerð. Wattne telur, að í slíkum skóla þurfi að kenna eftirfarandi námsgreinar: verkstjórn og vinnusálfræði, vinnulagsmælingar og athuganir, ágrip af rekstrarhagfræði, vinnulöggjöf og launasamninga, slysavarnir, móðurmál, reikning, rafmagnsfræði, teikningu o.fl. Þetta eru vafalaust allt gagnleg fræði fyrir verkstjóraefni, en vafasamt er, að hægt verði að koma upp svo fullkominni fræðslu að sinni, enda munu ekki vera til íslenzkir kennslukraftar í sumar þeirra námsgreina, nema sérstakar ráðstafanir væru gerðar til þess að sérmennta menn til þessa starfs. Er sennilega skynsamlegt að þreifa nokkuð fyrir sér um námsefni og alla reynslu, enda gerir frv. ráð fyrir, að það sé ákveðið með reglugerð.

Iðnn. hv. d. hefur kynnt sér þær umsagnir, sem fyrir liggja, en þær eru frá Verkstjórasambandi Íslands, vitamálastjóra, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Iðnaðarmálastofnun Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna, vegamálastjóra, Vinnuveitendasambandi Íslands, Félagi ísl. iðnrekenda og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Mæla allir þessir aðilar með því, að frv. verði samþykkt, en sumir hafa gert athugasemdir við 2. og 3. gr. frv., þ.e. um inntökuskilyrði og um stjórn námskeiðsins. Hv. Ed. hefur með nokkrum hætti tekið til greina athugasemdirnar við inntökuskilyrðin, þar sem d. hefur breytt greininni á þá leið, að þau verði ákveðin með reglugerð. Iðnn. hv. d. hefur ekki séð ástæðu til þess að gera neinar breytingar á frv. frá því, sem það var afgreitt frá Ed., og leggur til, að það verði samþykkt óbreytt, eins og það kom frá Ed., eða a.m.k. 4 nm., en einn var fjarstaddur, þegar málið var afgreitt.