27.02.1961
Efri deild: 66. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

128. mál, alþjóðlega framfarastofnunin

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. Ed. hefur haft til meðferðar frv. það, sem hér liggur fyrir, og eins og álit n. á þskj. 416 ber með sér, mælir n. einróma með því, að það verði samþykkt óbreytt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa langa framsögu fyrir þessu máli, en leyfi mér í því efni að vísa til framsögu hæstv. viðskmrh. við 1. umr. málsins svo og samningsins um Hina alþjóðlegu framfarastofnun, sem birtur hefur verið með frv. á þskj. 381.

Eins og samningurinn ber með sér, er tilgangur frv. sá að veita heimild til aðildar Íslands að Alþjóðlegu framfarastofnuninni, en megintilgangur Alþjóðlegu framfarastofnunarinnar er sá að vinna að því, að hin svokölluðu vanþróuðu lönd eigi kost á fjármagni með hagstæðari kjörum en annars mundi kostur á á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði til þess að efla efnahagslegar framfarir í þessum löndum. Það er raunar, eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. viðskmrh., eðlileg afleiðing af aðild okkar að Alþjóðabankanum, að við gerumst einnig aðilar að þessari stofnun, sem verður í rauninni hluti af þeirri starfsemi, sem um er að ræða, þar sem Alþjóðabankinn er. Hér er auðvitað fyrst og fremst um mannúðarmál að ræða, sem eðlilegt er, að við teljum okkur skylt að taka þátt í. Þar að auki eigum við auðvitað nokkurra hagsmuna að gæta í sambandi við það, að efnahagslegar framfarir eigi sér stað í þessum löndum, því að á síðustu árum höfum víð í vaxandi mæli selt afurðir okkar til þessara landa, og það er auðvitað skilyrði fyrir því, að sá markaður eflist, að efnahagur almennings í þessum löndum batni. Einnig mun þó ofarlega í huga ýmissa hv. þdm. spurningin um það, hvort möguleiki mundi vera á því, að Ísland gæti komið til að njóta góðs af aðild að þessari stofnun á þann hátt, að komið gæti til greina, að við fengjum lán sem vanþróað land. Í sambandi við það tel ég aðeins rétt að fara örfáum orðum um það, hvað átt er við með vanþróuðum löndum.

Í þeim samningi, sem birtur hefur verið með frv., liggur að vísu ekki fyrir nein skilgreining á því, hvað séu tæknilega vanþróuð lönd, og til þess liggja e.t.v. eðlilegar ástæður, að slík skilgreining er ekki gefin, því að auðvitað er ekki til neinn algildur mælikvarði á það, hvaða lönd séu vanþróuð og hvaða ekki. Það mun þó vera algengast að nota sem mælikvarða á það, hvort land sé vanþróað eða ekki, meðalþjóðartekjur á íbúa í viðkomandi landi, og eftir því sem ég hef komizt næst, þá mun nú almennast að miða við 300–400 dollara meðaltekjur á ári á mann. Þar sem meðaltekjur okkar Íslendinga munu vera um 1000 dollarar, liggjum við talsvert ofan við þetta lágmark, svo að ef litið er á það eitt, þá eru möguleikarnir kannske ekki miklir á því, að við getum fengið lán frá þessari stofnun. Þess ber þó að gæta í því sambandi, að ekki mun því þó stranglega fylgt út í æsar að miða við þjóðartekjurnar sem mælikvarða á það, hvort land sé vanþróað eða ekki, og munu dæmi um það, að einstök lönd hafa fengið aðstoð sem vanþróuð lönd, ef atvinnuvegir þeirra eru mjög einhliða. Þannig er mér sagt, að Venezúela, sem hefur talsvert yfir 400 dollara þjóðartekjur á mann, hafi fengið aðstoð sem vanþróað land á þeim grundvelli, að atvinnuvegir þess lands eru mjög einhliða, þar sem það flytur ekki annað út en olíu. Sömuleiðis munu þess dæmi, að einstaka lönd hafa fengið aðstoð sem vanþróuð lönd, ef víssir landshlutar hafa verið taldir vanþróaðir, og má nefna Ítalíu sem dæmi um þetta. Þjóðartekjur Ítala liggja allmikið yfir þessu hámarki, en þar sem Suður-Ítalía hefur verið talinn vanþróaður landshluti, hafa Ítalir fengið aðstoð á þeim grundvelli. Þó að líkurnar á því, að við kæmum til greina sem lántakendur úr þessari stofnun, séu litlar, þá er það e.t.v. ekki útilokað með öllu, þannig að möguleiki gæti verið á því, að ef þannig væri litið á, að einstakir landshlutar eða einstök kjördæmi væru vanþróuð, þá gætu slík lán komið til greina Íslandi til handa. Samt sem áður getum við e.t.v. varla reiknað með því, að þetta komi til greina. En af öðrum ástæðum, sem raktar hafa verið, verður svo að líta á, að rétt sé, að við verðum aðilar að þessari stofnun, og skv. því hefur n. lagt einróma til, að frv. verði samþ.