21.03.1961
Efri deild: 78. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 870 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

179. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það er í raun og veru sjálfsögð afstaða til þessa frv. hjá mér, sem þarf ekki að skýra, þar sem ég hef verið andvígur frv. því, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu í deildinni um Seðlabanka Íslands. Ég hlýt að vera andvígur þessu frv. líka, því að eins og hv. frsm. meiri hl. sagði hér áðan, þá er efni þess aðallega tvenns konar og þeirra breytinga, sem það felur í sér frá núgildandi löggjöf: Annars vegar það, að breyta þarf landsbankalögunum í samræmi við það, að aðskilnaður á að vera gerður milli seðlabankans og Landsbankans, og ég hef gert grein fyrir því í sambandi við frv. um seðlabankann, hvers vegna ég er þeim þætti andvígur. Hins vegar er svo bráðabirgðaákvæðið um það að nema úr gildi umboð bankaráðsmannanna, sem nú starfa, og kjósa bankaráð hans að nýju. Því er ég einnig andvígur. Ég sé enga þörf á því að taka umboðið af þeim mönnum, sem nú starfa í bankaráðinu, og það því frekar sem það virðist á engan hátt hafa rekið sig á starfsemi núv. hæstv. ríkisstj., því að Landsbankinn hefur að fullu verið samvinnuþýður við hæstv. ríkisstj. Þessu vil ég bara lýsa yfir. Ég sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt meira.