24.01.1961
Neðri deild: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Einar Olgeirsson [frh.] :

Herra forseti. Ég hafði þar komið minni ræðu í gær, að ég ræddi nokkuð það, sem hefur orðið allmikið deiluefni hér, og það er, hve mikill hluti skipa, báta og annarra framleiðslutækja mætti raunverulega vera í innflutningnum og hefði verið í innflutningnum og hvaða áhrif þetta hefði haft, sérstaklega út frá þeirri hagfræðiskýrslu, sem gefin var út 1959, og hvaða hættur hefðu verið í þessu sambandi og hvort of mikið hefði verið úr þessu gert. Og það var tvennt, sem ég fyrst og fremst fann að, að þarna hefði verið á ferðinni. Í fyrsta lagi var það viðvíkjandi áætlun þeirri, sem sérfræðingar ríkisstj. lögðu fyrir og prentuð var með frv. til l. um efnahagsmál, þessi ýtarlega skýrsla, þar sem m. a. var tekið fyrir um greiðsluhallann og vexti og afborganir af erlendum lánum og hve mikill sá hluti væri af gjaldeyristekjunum. Ég hafði fjallað um þetta mál sem fulltrúi míns flokks hér, Alþb., í fjhn. og hafði þar bent á gallana í sambandi við þessa áætlun sérfræðinganna, þessa till. þeirra, eins og kemur fram í mínu nál., sem gefið er út 12. febr. 1960.

Og hvað var það, sem var fyrst og fremst vítavert í sambandi víð þessa áætlun? Áætlunin er látin ná fram til 1963. Það er sýnt fram á, að það sé að verða svo hættulegt, hlutfallið, það sé að verða svo mikið hlutfallslega af vöxtum og afborgunum, sem við verðum að greiða, í hlutfalli við okkar gjaldeyristekjur, að við séum þarna alveg komnir yfir strikið. Og það eru útbúnar áætlanir fyrir árin 1959–63, og af þeim má sjá, að sérfræðingarnir ganga út frá, að það verði frá 9.4 upp í 11.4% vextir og afborganir í hlutfalli við gjaldeyristekjur þjóðarinnar, á móts við aftur á móti, að þetta hafi verið 1953 3.4% og 1958 5.7%. Ég lét þá þessa sömu sérfræðinga reikna þetta út, eins og þetta yrði eftir þeirra eigin áætlunum, eftir 1963, og það sýndi sig, að strax eftir 1963 félli þetta hlutfall aftur niður, þannig að það höfðu ekki verið gerðar neinar ráðstafanir til langs tíma, sem gerðu erfitt fyrir þjóðina að standa undir þessu, heldur var einvörðungu þarna um að ræða 4 ár, sem það mundi vera erfitt.

Hvernig var svo þessi reikningur útbúinn af hálfu sérfræðinganna? Við skulum taka dæmi um 1959. Gjaldeyristekjurnar 1958 höfðu verið 1521 millj. Þeir áætla, að 1959 verði gjaldeyristekjurnar 1466 millj., sem sé minni. Ég gerði strax aths. við þetta þá. Hvað sýnir sig núna? Í Hagtíðindunum fyrir nóvember kemur í ljós, að gjaldeyristekjurnar 1959 hafa orðið 1556 millj., m. ö. o., hlutfallið, sem þeir reiknuðu 9.4%, varð 8.8%. Hvernig stóð á, að þessir sérfræðingar vildu endilega reikna lægra gjaldeyristekjurnar 1959 en 1958, þar sem yfirleitt hafa gjaldeyristekjurnar vaxið undanfarið? Það var sama viðleitnin í þessari áætlun og var í því að hætta 1963. Það átti að reyna að draga upp sem ljótasta mynd.

Jónas Haralz reiknaði það út fyrir mig, og ég lagði það fram í fjhn., hvernig þetta mundi vera eftir 1963. Þar féll þetta niður eftir 1963 í sitt eðlilega hlutfall, það hlutfall, sem hafði verið fyrir 1958.

Þessi áætlanagerð hjá sérfræðingunum virðist vera gerð með það fyrir augum að fá grundvöll að ákveðinni stefnu, m.ö.o.: í staðinn fyrir óhlutdrægar upplýsingar, sem þessir efnahagsráðunautar og efnahagsmálasérfræðingar eiga að gera, gefa þeir vilhallar upplýsingar og búa út vilhallar áætlanir til þess að fá út ákveðnar niðurstöður, og þetta er það, sem vísindamenn eiga ekki að gera. Það má fyrirgefa pólitískum áróðursmönnum, að þeir geri eitthvað svona, en um vísindamenn er eitthvað annað.

Þeir voru þar að auki að tala um, að strax hlutfallið 1958, 5.7, væri hættulegt. Þá reis meira að segja upp einn af þeirra eigin sérfræðingum, dr. Benjamín Eiríksson, og sýndi fram á, raunar eins og hæstv. viðskmrh. hefur nú viðurkennt í þessum umr., — hann sýndi fram á með grein í Morgunblaðinu, að hlutfallið 5.7, það að borga vexti og afborganir, sem séu 5.7 á móts við gjaldeyristekjur þjóðarinnar, sé auðveldara fyrir þjóðina 1958 en var að borga 3.4% 1953. Þetta fer náttúrlega alveg eftir því, hve skynsamlega hefur verið varið þeim lánum, sem hafa verið fengin, hve vel þjóðinni hefur verið gert fært með því að auka gjaldeyrisframleiðsluna að standa undir því, þó að það sé vaxandi hluti í vöxtum og afborgunum. Þetta er það, sem ég deildi á, strax þegar þessi mál voru til umr. hér núna, og er komið enn betur í ljós, að það átti við rök að styðjast, svo sem hæstv. viðskmrh. hefur líka orðið að viðurkenna. En þar með er líka komið í ljós, hver var tilgangurinn með því að útbúa þessar áætlanir svona, hagræða þessum tölum svona. Tilgangurinn var sá að fá svo að segja vísindalegan grundvöll að gengislækkuninni, að viðreisninni svokölluðu, þ.e. vísindalegan grundvöll að því að skera niður lífskjör almennings í landinu, vísindalega sönnun fyrir því, að menn hefðu lifað um efni fram.

Það er þessi grundvöllur, sem er fallinn. Hann var aldrei til, en hann er endanlega fallinn núna. Það er ekki til neins að ætla að halda því fram, að það sé þetta hlutfall, sem hafi verið svona hættulegt. En til hvers var þessi svokallaði vísindalegi grundvöllur notaður? Hann var notaður til þess að rökstyðja þessar árásir sem þjóðarnauðsyn. M.ö.o.: það er farið í vasa hvers einasta manns í landinu og sérstaklega þeirra fátækustu til þess að taka úr vasa þeirra undir því yfirskini, að þeir verði að fórna fyrir þjóðina, og þetta er gert á grundvelli þess, að þessir sérfræðingar hafi gefið þessar yfirlýsingar, sem reynast rangar. M. ö. o.: það er verið að nota þarna raunverulegar falsanir til þess að stelast að almenningi, rjúfa samninga atvinnurekenda og verkamanna, stela af því kaupi, sem verkalýðurinn átti að fá samkv. sínum samningum, — og allt saman þetta undir yfirskini þeirrar blekkingar, að þetta sé slík þjóðarnauðsyn, að þetta verði að gerast.

Svo skulum við koma að hinu, sem ég var rétt byrjaður á í gær: Hver var svo ástæðan til þess hættuástands, sem hafði skapazt og var sýnilegt, ef allt hefði verið gert þarna hlutlaust og á raunhæfum grundvelli, að mundi aðeins standa fjögur ár og aðeins takmarkað? Hver var ástæða þessa hættuástands, að það skyldi þó vera þetta hátt hlutfall, þó að það væri reiknað of hátt í áætlun sérfræðinganna, að það skyldi þó vera mun hærra hlutfall á árunum 195963 heldur en var yfirleitt á tímabilinu 1951–58? Hver var ástæðan til þess? Jú, ég var byrjaður að sýna fram á það hér í gær, að ástæðan var sú, að það hafði verið keypt inn allmikið af mótorbátum, í Noregi, Danmörku, Hollandi, Vestur-Þýzkalandi og í öðrum vestrænum löndum með samningum, sem þýddu, að það átti að borga þessa báta upp á 3–4 árum. Hvernig stendur nú á, að þessir bátar eru keyptir í þessum löndum? Nú var vitanlegt, að á sama tíma var hægt að láta smíða báta fyrir okkur í Austur-Þýzkalandi, og þar hafa verið smíðaðir fyrir okkur ágætir bátar. Þar var hægt að fá þessa báta smíðaða og hægt að fá samninga um að borga þá með 12 ára láni. Það var hægt að taka lán í Sovétríkjunum til 12 ára með 21/2 % vöxtum, borga með því þessa báta í AusturÞýzkalandi og borga þetta lán í okkar fiski. M.ö.o.: það eðlilegasta lán, sem hugsanlegt var að taka, var fáanlegt, lán, þar sem vextirnir eru svo lágir, að það er ekki hægt að segja, að það væri arðrán innifalið í þeim, þar sem samningar um greiðslukjör mundu vera slíkir, að við mundum geta greitt með okkar fiski, m.ö.o. samningar um lánakjör, sem væru að því leyti á eðlilegum grundvelli, að ein þjóð væri ekki að arðræna aðra í sambandi við lánveitingar. Þetta, og því hafði ég rétt vikið að, þegar ég hætti í gær, — þetta vildi hæstv. viðskmrh. og hans fylgifiskar ekki, það átti að vera stórhættulegt að taka svona lán. Með pólitísku ofstæki er komið i veg fyrir eða þá af hræðslu, — ég veit ekki, hvers konar hvatir það hafa verið, — er komið í veg fyrir, að slík eðlileg lán séu tekin og hagstæð fyrir Ísland. Hvað er gert í staðinn? Jú, það er sagt í staðinn: Við verðum að verzla meira við vesturlönd, við verðum að kaupa báta frá vesturlöndum, við verðum að láta smíða báta í Noregi, Danmörku, Vestur-Þýzkalandi eða Hollandi. — Hvernig var okkar aðstaða? Ég sagði það hér í gær, að það hefði alltaf verið hamrað í gegn að veita gjaldeyrisleyfi til þess að smíða báta í þessum löndum, þar sem við raunverulega hefðum ekki getað borgað þá. Hvernig var okkar viðskiptajöfnuður við vesturlönd, ef ég má nota það í merkingunni um þann kapítalíska heim? Jú, hann hafði verið allan þennan tíma að heita má þannig, að við vorum a.m.k. í 200 millj. kr. neikvæðum verzlunarjöfnuði. Okkur vantaði árlega svo að segja 200 millj. kr. upp á, hvað okkar verzlunarjöfnuð snerti, til þess að geta borgað þeim þær vörur, sem við keyptum frá þeim. Og þá kröfðust þeir menn í ríkisstj., gömlu vinstri stjórninni, og aðrir slíkir, sem réðu þar miklu, og vildu endilega auka verzlunina við þessi lönd, kaupa meira þaðan, sem þó frá mínu sjónarmiði þýddi, að við værum að kaupa meira, sem við mundum eiga erfitt með að borga. En það mátti ekki kaupa í þeim löndum, þar sem við gátum átt auðvelt með að borga. Svo var hamrað í gegn að leyfa mönnum að kaupa báta og skip inn upp á 2–3–4 ára lánsfrest og að borga þetta upp á þessum tíma. Þessi tilhneiging að reyna að brjóta niður austurviðskiptin og kaupa inn í vesturlöndum án þess að hafa peninga til þess að greiða það eða sjá fram á það, án þess að hafa breytt þessum neikvæða verzlunarjöfnuði við þau, — það er þessi tilhneiging, sem veldur því, að árabilið 1959–63 lítur svo illa út.

Hvert er svo ráðið, sem hagfræðingarnir gefa við þessu, sérfræðingarnir? Ráðið er svo það að gefa verzlunina frjálsa, og hjá þeim er þetta rökstutt með því: Jú, við Íslendingar þurfum endilega að geta t. d. keypt frekar — við skulum segja kvenskó — í Bandaríkjunum heldur en í Tékkóslóvakíu, — úrvalið sé í Bandaríkjunum, það sé alveg óhjákvæmilegt fyrir afkomu Íslands, að við getum fengið allt það fínasta úrval af kvenskóm, sem til sé. Jú, vissulega þykir okkur mjög vænt um, að okkar fögru konur yfirleitt gangi í fallegum skóm. En eru nú ekki einhver dálítil takmörk fyrir, hvað ein þjóð, sem er að reisa sig úr kútnum eftir 6 alda nýlendukúgun, er að reyna að byggja hratt upp sitt land, getur leyft sér í þessum efnum? Frá mínu sjónarmiði var nær að reyna að skera niður eitthvað af verzluninni við vesturlönd, fyrst við vorum í 200 millj. kr. neikvæðum verzlunarjöfnuði við þau, og reyna að auka þá heldur verzlun við þau ríki, sem við gátum verið i jafnvirðiskaupum við. Mér hafði a.m.k. alltaf orðið að hugsa um Ísland sem heimili í slíku, en ekki að hugsa um það sem einn hrepp úr einhverri stórri heild. Hvað segja hagfræðingarnir? Þegar þeir eru búnir að segja, að það sé ógurlegt hættuástand á ferðinni, næstu fjögur ár sé Ísland raunverulega að verða gjaldþrota, — og ástæðan til þess, að hlutfallið í vöxtum og afborgunum er svona mikið, er sú, að við höfum keypt inn í vesturlöndum svona mikið af mótorbátum og slíku, — þá segja þeir: Það, sem við verðum að gera sem ráð við þessu öllu saman, er að gefa verzlunina frjálsa. — Hvað þýddi það? Það þýddi að auka verzlunina við vesturlönd, kaupa meira frá vesturlöndum án þess að hafa nokkurt öryggi fyrir að geta borgað það, án þess að hafa nokkurt öryggi fyrir að geta selt okkar vörur þar. Og hæstv. ríkisstj. byrjar svo sinn feril með því að taka sitt 800 millj. kr. lán eða hvað það nú var til þess að gera okkur mögulegt að kaupa í vesturlöndum, sem hefur eðlilega þær afleiðingar, að viðskiptum við austurlöndin, ef ég má nota þessi orð, minnka. M.ö.o.: hagfræðingarnir gefa út álit og segja við þjóðina: Það er stórhætta á ferð. — Þeir reyna að dylja það, að þessi hætta er aðeins næstu fjögur ár og að eftir 1963 batnar þetta ástand. Þeir eru að reyna að dylja það líka, að þetta stafi af þessum sérstöku mótorbátainnkaupum í hinum kapitalistísku nágrannalöndum okkar. Þeir ráðleggja svo ríkisstj. og þjóðinni sem meðal við þessu að auka stórkostlega viðskiptin við þau kapítalistísku lönd, sem við vorum í 200 millj. kr. neikvæðum verzlunarjöfnuði við. Hvers konar vit er í þessu? Hvers konar verzlunarpólitík er þetta? Það er eins og þessir menn gangi út frá þeirri forsendu, sem er ekki til, að við getum selt ótakmarkaðan fisk í vesturlöndum. Það er ekki heil brú í þessum ráðleggingum, og áætlununum sjálfum er hagrætt til þess að fá þessa vitlausu niðurstöðu.

Það er þetta, sem er það hættulega í sambandi við þetta. Við þurftum einmitt að hafa stjórn á okkar viðskiptum, í staðinn fyrir að koma á stjórnleysi. Ég viðurkenni, að það var þarna visst hættuástand. Það stafaði af því, að við Íslendingar höfðum ekki nægilega stjórn á okkar utanríkisverzlun, að við þorðum ekki að skera niður t.d. meira innflutninginn frá vesturlöndum, að við þorðum ekki að hagnýta okkur þá möguleika, sem við höfðum austur á bóginn. Og nú blasa við afleiðingarnar af þessu öllu saman. En það er búið að nota þetta álit sérfræðinganna til þess að fella gengið, taka upp hringlandi vitlausa verzlunarpólitík, skera niður lífskjör manna í landinu. M.ö.o.: þessar fölsuðu áætlanir hafa orðið að yfirvarpi til þess að ræna almenning í landinu.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að það væri nauðsynlegt, að erlendar lántökur færu ekki fram úr ákveðnu hlutfalli af gjaldeyristekjunum, þegar hann var að ræða um þessa hluti. Hvað þarf að gera, til þess að erlendar lántökur fari ekki fram úr ákveðnu hlutfalli af gjaldeyristekjunum? Það er tvennt, sem þarf að athuga til þess. Það er í fyrsta lagi að tryggja, að rétt hlutfall af fjárfestingunni fari í að auka gjaldeyrisframleiðsluna, þannig að aukning gjaldeyrisframleiðslunnar standi undir þeim lánum, sem tekin eru. M.ö.o.: til þess að tryggja einmitt þetta, að rétt hlutfall sé á milli gjaldeyrisframleiðslu og vaxta og afborgana, þarf um leið að tryggja, að þegar þjóðin notar lánin, sem hún fær, setji hún það mikið af þeim lánum í þau framleiðslutæki, sem auka gjaldeyrisframleiðsluna, að hún tryggi sér, að þetta rétta hlutfall geti haldizt. Ég vil halda því fram, að þetta rétta hlutfall sé ekki hægt að tryggja nema með áætlunarbúskap hjá þjóðinni. Ég vil halda því fram, ef íslenzka þjóðin ætlar sér að tryggja það, ef hún tekur sér t.d. 1000 millj. kr. lán, að rétt hlutfall af því fari í að auka okkar gjaldeyrisframleiðslu, þá þurfi ríkisstj. landsins og hennar áætlunarráð fyrir fram að gera áætlun um, í hvað þessar 1000 millj. skuli fara. Ég álít, að það geti ekki gengið, þótt við jafnvel gætum fengið 1000 millj. kr. að láni erlendis, þó að einstakir menn í landinu væru reiðubúnir til þess að taka þetta, þó að þeir væru reiðubúnir til þess að koma upp hinum og þessum fyrirtækjum fyrir það, þá gæti það ekki gengið, vegna þess að það kemur engan veginn af sjálfu sér, að þessi fyrirtæki fari í eitthvað, sem þýðir, að þjóðin fái meiri gjaldeyri upp úr því. Hagsmunir einstaklinganna á Íslandi, sem kynnu að fá slík lán, og hagsmunir þjóðarheildarinnar til þess að standa undir vöxtum og afborgunum af sínum erlendu skuldum þurfa engan veginn að fara saman. Það er þarna, sem forsendurnar eru vitlausar hjá þeim hagfræðingum, sem þetta kenna. Hjá stórum þjóðum, þar sem utanríkisverzlunin er kannske 5, 10, 15, 20% af þeirra þjóðarframleiðslu, er oft tiltölulega öruggt, að þetta hlutfall, a.m.k. á normaltímum, geti haldizt, — og þó ekki einu sinni víst. Sjáið bara Bandaríkin, þau stóru ríki. Meira að segja Bandaríkin, slík stórþjóð er ekki örugg um þessa sjálfkrafa fjárfestingu, að hún beri uppi viðskiptin út á við, — hjá þeim koma ekki vextir og afborganir til greina. En um Ísland er þarna allt öðru máli að gegna, þjóð, sem flytur út upp undir helminginn af öllu því, sem hún framleiðir. Fyrir hana er alveg óhjákvæmilegt, ef hún ætlar ekki að renna inn í aðrar þjóðir, gerast lítill hluti úr stórri heild, ef hún ætlar að halda sínu sjálfstæði, þá er óhjákvæmilegt fyrir hana að áætla þetta fyrir fram og fyrir ríkisstjórn hennar og þing að stjórna því, í hvað þessir hlutir fara.

Það var gerð smátilraun með þetta á árunum 1950–56. Þá var þetta gert allfrjálst, og okkar ágætu kapítalistum var gefið tækifæri til þess að ráðstafa sjálfir, án þess að ríkisstj. væri of mikið að skipta sér af því. Og hvernig ráðstöfuðu þeir? Jú, það er kunnugt, það þarf ekki nema rétt að mínna á það, það voru keyptir 5000 bílar til landsins á sjö árum, en enginn togari var keyptur. Fjárfesting einstaklingsins og fjárfesting þjóðarheildarinnar gerast út frá svo gersamlega ólíkum forsendum, að það er óhugsandi, að summan af fjárfestingu einstaklinganna verði sú, sem þjóðarheildinni er nauðsynlegt, — og sérstaklega óhugsandi í okkar landi. Þess vegna er nákvæmur áætlunarbúskapur, alveg sérstaklega til að auka ríkisviðskiptin, grundvöllur fyrir því, að þetta rétta hlutfall haldist.

Í öðru lagi: Hvað er það annað, sem ber að athuga og hæstv. viðskmrh. hefði átt að minnast á? Ef maður vill reyna að halda vöxtum og afborgunum innan rétts hlutfalls, innan réttra takmarka, er þá ekki eitt atriðið, sem er óhætt að leggja áherzlu á og væri óskandi að forráðamenn þjóðarinnar legðu áherzlu á við hana, hvað vextirnir eru háir af þeim lánum, sem hún tekur? Og sérstaklega þegar ég heyri nú talað um hugsanlega stóriðju á Íslandi sem þátt í plönum ríkisstj., þá er sannarlega nauðsynlegt, að menn geri sér það betur ljóst, hvað vextirnir þýða, ef menn vilja fá þetta rétta hlutfall, sem hæstv. viðskmrh. og hans sérfræðingar tala um að sé svona þýðingarmikið á milli vaxta og afborgana annars vegar og gjaldeyristekna þjóðarinnar hins vegar. Það var sem sagt ekki nóg, eins og ég sagði, að hafa góðan áætlunarbúskap, það þarf líka að fá lán, ekki aðeins til langs tíma, heldur líka sérstaklega með lágum vöxtum. Þegar menn tala um, hvert hlutfall vaxtanna sé og að það geti orðið hættulegt, miðað við gjaldeyristekjur þjóðarinnar, ætti þó að liggja í augum uppi og manni fyndist satt að segja, að þeir menn, sem einhverja ábyrgðartilfinningu hafa, ættu að leggja áherzlu á það, að það væri gott að fá lága vexti fyrir þjóðina. En hvað gerist? Það, sem gerist, er það, að sömu sérfræðingarnir og hagfræðingarnir og meira að segja sjálfur fyrrv. hagfræðiprófessorinn, hæstv. viðskmrh., þeir hafa aldrei neinu orði undirstrikað nauðsyn hinna lágu vaxta fyrir okkur. Þeir vita, að Ísland hefur getað samið um að fá lán á sínum tíma með 21/2 % vöxtum. En þeir hafa lagzt á móti því, og hagfræðingarnir hafa í öllum sínum ályktunum aldrei undirstrikað slíkt sem neina nauðsyn. Það eru tekin lán með 4–5%, látum það vera, en upp í 6–7%, og hvað skyldu þýzku lánin raunverulega vera, ætli þau séu ekki upp í 8 og 10% raunverulega, ef farið væri að reikna verðið á vörunum, sem látnar eru? Það er ekki rætt um þessa hluti í sambandi við þetta. Það er ekki rætt um þau okurkjör, sem við höfum orðið að sæta hjá ýmsum þessara svokölluðu bandalagsþjóða okkar.

M.ö.o.: til þess að tryggja þessa hluti, að erlendar lántökur fari ekki fram úr ákveðnu hlutfalli af gjaldeyristekjum, þá er tvennt, sem við þurfum m.a. sérstaklega að athuga. Það er annars vegar að koma á áætlunarbúskap, ekki sízt um okkar utanríkisviðskipti, og það er í öðru lagi að tryggja okkur, að vextirnir af lánunum, sem við tökum, séu sem allra lægstir, helzt ekki hærri en 21/2%.

Hæstv. viðskmrh. sagði, og það hefðu þótt tíðindi, ef hann hefði sagt það fyrir rúmu ári: Greiðsluhallinn segir ekkert um, hvort þjóðin lifir yfir efni fram eða ekki. — En það voru þó einmitt þessir hlutir, sem voru notaðir til að blekkja þjóðina, einmitt þetta hættuástand þessara fjögurra ára, 1959–63, það var það, sem sérfræðingarnir gerðu hvað mest úr. Þetta er alveg rétt hjá honum, greiðsluhallinn segir ekki um það, hvort þjóðin lifir um efni fram eða ekki. Það eru aðrir hlutir, sem þar koma til greina. En það er gott hins vegar að fá þessa viðurkenningu, þó að seint sé.

Ég vil í sambandi við það, sem hann minntist á um að lifa um efni fram, aðeins minna á og spyrja hann að því: Lifir sú þjóð um efni fram, sem fjárfestir 33% af þjóðartekjum sínum? Hann talaði um neyzluhlutfallið hér í gær. En ég vil spyrja: Þjóð, sem leggur 33% af öllu, sem hún vinnur sér inn, til hliðar í fjárfestingu, lifir hún um efni fram? Er hægt að segja við slíka þjóð: Þú ert eyðslukind, þú þarft að spara eitthvað? - Er hægt að segja það við hana? Ég held, að það sé ekki hægt að segja það við hana. Það er verið að skrökva að henni, ef verið er að segja slíkt. Sannleikurinn um íslenzku þjóðina er ekki, að hún hafi lifað um efni fram. Hún hefur þrælað um getu fram. Ég held, að það sé engin þjóð, sem ég þekki til, sem hefur unnið eins og íslenzka þjóðin hefur unnið á undanförnum 20 árum. Það eru ekki aðeins okkar sjómenn, sem alltaf þræla meira en nokkrir aðrir menn. Meginið af okkar fólki hefur unnið eftirvinnu og næturvinnu, unnið í orlofum sínum og unnið á helgidögunum, m.a. við að byggja hús. Meginið af húsunum, sem byggt hefur verið á Íslandi, — það er ekkert smáræði, — er raunverulega byggt eftir dagvinnu. Það á ekki að segja við þessa þjóð: Þú lifir um efni fram. — En það á að segja annað við hana, og það hef ég oft reynt að segja hérna, en ekki getað fengið þá menn, sem völdin hafa, til þess að ræða eða svara því: Það að fjárfesta 33% af sínum þjóðartekjum, við skulum taka sem dæmi 1600 millj. kr. af 4800, það er ekki sama, hvernig það er fjárfest, og í því liggur meinsemdin í efnahagsmálum Íslands, og það er það, sem hefur ekki fengizt lagað. Þjóðin hefur ekki lifað um efni fram, en hún hefur máske fjárfest meira en eðlilegt hefur verið, fjárfest það öðruvísi en skynsamlegt hefur verið, af því að það hefur ekki verið heildarstjórn á þessari fjárfestingu hennar, af því að þessari fjárfestingu hefur ekki verið stjórnað með hag þjóðarinnar fyrir augum, m.a. með hag útflutnings og innflutnings eða utanríkisverzlunarinnar fyrir augum. Það er þetta, sem vantaði. Það vantaði að hugsa um þjóðarbúið eins og hver maður hugsar um sitt heimili. Það, sem þurfti, var að skipuleggja fjárfestinguna, stjórna henni þannig, að réttur hluti af henni færi í að auka útflutningsframleiðsluna, þannig að við gætum alltaf staðið undir vöxtum og afborgunum af þeim lánum, sem við tækjum, með nokkurn veginn eðlilegu hlutfalli við gjaldeyristekjurnar, vegna þess að við hefðum sett rétt hlutfall af þeim lánum, sem við hefðum fengið, í aukningu á gjaldeyrisframleiðslunni.

Það er of einfalt, eins og hæstv. viðskmrh. gerði og sérfræðingarnir gerðu áður, að koma bara með þessi slagorð um, að þjóðin hefði lifað um efni fram. Það eru allt önnur vandamál, sem þarna er verið að glíma við, og vegna þess að skilgreiningin frá hálfu læknisins, ef svo má segja, er röng, þá verða líka sjálf meðulin, sem notuð eru, röng.

Svo sagði hæstv. viðskmrh., að lánstraustið hefði verið þrotið 1958, engin venjuleg lán fáanleg á árinu 1958. Þetta er ekki rétt. Það voru fáanleg lán, m.a. lán, sem ég minntist á áðan, lán, sem væru þau einu eðlilegu og venjulegu lán í heiminum og ættu að gilda á milli þjóða, lán, þar sem ein þjóð er ekki að arðræna aðra, lán, þar sem vextirnir eru svo lágir, að það felst ekki í þeim að gera eina þjóð skattskylda annarri eða skattskylda auðmagninu. Ég veit ekki, hvort hæstv. viðskmrh. er orðinn svo — mér liggur við að segja samdauna þeim hugsunarhætti, sem Alþjóðabankinn er að reyna að innleiða í viðskipti almennt og Bandaríkjaauðmagnið, að það séu engin önnur lán eðlileg og venjuleg heldur en þau, sem menn verða að borga sína 31/2, 4, 5% vexti af eða 6. Það geta verið venjuleg lán, þó að það séu borgaðir bara 21/2% vextir af þeim. Það voru venjuleg lán hér á Íslandi 1927, þegar það var sett í gegn að borga af verkamannabústöðunum og byggingar- og landnámssjóðnum 21/2% vexti, en það voru lán, sem það fólst ekki í að gjalda auðmagninu, fjármagninu skatt. Og slík viðskipti ættu að vera yfirleitt í veröldinni, en ekki þau viðskipti, þar sem einn aðili sé að arðræna annan með lánum. Við Íslendingar fengum nóg af því á þeim árum, sem brezki imperíalisminn var sterkastur og við vorum í mestum skuldum við hann á árunum 1930–40, að verða að gjalda þann þunga skatt, sem við guldum þá til brezka fjármagnsins. Það voru venjuleg erlend lán fáanleg á árinu 1958, lánstraustið var ekki þrotið. Hitt má vel vera, að strax 1956 hafi lánstraustið verið þrotið í Bandaríkjunum og að þau lán, sem þar voru veitt í ársbyrjun 1957, hafi stafað af einhverjum öðrum orsökum, m.a. af ótta við, að það yrðu tekin lán annars staðar.

Hæstv. viðskmrh. sagði svo hins vegar um leið, að þetta lánstraust, sem hefði verið þrotið 1958, sem ekki er rétt hjá honum, það væri nú komið, nú væri búið að reisa lánstraustið við. Má ég spyrja hæstv. viðskmrh.: Er lánstraustið komið aftur? Hvernig er með það lán, sem Hafnarfjarðarbær var búinn að fá fyrirheit um um miðjan des. hjá Framkvæmdabankanum, að hann mundi fá í Vestur-Þýzkalandi, og gekk út frá að fá það einhvern daginn? Stendur það eða stendur það ekki, eða er lánstraust ríkisstj. í Vestur-Þýzkalandi hrunið? Mig langar til að fá upplýsingar um þetta, út frá þeirri fullyrðingu hæstv. viðskmrh., að nú væri búið að reisa lánstraustið við.

Þá kom hæstv. viðskmrh. að lánunum til útgerðarinnar og hvort útgerðina munaði nokkuð um, þó að hún yrði að borga eitthvað meira i vöxtum. Ég þarf ekki að ræða það atriði út af fyrir sig sérstaklega mikið. Hv. 4. þm. Austf. kom hér í sinni svarræðu til hæstv. viðskmrh. inn á þessi lán. Hann hrakti ekki aðeins með tilvitnunum í rekstrarkostnað tiltekinna hraðfrystihúsa og yfirlýsingar manna á fundi L.Í.Ú. staðhæfingar hæstv. viðskmrh., hann sýndi líka fram á, að heildarlánin, sem hæstv. viðskmrh. var með, talan 1471 til sjávarútvegsins, væri röng, og ég tók eftir því, að í allri sinni ræðu reyndi hæstv. viðskmrh. ekki með einu orði að hrekja eina einustu af þessum tölum. Hæstv. viðskmrh. heldur hér heila ræðu, eftir að búið er að sýna fram á, að hans tölur viðvíkjandi lánunum til sjávarútvegsins séu rangar, bæði í einstökum atriðum hvað snertir einstök hraðfrystihús og slíkt og almennt séð hvað snertir lán til sjávarútvegsins. Reynir hæstv. viðskmrh. að verja sig, að sýna fram á eitthvað annað? Nei, hann reynir það ekki.

Ég hef áður kvartað um skort á upplýsingum um grundvöll, þegar verið er að deila hér á Alþ., og ég sé meira að segja, að annað stjórnarblaðið er farið að kvarta yfir því, að stjórnmálamennirnir þeyti tölunum fram og aftur hérna og þjóðin viti raunverulega ekkert, hvað þetta sé. Þetta er rétt, og ég spyr einu sinni enn: Hvernig í ósköpunum stendur á því, að það er búið að koma hér upp efnahagsmálaráðuneyti, það er búið að ráða nú i upp undir 10 ár sérstaka efnahagsmálaráðunauta, útlærða í Ameríku, til þess að rannsaka og gefa okkur þm. og ríkisstj. tölur viðvíkjandi íslenzku atvinnulífi og að við höfum enn í dag, í ársbyrjun 1961, ekki einustu tölu, sem menn geti komið sér saman um. Þegar við erum að deila hér stundum svona, þá minnir það mig á kínversku óperuna, þegar þeir voru að berjast og skylmast i myrkrinu. Það er sem sé ekki alveg ólikt. En þetta er hneyksli. Við eigum að standa í því að stjórna hér þjóðarbúskap, við eigum að deila um, hvernig við skiptum arðinum af því, sem framleitt er, en það er ómögulegt að fá t.d. upplýsingar um, hver sé vaxtabyrði fiskiðjuvers. Og svo kemur hæstv. bankamála- og viðskmrh. og segir: Vextirnir og þessi 2%, það segir ekki neitt, því að þetta er svo Pínulítið, sem skuldirnar eru. — Og svo er hægt að hrekja þetta ofan í hann i næstu ræðu, og hann segir ekki eitt einasta orð. Svo segir hann bara í staðinn: Stefnubreytingin er farsæl. Þegar allt er meira eða mínna að stöðvast og allir kvarta, þá á bara stefnubreytingin að vera farsæl.

Ég fæ þá hugmynd af ræðu hæstv. viðskmrh., að það sé nokkuð mikil stofustjórn á viðskipta og bankamálum hlá honum. Ég held, að hún sé alveg án sambands við atvinnulífið í landinu, hann fái einhverjar tölur, sem gefa ekki rétta mynd, af því að þær taka ekki tillit til hins raunverulega ástands, þær reikni kannske, hvað sé lánað til einhvers hluta í sjávarútveginum, en reikna svo ekki með neinu af svo og svo miklum víxlum, sem kunna að vera í sambandi við þetta og annað slíkt. Þetta þýðir, að upplýsingarnar, sem byggt er á, þegar aðrar eins ráðstafanir eru gerðar og gengislækkunin, eru allar saman meira eða minna rangar, forsendurnar, sem gengið er út frá., eru allar meira eða minna rangar, og svo er verið að streitast eftir á við að reyna að verla þetta á allan mögulegan hátt, hringlað með tölur, þannig að meira að segja ritstjórum hans eigin málgagns finnst alveg nóg um og sjá, að það er í raun og veru alveg i blindni þarna verið að leika sér með tölur. Og þegar svo mennirnir í atvinnulífinu, sem þekkja til, hvernig þetta er, koma með tölurnar, þá getur hæstv. viðskmrh. ekki sagt eitt einasta orð, og liggja þó þær tölur fyrir bæði frá mönnum, sem eru fylgjandi Sjálfstfl. og fylgjandi okkur.

Ég held, að öll reikningsfærslan í sambandi við þjóðarbúið sé meira eða minna vitlaus. Ég hef ámálgað það hér ár eftir ár, að við ættum að taka að einhverju leyti til fyrirmyndar, hvernig Norðmenn hafa gengið frá þessu í sínum áætlunum. Þeir taka tillit til hvað er fjármagn, hvað eru ráðstafanir til þess að auka framleiðslutækin, bæta upp slitið. hvað sé neyzlan og annað slíkt. Það er alltaf gengið fram hjá öllu þessu hér. Öllu ægir saman. Ég er hræddur um, að það væri betra fyrir þá að taka hagfræðina ofur lítið marxistískari en þeir gera í þessum efnum, taka ofur lítið meira tillit til þess, hvernig þjóðfélagið er samsett, að það eru ekki tómir peningar, sem verið er að reikna með. Það þarf að reikna með framleiðslutækjum, endurnýjun á þeim, sliti á þeim, hráefni til þeirra og svo neyzlunni. Og það er ekki sama, hver þessi framleiðslutæki eru og hvers konar. M.ö.o.: menn þurfa að gera sér nákvæma heildarmynd af þjóðarbúskapnum í einstökum atriðum, en ekki reikna bara með að stjórna þessu með peningavaldi. Það er ekki hægt, sízt af öllu í okkar þjóðfélagi, og hefur hvergi reynzt mögulegt.

Vextir, eins og ég nefndi strax í upphafi minnar ræðu, hafa haft alltaf á Íslandi alveg óskaplega þýðingu, eins og tímabilið 1930–40, sem ég minntist á áðan, sýndi hvað bezt. Menn hafa kiknað undir vöxtunum hérna, stór fyrirtæki hafa svo að segja verið drepin, sett á hausinn með vöxtunum hérna, þegar vextirnir voru 91/2%, og þeirra skuldir voru stundum sem svaraði þeim vaxtagreiðslum, sem þeir hefðu átt að hafa í 10 ár.

Hæstv. viðskmrh. sagði svo, að það munaði ekkert um vextina. Ég vil nú spyrja hann að einu einstöku atriði. Í þeim samningum, sem fram hafa farið milli útvegsmanna og sjómanna, hafa m. a. útvegsmennirnir ekki viljað fallast á, og ég held, að það hafi ekki heldur hafzt í gegn í samningunum í nótt, að líftryggja sjómennina fyrir 200 þús. kr. Heldur nú ekki hæstv. viðskmrh., að eitthvað af vaxtahækkuninni, ef það hefði verið haft lægra, hefði gert útvegsmönnunum fært að líftryggja íslenzku sjómennina fyrir 200 þús. kr. hvern? Þegar hann er að slengja fram hlutum eins og því, að það muni ekki um þetta, þetta sé 0.7%, og ýmislegt þess háttar, þá ætti hann að reikna það út. Þegar verið er að deila við sjómennina, þá munar um hvern eyri, þá munar um hverja milljón, þá munar um hvern milljónatug, en þegar hann talar um vextina og útveginn, á ekki að muna neitt um það.

Ég mun um nokkur af þeim atriðum, sem ég ætlaði að ræða, láta nægja að reyna að fá upplýsingar hjá hæstv. viðskmrh., þegar þetta mál kemur til n., viðvíkjandi þeirri hæð, sem hugsuð er á þessum lánum, viðvíkjandi vöxtunum, viðvíkjandi því, hvers konar skuldir þarna á að yfirtaka, og öðru slíku, þannig að fyrir utan þær spurningar, sem ég hef þegar lagt fyrir, mun ég ekki bæta við fleiri spurningum til hæstv. viðskmrh. nú.

Í lok sinnar ræðu sagði hæstv. viðskmrh., að ríkisstj. hefði ekki þyngt greiðslubyrðina. Ég er hræddur um, að það sé ekki rétt. Ríkisstj. hefur tekið lán erlendis, sem við eigum að greiða, skilst mér, greiða á ákveðnum tíma. Ég er a.m.k. ekki enn búinn að fá að vita neitt um, að það eigi að gefa það. M.ö.o.: það lán er raunverulegt eyðslulán, sem notað hefur verið til að fylla búðirnar hérna, í staðinn fyrir að ef við hugsum um framtíð landsins í þessum efnum, þá þurfum við að nota þau lán, sem við tökum, til þess að afla framleiðslutækja, sem standa undir okkar gjaldeyrisframleiðslu.

Nú er svo komið, að allmikill hluti af okkar framleiðslu er að stöðvast. Togararnir, margir þeirra, eru þegar bundnir, og ég vil spyrja: Er það rétt, að hæstv. ríkisstj. hafi þegar boðið alla nýju, stóru togarana, fimm togara, til sölu erlendis, að það sé þegar verið að reyna að selja stóru togarana út úr landinu, m.ö.o., að togara, sem Alþfl.-stjórnin, sem sat 1959, lét kaupa, eigi nú að reyna að selja út úr landinu, af því að núverandi hæstv. ríkisstj., viðreisnarstjórnin, hafi kippt rekstrargrundvellinum með gengislækkuninni undan þeim togurum, sem Alþfl.-stjórnin var búin að kaupa? Alþfl. sá víst ekkert við það athugavert. Hann lét kaupa togara, stóra og nýja togara, hann breytti síðan genginu, þannig að þessir togarar, sem eigendurnir munu hafa haldið að kostuðu upp undir 20 millj., kosta 40 millj., þegar þeir koma inn í landið. Og þó að þeir hafi verið huggaðir með því af hagfræðingunum, að það væri reiknað í sambandi við gengislækkunina með því, að reksturinn ætti að bera sig, líka á nýju tækjunum, þá er ég hræddur um, að stærstu atvinnurekendurnir, ríkustu mennirnir í landinu, hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að líka þessar fullyrðingar hagfræðinganna voru rangar, og nokkrir af þessum togurum hafa legið bundnir. Er það rekstrargrundvöllurinn, sem hefur verið skapaður? Er það svona, sem samvinna Sjálfstfl, og Alþfl. er? Alþfl. kaupir inn togara og tekur svo höndum saman við Sjálfstfl. um að rífa rekstrargrundvöllinn undan togurunum, og svo koma báðir sér saman um, að þeir skuli reyna að selja togarana? Er það þessi ljómandi mynd, sem hæstv. viðskmrh. er að draga upp af, hve sigursæl viðreisnarstefnan hafi verið?

Ég verð að segja það, þegar ég lít yfir, hvernig ástandið er, þegar ég lít yfir, að allir okkar stærstu atvinnurekendur eru niðurdregnir, enginn treystir sér til að leggja í nokkuð nýtt, enginn sér neitt land fyrir stafni, þá finnst mér stundum, að ríkisstj. líti á sjálfa sig sem skiptaráðanda útlends auðvalds í þrotabúi Íslands, en ekki sem þá stjórn, sem eigi að hafa forustu fyrir Íslendingum yfirleitt í því að sækja fram á sviði atvinnulífsins, en það er það, sem ég álit að hver stjórn, sem hér situr að völdum, verði fyrst og fremst að skoða sem sitt verkefni.