24.01.1961
Neðri deild: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal láta mér nægja nokkur orð til þess að svara vissum atriðum í síðustu ræðu hv. 1. þm. Austf. (EystJ) og fáeinum atriðum í ræðu hv. 3. þm. Reykv. (EOl). Ég nenni satt að segja ekki að standa hér í karpi um augljósa hluti við hv. 1. þm. Austf., sérstaklega þegar ég hef á tilfinningunni, að honum sé margt af því, sem hann ræðir, ljósara en hann vill láta öðrum mönnum vera það, og það er mergurinn málsins í þessum viðræðum. Mér finnst það koma greinilega fram, að það er áhugamál bæði hans og hv. 3. þm. Reykv., að almenningi í landinu séu ýmsir hlutir mjög óljósir, sem ég hef ástæðu til að ætla að þeim sjálfum séu ljósari en tal þeirra ber vitni um, og þegar þannig er komið, er ástæðulaust að eyða tíma hv. Alþ. í karp um slíka hluti.

Hann hafði það eftir mér, hv. þm., að ég hefði sagt, að greiðsluhalli hefði enga þýðingu, væri enginn endanlegur mælikvarði á það, hvort þjóð lifði um efni fram eða ekki. Ég hagaði orðum mínum ekki svona. Ég sagði, að greiðsluhalli út af fyrir sig, sú staðreynd, hvort þjóðarbúskapurinn væri rekinn með greiðsluhalla gagnvart útlöndum, segði út af fyrir sig ekkert um það, hvort þjóð lifði um efni fram eða ekki og af þeirri staðreynd einni saman væri ekki hægt að draga neinar meginályktanir um það, hvort stefndi í rétta átt eða ranga. (Gripið fram í.) Nei, það var ekki þetta, heldur gleymdi þm. að segja það, sem ég sagði í næstu setningu á eftir: Hitt væri meginatriði; hvað greiðslubyrðin í hlutfalli við gjaldeyristekjur væri mikil. Það gæti verið alveg eðlilegt og allt gæti stefnt í rétta átt, þó að um greiðsluhalla væri að ræða, en hann mætti ekki fara yfir visst mark, - það er mergurinn málsins, — hann mætti ekki fara yfir visst mark, án þess að augljóst væri, að í ranga átt stefndi. Það, sem gerðist hér á fyrri hluta s.l. áratugs, var, að greiðslubyrðin var ekki nema 2—3% af gjaldeyristekjunum. Meðan svo er, er ekkert við greiðsluhalla að athuga. Hann er ekki varhugaverður að neinu marki. Þvert á móti getur beinlínis verið eðlilegt að reka þjóðarbúskapinn með slíkum greiðsluhalla og jafnvel þótt nokkru meiri yrði. En af slíkri staðhæfingu er auðvitað hreinn útúrsnúningur að draga þá ályktun, að greiðsluhalli megi vera hvað mikill sem er. Það hefur verið mergurinn í öllum mínum málflutningi að sýna fram á, að greiðslubyrðin jókst svo ört á síðari hluta s.l. áratugs og verður fyrirsjáanlega svo mikil enn fram til ársins 1962, að það er stórkostlega varhugavert. Það, sem stjórn Hermanns Jónassonar tókst — ég segi: því miður ekki að ná samkomulagi um, var að gera ráðstafanir, sem gerðu kleift að standa undir greiðslubyrðinni, eins og hún var orðin 1958 og mundi fyrirsjáanlega verða til 1962. Það, sem stjórn Hermanns Jónassonar því miður tókst ekki að semja um, var að gera slíkar ráðstafanir, sem gerðu kleift að standa undir greiðsluhallanum, sem þegar var búið að stofna til, með eðlilegum hætti, en það var ekki hægt nema annaðhvort með því að draga úr fjárfestingunni eða draga úr neyzlunni. Það er saga, sem ástæða er til að segja seinna — ekki nota þessar umr. til, að ég er þeirrar skoðunar að einmitt þessi staðreynd hafi verið meginskýringin á því, að stjórninni tókst ekki að halda saman. Það var nefnilega orðið báðum þessum aðalforsvarsmönnum Framsfl. og Alþb. ljóst, að þetta var kjarni vandamálsins. Einmitt þetta var kjarni vandamálsins. Það var búið að halda þannig á málum, — ég er ekki að gagnrýna það í sjálfu sér, — það var búið að halda þannig á málum, að augljóst var, að á árinu 1959 og á næstu 4–5 árum varð að gera annað tveggja eða hvort tveggja að draga úr fjárfestingu eða draga úr neyzlu. Þær till., sem Alþb. lagði fram í ríkisstj. á árinu 1958 og höfðu niðurskurð fjárfestingar að einum aðallið, báru einmitt vitni um, að sá flokkur var farinn að skilja þetta. Hann vildi m.ö.o. mæta vandanum með niðurskurði á fjárfestingunni, þó að tillögur hans gengju engan veginn nógu langt. Tillögur Framsfl. báru líka vitni um, að hann skildi vandann. Tillögur hans gengu i þá átt að skera niður neyzluna, með því að mæla með því að skora á verkalýðssamtökin að gefa eftir svo og svo mörg vísitölustig og takmarka þannig neyzluna. Þegar báðir flokkarnir höfðu viðurkennt í ríkisstj. í þeim mánaðarlöngu umræðum, sem fram fóru á árinu 1958, að ástandið fram undan væri þannig, að annað tveggja eða hvort tveggja væri óhjákvæmilegt: takmörkun fjárfestingar og neyzlu, en þegar síðan er mynduð ríkisstj., sem gerir hvort tveggja, en gengur þó ekki einu feti lengra á þeirri braut en bráðnauðsynlegt er, þá standa málsvarar þessara flokka hér frammi fyrir hv. þingheimi og láta eins og saklausir englar, þræta algerlega fyrir nauðsynina á þessum ráðstöfunum, sem þeir sjálfir hafa þó lagt til áður, og segja, að þjóðinni hafi beinlínis verið sagt ósatt, að ástandið hafi verið orðið þannig, að slíkar ráðstafanir voru nauðsynlegar. Ég spyr: Ef engar ráðstafanir til þess að draga úr neyzlu og draga úr fjárfestingu voru nauðsynlegar 1958, hvers vegna lagði þá Alþb. til, að fjárfesting yrði stórlega takmörkuð, og hvers vegna stakk þá Framsfl. upp á, að neyzla yrði stórlega takmörkuð? Það er auðséð, að þessar staðhæfingar eru ósamrýmanlegar hver annarri. Það, sem hér hefur gerzt, er það, að fulltrúar þessara flokka hafa lagt fram tillögur í samræmi við veruleikann, meðan þeir voru í ríkisstj., en vilja síðan hlaupa frá veruleikanum, þegar þeir eru komnir í stjórnarandstöðu.

Hv. þm. sagði enn, að það, að ég teldi rétt að draga greiðslu vegna skipa og báta frá, þegar gerður væri samanburður á afkomu áranna 1959 og 1960, væri sambærilegt við þær staðhæfingar hans og fulltrúa Alþb. að draga kostnað við framkvæmdir áranna 1956–59 frá þeim greiðsluhalla, sem ríkisstj. birti upplýsingar um, þegar frv. um efnahagsmál var lagt hér fyrir Alþingi. Ég þóttist vera búinn að skýra það rækilega í gær, að hér er um algeran misskilning að ræða.

Ástæðan til þess, að réttmætt er og sjálfsagt að draga frá innflutning stórra liða, þegar hann er mjög breytilegur, þegar borin er saman afkoma tveggja ára, á ekkert skylt við þann hugsanagang að draga úr þýðingu greiðsluhalla með því að vitna til fjárfestingarframkvæmda innanlands. Hér er um tvennt ólíkt að ræða, og það held ég að allir þm. hafi gert sér ljóst og hv. ræðumaður í raun og veru líka, þó að hann haldi áfram að bera fram fullyrðingar sínar. Ég hefði ekki nefnt þetta, ef ég vildi ekki aðeins svara þeirri röksemdafærslu hans, þegar hann sagði: Hvers vegna á þá ekki líka núna og átti ekki þá að draga frá til að gera árin 1956–59 sambærileg vegna Sogsvirkjunar, áburðarverksmiðju og sementsverksmiðju? Það er af þeirri einföldu ástæðu, að þó að innflutningur vegna alls þessa sé tekinn saman, skiptir það ekki líkt því eins miklu máli og innflutningur skipa, báta og flugvéla. Ég hef því miður ekki tekið með mér tölur, sem taka af tvímæli um alla þessa liði, en eina man ég. Allur innflutningur erlends efnis og véla vegna Sogsvirkjunarinnar, vegna allra þeirra stórkostlegu framkvæmda, nam milli 40 og 50 millj. kr. og dreifist á þrjú ár. Ég hygg, að þýðing erlends gjaldeyris í kostnaði hinna fyrirtækjanna sé enn minni. Dettur nú nokkrum manni i hug að segja um þýðingu hins erlenda kostnaðar við fyrirtæki eins og Sogið, sem er milli 40 og 50 millj. og dreifist á 3 ár, að þær sveiflur séu nokkuð svipaðar og þær sveiflur, sem koma fram í skipainnflutningnum? Eins og ég gat um í fyrstu ræðu minni, voru sveiflurnar þannig, reiknað á gamla genginu, sambærilegar tölur, að 1956 var sá innflutningur 91 millj., 1957 43, 1958 107, 1959 137 og 1960 214. Þetta á aðeins við um innflutning skipa og báta. Þetta á ekki við um innflutning á erlendum vélum eða efni til neinna annarra framkvæmda í landinu. Um þetta er auðvitað hægt að veita miklu nákvæmari upplýsingar, en niðurstaðan mun verða sú, sem ég segi, í þessum efnum.

Þá sagði hv. 1. þm. Austf., að aðalatriðið í sambandi við erlendar lántökur væri, að hve miklu leyti þær gætu aukið á greiðslugetuna í erlendum gjaldeyri, og þetta er vissulega rétt. Meginstaðreyndin í þessu sambandi er einmitt sú, ég segi: því miður, að erlendu lántökurnar á áratugnum 1950–60 juku ekki heildargjaldeyristekjur þjóðarinnar í neitt svipuðu hlutfalli og þær juku greiðslubyrðina. Þetta er ómótmælanleg staðreynd, og það er þýðingarlaust að vitna til einstaks fyrirtækis eins og sementsverksmiðjunnar, sem er mjög gott fyrirtæki frá þessu sjónarmiði séð, langbezta einstaka fyrirtækið, sem um er að ræða að byggt hafi verið á áratugnum. En benda má á önnur fyrirtæki, sem miklum erlendum gjaldeyri hefur verið varið til, en auka ekki gjaldeyrisframleiðsluna nokkurn skapaðan hlut. (Gripið fram í.) Hún fór aldrei í gang. — Þar til má t.d. nefna raforkuframkvæmdirnar í dreifbýlinu. Þær auka ekki gjaldeyri, en kosta mikinn erlendan gjaldeyri, og mikil erlend lán hafa verið tekin til þeirra. Þessar framkvæmdir skila nær engum gjaldeyristekjum. (Gripið fram í.)

Þetta veldur því, að ef litið er á málið í heild —(Gripið fram í: Sparaði það engan gjaldeyri?) Það sparaði gjaldeyri að því leyti, að það þarf minna erlent efni að kaupa til ljósa í sveitum, en það er ekki mjög mikið. Það, sem máli skiptir i þessum efnum, er heildarniðurstaðan af þessari athugun, og hún er sú, og hún er ómótmælanleg, að gjaldeyristekjurnar hafa ekki vaxið i sama hlutfalli og greiðslubyrðin vegna hinna erlendu lántaka hefur vaxið, ef allar lántökurnar á áratugnum 1950–60 eru teknar sem heild. Þetta er hið alvarlega við efnahagsþróunina á áratugnum 1950–60, og það bætir engan að loka augunum fyrir þessari staðreynd.

Þá sagði hv. þm., að sú stjórn, sem nú situr, hafi staðið fyrir nýjum lántökum til stutts tíma, sem séu meiri en nokkru sinni fyrr. Ég hlýt að láta í ljós undrun mína yfir, að slík staðhæfing skuli enn einu sinni vera borin fram, eftir að hún hefur verið margleiðrétt bæði hér og í blöðum. Það, sem hv. þm. á við, eru lánin hjá Evrópusjóðnum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Því hefur verið margyfirlýst hér og í blöðum, að hver einasti eyrir af þessum lánum fór til þess að greiða yfirdráttarskuldir gjaldeyrisbankanna, sem allar saman voru bæði dýrari og til skemmri tíma en þessi lán, sem hér er um að ræða. Það sýnir bezt málflutning hv. stjórnarandstöðu, að ég vil segja í tuttugu til þrjátíu skipti er þessi staðreynd endurtekin, þó að henni hafi jafnoft verið mótmælt og bent á óvefengjanlegar opinberar skýrslur mótmælunum til staðfestingar. (EystJ: Þetta eru blekkingar.) Það er i sjálfu sér ástæðulaust að halda lengi áfram umr. á þessu stigi.

Enn fremur sagði hv. þm., og það er hið síðasta, sem ég skal svara hv. þm. um, að skuldaupphæðin í heild hafi stórhækkað á tímabili núv. ríkisstj. Það, sem ég hygg að hann eigi við eða vilji rökstyðja staðhæfingu sina með, er, að afborganir af lánum eru 290 millj. 1960, en 1959 voru þær 246 millj. kr. Þetta þýðir alls ekki, að þessi ríkisstj, hafi staðið fyrir því, að erlendar skuldir hafi aukizt. Það, sem er þvert á móti um að ræða, það, sem kemur inn og eykur greiðslubyrðina 1960, eru samningar um togarana 1959 og bátakaupin, sem þá voru gerð, en hvort tveggja var óvenjumikið á því ári. Þeir samningar komu ekki til greiðslu fyrr en á árinu 1960. Fyrstu greiðslurnar koma þá, og þess vegna er alveg augljóslega rangt, þegar því er haldið fram, að núv. ríkisstj. hafi gert ráðstafanir til þess að auka greiðslubyrðina. Ég nenni ekki að endurtaka einu sinni enn eða skýra einu sinni enn þá staðhæfingu, sem í raun og veru er kjarni málsins, þegar árið 1960 er metið í samanburði við árið 1959, að meginstefnubreytingin í þessari stjórn hefur einmitt verið fólgin í því að stofna ekki til nýrra stórskuldbindinga, sem auki greiðslubyrði landsins, einmitt í því skyni að geta staðið við þær greiðsluskuldbindingar, sem áður var búið að gangast undir. Einmitt vegna þessa, að stjórnin hefur ekki undirgengizt slíkar nýjar skuldbindingar, hefur tekizt að bæta gjaldeyrisaðstöðu bankanna erlendis.

Þá eru nokkur atriði, sem hv. 3. þm. Reykv. beindi beinlínis sem fyrirspurnum til mín og ég vil ekki láta undir höfuð leggjast að svara í örfáum orðum. Hann spurði, hvers vegna nýjar reglur ætti að setja um mat á eignum sjávarútvegsins í sambandi við þá lánabreytingu, sem fyrirhuguð er. Það hefur verið talið nauðsynlegt til þess að tryggja fyrirtækjum sjávarútvegsins með sem eðlilegustum hætti aðgang að því lánsfé, sem þau hafa raunverulega þörf fyrir. Ég hygg, að hann hafi lagt of mikið upp úr því, að orðin, að meta skuli til endurkaupsverðs, skuli notuð í lögunum og reglugerðinni, því að í flestum tilfellum mun ekki verða um að ræða neinn mun á því, sem þar er kallað endurkaupsverð, og því, sem kallað hefur verið söluverð í gildandi reglum um mat t.d. stofnlánadeildarinnar og viðskiptabankanna yfir höfuð að tala. Hitt er svo eðlilegt, að kveðið sé á um, að taka skuli tillit til fyrninga á þessu verði, ef um gamlar eignir er að ræða, sem þarf að meta til verðs nú. Ég er alveg sammála hugleiðingum hans um matsreglurnar almennt, að í sjálfu sér gengur ekki að leggja söluverð í bókstaflegum skilningi til grundvallar, þegar togarar eða hraðfrystihús eru metin, og einmitt það er ástæðan fyrir því, að heppilegt hefur þótt að nota orðið endurkaupsverð, til þess að menn misskildu ekki þetta veigamikla atriði. Það er auðvitað alveg rétt hjá honum, að togarar og hraðfrystihús sem slík hafa ekki söluverð, a.m.k. ekki á okkar þrönga markaði hér á Íslandi.

Varðandi það, að hv. þm. spurði, hvort meiningin væri að gefa öðrum atvinnugreinum kost á sams konar kjörum og sjávarútvegurinn nýtur hér, er það að segja, að ég geri ráð fyrir því, að ef tekst að koma upp sams konar kerfi fyrir lánabreytingu við landbúnaðinn og iðnaðinn, sem í sjálfu sér væri mjög æskilegt, geri ég ráð fyrir, að nákvæmlega sömu matsreglum yrði beitt, að reglur um nákvæmlega sama matsverð yrðu settar. Hvort og hvenær tekst að koma á fót sams konar lánabreytingakerfi fyrir landbúnað og iðnað, er fyrst og fremst komið undir því, hvers telja má Seðlabankann megnugan. Ef áfram verður heilbrigð þróun í peningamálum þjóðarinnar, þannig að aðstaða Seðlabankans heldur áfram að styrkjast, tel ég engan vafa á því, að innan ekki langs tíma verður gripið til sams konar ráðstafana, ef um svipaðar kringumstæður er að ræða, gagnvart landbúnaði og iðnaði. En um það held ég að allir eigi að geta verið sammála, að sjávarútvegurinn hafi brýnasta þörf fyrir slíkar ráðstafanir, og þess vegna var eðlilegast að gera þær fyrst í hans þágu. Það, hvort slíkar ráðstafanir verði almennar, mundi ég segja að væri fyrst og fremst komið undir því, hvort tekst að tryggja áframhaldandi jafnvægi í peningamálum innanlands, hvort Seðlabankanum í raun og veru verður áfram kleift að gera slíkar ráðstafanir í þágu atvinnulífsins í heild. Það er einlæg von mín og ríkisstj., að það takist.

Að síðustu örfá orð um vextina. Ég vildi aðeins leiðrétta það, sem hv. 3. þm. Reykv. hermdi upp á mig, að ég hefði sagt, að ekkert muni um vextina í þjóðarbúskapnum. Slíkt mundi ég að sjálfsögðu aldrei hafa látið mér til hugar koma að láta mér um munn fara. Ég þykist gera mér jafnljóst og aðrir, sem um þessi mál hafa fjallað eða hugsað, að vextir almennt hafa að sjálfsögðu stórkostlega þýðingu fyrir hagþróunina og ráðstafanir bæði atvinnurekenda og neytenda, enda ef ég og ríkisstj. hefði þessa skoðun, þá hefði að sjálfsögðu engin vaxtahækkun verið gerð á sínum tíma og heldur engin vaxtalækkun aftur um áramótin. Það er einmitt vegna þess, að ríkisstj. gerir sér ljósa gífurlega þýðingu vaxtanna sem tækis m.a. í baráttunni við verðbólguna, m.a. í baráttunni gegn spákaupmennsku, sem þessar vaxtabreytingar voru gerðar, og þær voru í samræmi við þær skoðanir, sem annars staðar eru ríkjandi í þessum efnum. Það, sem ég vildi segja með þeim tölum, sem ég birti um vextina, var það eitt, að ég teldi stjórnarandstöðuna ýkja stórlega, þegar hún teldi þá vaxtahæð, sem nú er í gildi, beinlínis vera að sliga útgerðina og annan atvinnurekstur á Íslandi. Það voru slíkar ýkjur, sem ég vildi andmæla, og ég er sannfærður um, að þær eru rangar. Ég sagði það eitt, að sú hækkun vaxta um 2%, sem nú er í gildi umfram vextina fyrir efnahagsráðstafanirnar, hefði enga úrslitaþýðingu fyrir rekstur sjávarútvegsins, sérstaklega ekki fiskveiðifyrirtækjanna, þó að hún hefði meiri þýðingu fyrir rekstur fiskvinnslufyrirtækjanna. Þetta eitt sagði ég, og þetta er ég reiðubúinn að endurtaka og standa við. Hitt vil ég ekki ómótmælt láta herma upp á mig, að ég hafi staðhæft, að vextir i sjálfu sér hafi enga þýðingu fyrir þjóðarbúskapinn eða fyrir hin einstöku fyrirtæki.