24.01.1961
Neðri deild: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (970)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Það var bara út af því, að hæstv. ráðh. var svo smekklegur að fara að vísa hv. 7. þm. Reykv. til mín í sambandi við lánsútveganir. Ég hygg, að hæstv. viðskmrh. viti það vel, að á hverju einasta ári undanfarið hafa verið tekin lán, ýmist af ríkisstj. sjálfri eða ríkisstofnunum með ríkisábyrgð, eins og t.d. Framkvæmdabankanum og fleiri stofnunum, eftir algerlega venjulegum leiðum. Og það á áreiðanlega líka við um árið 1958. Það er algerlega rangt, að það hafi nokkuð legið fyrir um það 1958, að erfiðara væri að fá lán en oft og tíðum hefur áður verið. Það hefur oft verið tafsamt að fá lán til þeirra framkvæmda, sem menn hafa haft með höndum, og þegar vinstri stjórnin fór frá, var hún með lánaumleitanir til þess að kaupa togara, eins og hæstv. ráðh. er kunnugt. Ég veit ekki betur en að í beinu framhaldi af þeim umleitunum hafi einmitt verið tekin lán eftir venjulegum leiðum til togarakaupa. Þar að auki er rétt, fyrst hæstv. ráðh. er að ræða þessi mál, að upplýsa, að áður en vinstri stjórnin fór frá, hafði hún lagt grundvöll að 6 millj. kr. lántöku í Bandaríkjunum eftir leið, sem er alveg venjuleg og hæstv. ráðh. og aðrir, sem hafa verið í ríkisstjórnum á Íslandi, hafa ekkert við að athuga. Núverandi ríkisstj. hefur m.a. haldið framkvæmdum hér á floti með því að ganga frá þessu láni, sem vinstri stjórnin var búin að undirbúa og leggja grundvöllinn að. Lánamálin voru því í fullum gangi, þegar vinstri stjórnin fór frá, og erfiðleikar á útvegun lánsfjár áttu ekki á nokkurn hátt skylt við þann ágreining, sem kom upp og varð þess valdandi, að vinstri stjórnin fór frá. Þvert á móti, eins og ég sagði, var búið að undirbúa 6 millj. dollara nýja lántöku eftir alveg eðlilegum leiðum.