28.02.1961
Neðri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mál það, sem hér liggur fyrir, hefur fjhn. haft til meðferðar alllengi og athugað þetta mál ýtarlega, og má segja, að nefndarmenn hafi í meginatriðum verið sammála og séu sammála um þetta frv., þó að hins vegar einstakir nm., — og á ég þar sérstaklega við hv. 1. þm. Norðurl. v., — vilji ganga nokkru lengra, og hefur hann því skilað séráliti og flytur sérstakar till. í samræmi við þessa skoðun sína.

Ég vil leyfa mér að fara örfáum orðum um aðdraganda þessa máls, en hann er sá, að á s.l. ári, þegar fór að líða nokkuð á árið, bar allverulega á greiðsluerfiðleikum hjá útgerðinni. Það má segja, að þeirra hafi reyndar fyrst orðið vart strax eftir vetrarvertíðina, sérstaklega í aðalverstöð landsins, Vestmannaeyjum, þar sem vertíðin endaði verr en margir höfðu búizt við og venja er þar nú. En hin svokallaða páskahrota brást, og allt slíkt hefur mikil áhrif á efnahag og greiðslugetu þeirra, sem að þessum atvinnuvegi standa. Þegar kom fram á sumar, fóru síldveiðarnar ekki betur en raun ber vitni um. Allan tímann var ákaflega mikill aflabrestur hjá togaraútgerðinni, og þegar kom fram á haustið, má segja, að algerlega hafi brugðizt reknetaveiðin hjá síldarflotanum hér við Suðvesturlandið, sem hafði mjög tilfinnanleg áhrif, þó að nokkuð hafi úr bætzt og þó einkum og sér í lagi hjá einstökum aðilum í sambandi við síðari síldveiðar á hringnótabátum.

Það mun þess vegna hafa verið strax á miðju sumri, að hæstv. ríkisstj. hóf viðræður um það við bankana, hvernig greiða mætti úr þeim greiðsluerfiðleikum, sem hér var um að ræða, sérstæðum erfiðleikum, sem útgerðin átti þarna við að stríða. Aðalviðskiptabankar útvegsins í þessu sambandi, Landsbankinn og Útvegsbankinn, ræddu þessi mál sín á milli, og ríkisstj. hafði forgöngu um að fela sérstakri nefnd athugun þessa máls í samráði við fulltrúa frá þessum tveimur viðskiptabönkum. Það var sýnilegt, að hér mundi verða um töluvert yfirgripsmikið mál að ræða, en skoðanir manna hnigu þó í meginatriðum að einu marki, að það, sem hér þyrfti að gera, væri fyrst og fremst að bæta úr þeim tilfinnanlega stofnlánsfjárskorti, sem útvegurinn hefur búið við á undanförnum árum. Mönnum var fyllilega ljóst, að greiðsluerfiðleikarnir, burt séð frá þeim ástæðum, sem ég áðan greindi, stöfuðu að verulegu leyti af því, að atvinnureksturinn hafði gengið of nærri sjálfum sér, þ.e.a.s. sínum rekstrarfjármöguleikum, í sambandi við þær framkvæmdir, sem unnar hafa verið á undanförnum árum.

Þegar lögin um Fiskveiðasjóð Íslands voru endurskoðuð á árinu 1955, var almennt gert ráð fyrir því, að Framkvæmdabankinn mundi verða þess megnugur að sinna því meginverkefni að sjá stærri fyrirtækjum í sjávarútvegi fyrir nægjanlegum stofnlánum, bæði vinnslustöðvum og frystihúsum, og nokkur verkaskipting mundi þarna verða og fiskveiðasjóðurinn fyrst og fremst sinna sjálfum bátaflotanum og þörf hans fyrir stofnlán. Varðandi fiskveiðasjóðinn má segja, þó að stundum hafi verið nokkuð erfitt í bili, þá hefur á öllu þessu tímabili í höfuðatriðum tekizt að tryggja nægjanlegt stofnfé til endurbyggingar bátaflotans og til viðhalds honum. Það má segja, að verkefni fiskveiðasjóðs sé víðtækara, bæði að veita lán til fiskvinnslustöðva og síldarsöltunarstöðva o.s.frv., en þeim þætti hefur fiskveiðasjóðurinn ekki verið nema að litlu leyti megnugur að sinna. Hins vegar hefur gengið miklu skrykkjóttar með stofnlán til hinna stærri vinnslustöðva og stærri frystihúsa. Það hefur þó tekizt í sumum tilfellum að útvega erlend lán, stundum fyrir milligöngu eða í sambandi við Framkvæmdabankann, og til skamms tíma, sem þá hefur aftur verið ráðgert að lengja með síðari lánum frá Framkvæmdabankanum. En þetta er þó ekki nema að mjög takmörkuðu leyti og alls ekki almennt og segja má allra sízt á Suðvesturlandi, við Faxaflóa og Vestmannaeyjar, þar sem vinnslustöðvarnar af þessu tagi eru nú þó stærstar og afkastamestar. Hins vegar er það svo, að það hafa auðvitað risið upp á þessum árum bæði nýjar vinnslustöðvar og afkastageta hinna eldri hefur stórum aukizt og töluverðar og veigamiklar nýjungar verið framkvæmdar frá ári til árs, og þetta er m.a. ein af ástæðunum fyrir því, að þessi fyrirtæki voru komin í þá greiðsluerfiðleika á s.l. ári, sem ég gat um í upphafi. Þá var stefnt að því að breyta stuttum lánum slíkra fyrirtækja í lengri lán til þess að bæta úr þeim lánsfjárskorti til lengri stofnlána, sem þessi fyrirtæki höfðu búið við á undanförnum árum, og upp úr athugun þessa máls varð svo til það mál, sem hér um ræðir, sem upphaflega voru brbl., gefin út 5. jan. 1961, og frv. það, sem hér liggur fyrir, er svo til staðfestingar á.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þennan aðdraganda málsins. Ég veit, að hv. þm. er hann í sjálfu sér fyllilega ljós.

Um efni þessa máls í aðalatriðum vil ég segja það, að menn verða að gera sér grein fyrir því, að það er takmarkað og því hefur aldrei verið ætlað annað en að vera takmarkað, bundið við að breyta stuttum lánum í lengri lán, og þá ekki miðað við það, að í raun og veru um neitt nýtt fé til þessara fyrirtækja, sem hér um ræðir, væri að ræða í sambandi við sjálfa lánabreytinguna. Ég get vel skilið, að sumir vildu ganga lengra en þetta og teldu þörf á stærri aðgerðum, en frv. þetta miðar ekki við meiri aðgerðir en þetta. Hvort þær eru svo nægjanlegar til þess að ráða fram úr þeim erfiðleikum, sem útgerðin hefur átt við að stríða, skal ég ekki fullyrða um, en reynslan sker úr því, og það má segja, að það sé í sjálfu sér eðlilegt og rökrétt að athuga fyrst í stað, hversu langt má komast með þessum fyrirhuguðu lánabreytingum, enda þótt ef til vill yrði síðar nauðsynlegt að ganga eitthvað lengra, þó að engin ákvörðun væri tekin um það að sinni. Og sjálfur er ég almennt þeirrar skoðunar, að það væri rétt að láta bíða víðtækari tillögur, þar til sæist nokkuð, hvernig framkvæmdinni á þessu máli vindur fram.

Það hefur alveg sérstaklega verið bent innan fjhn. á tilsvarandi þarfir landbúnaðarins, og ein af brtt. hv. 1. þm. Norðurl. v. miðar við það að setja á stofn að einhverju leyti tilsvarandi stofnlánadeild fyrir landbúnaðinn eins og sjávarútveginn. Aðrir hafa talað um iðnaðinn, og við vitum, að þar hafa verið miklir stofnfjárörðugleikar á undanförnum árum. Nú hefur það verið upplýst af hæstv. ríkisstj., og fjhn. hefur fengið þær upplýsingar, að hún hafi falið þeim sérfræðingum sínum, sem unnu að undirbúningi þessa máls, að kanna aðstöðu landbúnaðarins að þessu leyti og athuga, að hve miklu leyti hér er um sambærilegar aðstæður að ræða. Ég held, að það hafi bæði innan n. og eftir því sem ég veit bezt innan ríkisstj. verið fullur skilningur á því, að það mál þyrfti vissulega að taka til athugunar, þegar það lægi fyrir, að hér væri um svipaðar, — ekki aðeins sambærilegar aðstæður, heldur að einhverju leyti svipaðar aðstæður að ræða. En ég tel það svipaðar aðstæður, ef það lægi við borð, að bændur væru að gefast upp á búrekstri sínum vegna greiðsluerfiðleika, eins og sumum útgerðarfyrirtækjum hefur legið við stöðvun, enda þótt segja megi, að efnahagur þeirra væri góður og í sumum tilfellum mjög góður, aðeins vegna greiðsluerfiðleika, sem af þeim ástæðum hafa sprottið, sem ég hef vitnað til.

Um einstök atriði þessa frv. skal ég fara örfáum orðum.

Fyrst vil ég víkja að brtt., sem fjhn. flytur sameiginlega á þskj. 413 og ég geri ekki ráð fyrir að neinn ágreiningur sé um. Það er bætt þar inn í 1. gr. nokkrum orðum, þar sem beinlínis er sagt, að stofnlánadeildin geti stofnað til skuldar við Seðlabankann í því skyni að opna nýja lánaflokka í þeim tilgangi að bæta fjárhagsaðstöðu fyrirtækja, sem stunda sjávarútveg og fiskvinnslu og hafa ekki á undanförnum árum fengið nægilegt fjármagn til langs tíma til þeirra framkvæmda, eins og segir í 1. gr. Þetta er í raun og veru viðbót, sem er alveg í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar, sem gefin var út, 1. og 2. gr. hennar, og er með þessu aðeins tekið fram bókstaflega í frv., að stofnlánadeildin geti stofnað til skuldar við Seðlabankann í þessu sambandi. En við allan undirbúning málsins hefur það verið haft í huga, að það fé, sem stofnlánadeildin fengi til þessara hluta, kæmi frá Seðlabankanum, sem hins vegar mundi að miklu leyti eða kannske nær öllu leyti ná þessu fé aftur inn í sambandi við viðskipti sín við viðskiptabankana, sem létta lausaskuldum af sér við þau fyrirtæki, sem lán fá frá stofnlánadeildinni, en bera þó ábyrgð á hinum lengri lánum.

Þá er 2. brtt. fjhn., við 3. gr. Það má segja, að hún sé til þess að taka af tvímæli og skýra nokkuð frekar það, sem var gert ráð fyrir, en það var gert ráð fyrir innheimtustöðvun í vissum samböndum, þegar verður farið að framkvæma þessa löggjöf, — innheimtustöðvun hjá fyrirtækjum, meðan viðskiptabanka viðkomandi fyrirtækis ásamt stofnlánadeildinni gefst tóm til þess að athuga fjárhag fyrirtækisins, en þó er ekki gert ráð fyrir þessari innheimtustöðvun til lengri tíma en fram að næstu áramótum. Brtt. hefur aðeins nánari skýringarákvæði um þessa innheimtustöðvun í vissum samböndum. Þar eru undanþegnar innheimtustöðvun skuldbindingar samkvæmt vinnusamningum og hlutaskiptasamningum. Það er að vísu með þeim takmörkunum: sem hefur verið stofnað til á næstu 6 mánuðum á undan þeim degi, sem umrædd tilkynning stofnlánadeildarinnar berst skiptaráðanda. Sumir nm. vildu ganga lengra, og hv. 4. þm. Austf. vildi í raun og veru heldur miða þetta við ár, en það var samkomulagsatriði að miða þetta við 6 mánuði, og við höldum, að það sé girt fyrir alla erfiðleika með því að miða við 6 mánuði. Það kann að vera, að það sé eitthvað af ógreiddum vinnuskuldum hjá þessum fyrirtækjum, en sennilega mundi það vera afar lítið, ef nokkuð af slíkum skuldbindingum, sem eldra er en 6 mánaða, ef ekki ber þá eða er óhætt að líta á þær í raun og veru í öðru sambandi, eins og aðrar skuldbindingar en við venjulega eigum við með vinnu eða skuldbindingar skv. vinnusamningum eða ógreidd vinnulaun, eins og réttast væri að orða það. Við erum sem sagt þeirrar skoðunar í fjhn., að með þessu ákvæði séu í raun og veru vinnulaunin undanþegin þessari innheimtustöðvun, sem 3. gr. gerir ráð fyrir. Svo þótti ástæða til að kveða skýrt á um það, að þær skuldbindingar, sem verða til, eftir að þessi lög taka gildi, skyldu ekki háðar þessari innheimtustöðvun, því að ef svo væri, mundu að okkar dómi lögin sennilega ekki ná tilgangi sínum, en hann er, að atvinnureksturinn geti haldið óhindrað áfram, það mundi leiða of mjög til þess, að það skapaðist kannske tregða á því, að menn vildu stofna til skuldbindinga við þessi fyrirtæki. En til þess að auðvelda framkvæmdina á þessu þótti heppilegra að miða við einn ákveðinn og tiltekinn dag í þessu sambandi, og er þá miðað við 14. jan. 1961, en það er sá dagur, þegar reglugerðin skv. bráðabirgðalögunum var gefin út, og þá haft í huga, að með því móti falli að mestu leyti þær skuldbindingar undir þetta, sem stofnað er til í sambandi við núverandi vetrarvertíð, og verði þess vegna ekki háðar innheimtustöðvuninni. Það er að sjálfsögðu vonazt til þess, að til þessa ákvæðis þurfi ekki að grípa í ríkum mæli, að það verði undantekningartilfelli, ef þarf að biðja um innheimtustöðvun hjá útgerðarfyrirtækjum, og miðað við þær kannanir, sem viðskiptabankarnir hafa haft á þessu máli á s.l. ári, eins og ég vék að áðan, er ætlun þeirra, að það mundi aðeins vera í fáum tilfellum, sem til slíkrar innheimtustöðvunar þyrfti að koma.

Þetta eru þá þær tvær brtt., sem n. flytur sameiginlega, sem ég nú hef gert grein fyrir. Ýmis önnur atriði hafa verið rædd í sambandi við frv., og þar skal ég fara mjög fljótt yfir sögu.

Það hefur verið rætt um vextina og hv. 1. þm. Norðurl. v. vildi ákveða vextina í frv. Þar eru þau ákvæði í 2. gr., að vaxtakjörin skuli ákveðin af stjórn stofnlánadeildarinnar að höfðu samráði við ríkisstj., og fjhn. hefur fengið þær upplýsingar, að ráðagerðir muni hafa verið um það milli ríkisstj. og stofnlánadeildar, að þessir vextir yrðu 61/2 %, eða eins og útlánavextirnir hjá fiskveiðasjóði eru núna.

Það er talað um viðskiptabanka í 2. gr. og var töluvert mikið til umr, innan fjhn., þar sem segir, að lán þessi skuli aðeins veitt gegn veði í fiskiskipum, vinnslustöðvum og vélum sjávarútvegsins og með einfaldri ábyrgð viðskiptabanka viðkomandi fyrirtækis. Hér hefur í raun og veru verið átt við þá viðskiptabanka, sem helzt gæti verið um að ræða fyrst og fremst, þ.e. Útvegsbankinn og Landsbankinn, en aðrir viðskiptabankar ríkisins koma auðvitað þarna líka til greina og aðrir viðskiptalaankar, ef eru. En þetta ber að skilja svo, að það hefur verið meiningin að taka þetta við viðskiptabankana, en þó finnst mér gæta nokkurs misskilnings, sem fram kemur í nál. frá minni hl. fjhn., þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessi lán, sem hér er um að ræða, mega því ekki vera þeim skilyrðum bundin, að þau fari eingöngu til greiðslu á bankaskuldum.”

Það er ekki skilyrði um það hér í l., að þau fari til greiðslu á bankaskuldum, en það er skilyrði, að viðskiptabankarnir ábyrgist þessi lán. Ef viðskiptabankarnir fallast á, að önnur lán en bankalán greiðist með þessum stofnlánum, þá er það þeim sjálfum í sjálfsvald sett, viðskiptabönkunum, sem eiga að taka ábyrgðina. En þeir ráða því hins vegar, vegna þess að þeim er ætlað að taka ábyrgðina, hvort þeir vilja taka á sig ábyrgð af svo miklum lánum hjá viðkomandi fyrirtæki, að þau fari umfram það að gera upp skuldbindingar við sjálfan bankann og einnig til þess að gera upp aðrar lausaskuldir. Þetta fer sjálfsagt í framkvæmdinni töluvert eftir aðstöðu hinna einstöku fyrirtækja, mati bankastjórnanna á þeim og aðstöðu viðskiptabankanna sjálfra, því að eins og ég sagði áðan, er gert ráð fyrir því, að þeir verði í öllum meginatriðum að bæta sína aðstöðu við Seðlabankann sem nemur þeim lánum, sem viðskiptafyrirtækjum þeirra eru veitt frá stofnlánadeildinni. Það mætti þess vegna segja, að ef það væru alveg 100%, þá væri það svo, ef gerðar eru upp 10 millj. kr. lausaskuldir — við skulum segja við Útvegsbankann — með löngu láni til stofnlánadeildarinnar, þá á hann að bæta sína aðstöðu við Seðlabankann um þessar sömu 10 millj., annaðhvort lækka sínar skuldir við Seðlabankann sem því svarar eða auka innistæður sínar sem þessu svarar. Þetta getur auðvitað bankinn gert, enda þótt hann taki inn í lánveitingarnar aðrar skuldbindingar. Það færi að sjálfsögðu eftir því, hvað greiðslugeta hans á hverjum tíma væri mikil. M.ö.o.: hann gæti fallizt á, að inn í lánabreytinguna væru tekin lán til að breyta lausaskuldum við aðra aðila en bankann sjálfan. Til að skýra þetta nánar gæti vel verið um að ræða fyrirtæki, sem skuldaði 5 millj. öðrum og 5 millj. bankanum. Ef bankinn ákveður að taka þessar 5 millj. hjá öðrum inn í lánabreytinguna, þá er það vegna þess, að hann engu að síður treystir sér til þess að bæta sína aðstöðu við Seðlabankann um hinar umræddu 10 millj. og eykur þá sín útlán sem þessum 5 millj. nemur. En í sambandi við sjálfa lánabreytinguna eða konverteringuna, eins og hún hefur verið nefnd, er í sjálfu sér ekki gert ráð fyrir neinni nýrri útlánaaukningu, og hvort í sambandi við hana verður hægt að taka aðrar skuldir en við banka, fer því eftir aðstöðu og mati viðskiptabankanna.

Í 4. gr. er talað um, að lánveitingar samkv. lögum þessum séu háðar ákvæðum 1, um stofnlánadeildina frá 1946, þó ekki ákvæðum 3.–11. gr. Þau skipta í raun og veru engu máli, þessi ákvæði 3.–11. gr., nema eitt, og það er ákvæðið um, að ríkið ábyrgist allar skuldbindingar í sambandi við lán stofnlánadeildarinnar frá 1946, en þessi ríkisábyrgð fellur niður með þessu ákvæði, því að hún er í 4. gr. og gildir ekki lengur. Í staðinn fyrir ríkisábyrgðina kemur þá þessi umtalaða ábyrgð viðskiptabankanna á öllum lánunum, sem samkv. þessum lögum verða veitt.

Ég vil leyfa mér að víkja aðeins örfáum orðum að einu atriði, sem nokkuð hefur komið til umr. hjá okkur í fjhn., og það er ákvæði 8. gr. reglugerðarinnar, sem skýrir nánar ákvæði frv., en þar er sagt, að hámarkslán að viðbættum öðrum lánum, sem á hinum veðsettu eignum hvíla, skuli vera 70% af matsverði. Svo er heimilt, að stofnlánadeildin geti jafnvel lækkað þetta hlutfali. Meginhugsunin er sem sagt sú, að þegar lánabreytingunni væri lokið og búið að breyta því, sem breytt verður af lausum lánum í föst lán, þá verða þó öll föst lán, eldri og yngri, viðkomandi fyrirtækja ekki hærri en svo, að þau nemi 70% af matsverði eignanna, sem um er að ræða, hinna veðsettu eigna. Það getur verið töluvert matsatriði, hvort hér á að miða við 70%. Sumum finnst það nokkuð lágt. (Gripið fram í.) Það er sérstök matsnefnd samkv. l., sem metur þessar eignir, og hefur þegar verið skipuð og er tekin til starfa, þriggja manna matsnefnd. Ég skal koma að því svolítið seinna. Það hefur að vísu verið upplýst í fjhn., að það væri skilningur ríkisstj., að utan við þessi 70% mætti líta á lánin, sem veitt hafa verið á undanförnum árum til atvinnuaukningar til einstakra fyrirtækja, þó að þau yrðu umfram þetta, þau eru, eins og hv. þm. er kunnugt um, með nokkuð sérstökum hætti. Ég vil segja fyrir mitt leyti líka, að það er dálítið erfitt að setja svona alveg tiltekið mark, 70%, og ég viðurkenni, að það kann að vera mikið matsatriði, hvort þetta ætti að vera 70%, 75% eða jafnvel 80%. En þetta er nú ekki ákveðið í l., heldur í reglugerðinni, og ég held, að ef framkvæmdin sýndi, að hér þyrfti einhverju til að hnika, þá ætti að vera auðvelt að gera það, og í sjálfu sér væri langæskilegast, að þetta hlutfall gæti verið sem hæst. En veruleikinn er ekki alltaf það æskilegasta, sem við eigum við að glíma, og þetta atriði kynni kannske að verða í einstökum atriðum erfitt í framkvæmd. En ég held, að það mundi sjást miklu betur, þegar fram í sækir og hin einstöku fyrirtæki verða tekin til athugunar og mötin liggja fyrir. En um eignarmatið vil ég segja, að það er í 2. gr., síðustu mgr., ákvæði um það, eins og þar segir, að áður en lán er veitt, skal fara fram nýtt mat hinna veðsettu eigna, þar sem þær skulu metnar til endurkaupsverðs að frádregnum afskriftum, er miðist við rýrnun eignarinnar, frá því að hún varð til. Í reglugerðinni eru svo nánari ákvæði um matsnefndina, eins og segir þar í 7. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Matsnefnd skal meta þær eignir, sem í ráði er að veðsetja stofnlánadeildinni. Matsnefndin skal skipuð þrem mönnum, einum tilnefndum af stofnlánadeildinni, einum af fjmrn. og hinum þriðja af Landsbanka Íslands, viðskiptabanka, og Útvegsbanka Íslands sameiginlega. Matsnefndin getur með samþykki stjórnar stofnlánadeildarinnar skipað menn til þess að meta eignir á sínum vegum, enda skal hún endurskoða matið og staðfesta það.“

Svo kemur meginreglan úr l., að eignir skuli metnar til endurkaupsverðs að frádregnum eðlilegum afskriftum, er miðist við rýrnun eignarinnar, frá því að hún varð til.

Það er nokkuð langt síðan þessi matsnefnd var skipuð, og hún hefur, eftir því sem ég bezt veit, þó að ég hafi ekki fylgzt náið með því, hagað störfum sínum þannig að setja almennar reglur um mötin og mun síðan fá undirmatsmenn, eins og segir í reglugerðinni, til þess að framkvæma mötin eftir þeim meginsjónarmiðum og meginreglum, sem hún gefur þeim fyrirmæli um, og sjálf verður aðalmatsnefndin að bera ábyrgð á mötunum gagnvart stofnlánadeildinni.

Þetta atriði um matið hefur töluvert verið rætt innan fjhn. Það má segja, að það sé nokkuð ný meginregla, sem þarna er um rætt, þ.e.a.s. að meta til endurkaupsverðs, hvort sem maður notar orðið endurkaupsverð eða verðgildi þess, sem kosta mundi að byggja þessi fyrirtæki núna, að frádreginni þeirri rýrnun, sem átt hefur sér stað, frá því að fyrirtækjunum var komið á fót. En það ber líka að hafa þessa meginreglu í huga, þegar rætt er um það atriði, sem ég vék að áðan, að lánið megi ekki að hámarki fara yfir 70% af slíku matsverði, sem hér er um að ræða.

Þegar þetta frv. kom fyrst til umr. hér í hv. Nd., var nokkuð gagnrýnt, að gefin hefðu verið út brbl. um þetta mái. Í sjálfu sér skiptir það nú ekki máli, úr því sem komið er. En þó vil ég vekja athygli á því, að miðað við það, hvernig gangur mála er nú og erfitt að koma löggjöf í gegnum þingið, þá hygg ég, að það sé siður en svo álösunarvert, eins og þetta mál er til orðið, en að sumu leyti til mikils hagræðis og einnig til bóta fyrir þm. Reglugerðin hefur einnig legið fyrir til athugunar, sem gefin var út samkv. brbl., og það hefur ekki þurft að tefja neitt framgang málsins, því að það hefur verið unnið og unnið mjög rösklega að þessum málum allan þann tíma, sem málið hefur verið til meðferðar hér í þinginu. Það má segja, að þetta væri kannske vafasöm meðferð, ef menn hefðu búizt við mjög miklum skoðanamun um þetta mál. En þegar það er ekki, tel ég, að það hafi verið mjög vel ráðið að viðhafa þessa meðferð málsins og geti ekki orðið til neins nema góðs og menn átti sig betur á efninu. Auk þess er þar með komið í veg fyrir töf á framkvæmd mjög mikilvægs máls. Ef ekki hefði átt að hafa þennan hátt á, var í raun og veru hinn kosturinn nauðugur, sem við þekkjum nú hér á þinginu, en er í sjálfu sér ekki æskilegur, og það er, þegar ríkisstj. þarf að hraða málum í gegnum þingið, þannig að þm. vinnist ákaflega naumur tími til þess að átta sig á þeim, kannske á einum eða tveimur dögum eða einni nóttu, eins og stundum hefur þekkzt og þá ekki um lítilvægustu málin.

Nú mætti aðeins spyrja í sambandi við það, sem fram hefur komið í máli mínu um þetta mál: Hvað leysir eiginlega þetta mál? Leysir þetta nokkurn vanda? Því hefur verið haldið fram, að það sé ekki hér um að ræða að veita neitt nýtt fé til þeirra fyrirtækja, sem frv. þetta tekur til. Enda þótt svo sé ekki og það sé rétt, þá er hér hins vegar að mínum dómi um mjög mikilvægt mál að ræða. Í sambandi við framkvæmd þessa frv. fer fram mjög almennt uppgjör á efnahag þeirra fyrirtækja, sem frv. tekur til. Og það á upp úr því að fást sambærilegt efnahagsyfirlit fyrirtækjanna og auk þess sambærileg möt á eignum þeirra allra. Ég tel þetta ákaflega mikilsvert. Bankarnir hafa í samvinnu við stofnlánadeildina undirbúið sérstök umsóknareyðublöð í sambandi við framkvæmd þessa máls, og þar er sem sagt gert ráð fyrir því, eins og ég segi, að það verði sambærileg uppgjör á efnahagnum og langflest af þessum fyrirtækjum muni hér koma til greina. Það er að vísu vel hugsanlegt, að fyrirtækin biðji ekki öll um neina lánabreytingu. En bankarnir hafa báðir engu að síður óskað eftir því við matsnefndina, sem skipuð hefur verið, að hún láti meta eignir allra þeirra viðskiptafyrirtækja, enda þótt viðkomandi viðskiptafyrirtæki mundu ekki biðja um breytingu á lánum. Þetta er mikilvægt, og miðað við þær reglur, sem gert hefur verið ráð fyrir að lánin fari eftir, er að því stefnt, að þegar búið er að veita þau stofnlán, sem fyrirtækin hafa ekki getað fengið á undanförnum árum, þá eigi rekstur fyrirtækjanna að auðveldast svo, að þau þurfi ekki að fá nema allverulega miklu minna að láni út á sínar afurðir, út á sína framleiðsluvöru, frystan fisk, saltaðan og hertan og hvað annað, sem um er að ræða. Á undanförnum árum og upp á síðkastið hefur þetta verið svo vegna greiðsluerfiðleikanna, að fyrirtækin hafa í raun og veru þurft að fá allt að 100% eða allt verðmætið lánað, skömmu eftir að framleiðsluvaran er tekin til vinnslu eða er í miðjum klíðum í vinnslu, og er þá augljóst, að þau komast ekki hjá því að lenda í miklum greiðsluerfiðleikum, því að alltaf hleður áframhaldandi vinnsla á sig kostnaði o.s.frv. En hugsunin með þessu er sú, að eftir lánabreytingarnar, a.m.k. hjá heilbrigðum fyrirtækjum, sem eðlilegt er að falli undir þetta, gæti framkvæmd þessara mála komizt í það horf, að fyrirtækin þyrftu að jafnaði ekki að fá lánað nema kannske um 70%, eins og ráðgert hefur verið, af verðmæti framleiðsluvörunnar. Þá á hvert fyrirtæki eða hver útgerðarmaður eða hver aðili, sem hér á hlut að máli, 30% af sínum verðmætum á hverjum tíma í rekstrinum, og þegar hjólið er farið að snúast með þessum hætti, þá koma þessi 30% allajafna inn í reksturinn, eftir því sem salan fer fram og andvirðinu er skilað erlendis frá, og þar kemur alveg nýtt rekstrarfé til þessara fyrirtækja, sem hefur ekki verið fyrir hendi á undanförnum árum. Þess vegna er það mín skoðun, að reksturinn mundi stórlega auðveldast og þarna skapast nýir rekstrarfjármöguleikar, enda þótt hitt sé rétt, að ekki sé gert ráð fyrir nýju fjármagni, eins og ég gerði grein fyrir áðan, til þeirra útlána, sem stofnlánadeildin veitir þarna til lengri tíma, heldur sé þar aðeins um að ræða breytingu á stuttum lánum í löng lán.

Með þessu móti, þeim almennu uppgjörum og nýju mötum, sem fara fram á eignum útgerðarfyrirtækjanna og vinnslustöðvanna, skapast að mínum dómi grundvöllurinn að heilbrigðara og eðlilegra framtíðarskipulagi í þessum málum, og ég vil aðeins ljúka mínu máli með því að vekja athygli á því, að hér er verið að bæta úr syndum liðins tíma, bæta úr fjárfestingarlánaskortinum á undanförnum árum. Það dugir auðvitað ekki að gera það núna og gera borðið hreint, ef svo má segja, ef ekki er um leið séð fyrir eðlilegum stofnfjárlánum í framtiðinni til þessara fyrirtækja. Það hlýtur því að vera það mál, sem næst rekur á eftir þessu, þegar þessar framkvæmdir samkv. þessu frv. hafa farið fram, að sjá þessum fyrirtækjum og þá kannske öðrum, eins og talað hefur verið um, í landbúnaði og iðnaði, fyrir nægjanlegum stofnlánum, því að við verðum að gera okkur grein fyrir því, að ört vaxandi þjóð, eins og við Íslendingar, verður á hverjum tíma að gæta þess að efla og auka nægjanlega sína föstu fjármuni og þá fyrst og fremst í framleiðslustarfseminni, bæði til sjávar og sveita.