28.02.1961
Neðri deild: 70. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég hef skilað séráliti um þetta frv. á þskj. 421. Ekki er það þó vegna þess, að það sé nokkur ágreiningur um það í n., að það eigi að samþykkja þetta frv. Nm. eru allir sammála um, að það sé þörf fyrir þessa lagasetningu og þær lánveitingar, sem hér er stofnað til.

Samkv. 1. gr. frv. á að opna nýjan lánaflokk hjá stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbankann í þeim tilgangi að veita lán til þeirra, er stunda sjávarútveg og fiskvinnslu. Og það er enginn vafi á því, að það er brýn þörf fyrir þessar lánveitingar, til þess að þessi fyrirtæki geti greitt af sinum lausaskuldum, sem á þeim hvíla nú. Það er vafalaust alveg rétt, sem haldið hefur verið fram, að hjá þessu verði ekki komizt, ef forða á stöðvun atvinnurekstrar hjá mörgum af þessum fyrirtækjum.

Þegar ríkisstj. lagði fram á síðasta þingi frv. sitt um efnahagsmál, sagði stjórnin í aths., sem frv. fylgdu, m.a., að það væri megintilgangur þeirrar stefnubreytingar, sem ríkisstj. legði til, að framleiðslustörfum og viðskiptalífi landsmanna sé skapaður traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöllur en atvinnuvegirnir hafa átt við að búa undanfarin ár. Þrátt fyrir þennan megintilgang hefur svo til tekizt á fyrsta stjórnarári núv. hæstv. stjórnar, að mjög hefur versnað hagur atvinnuveganna og atvinnufyrirtækja. Það þurfti ekki að gera slíkar ráðstafanir, sem hér er stefnt að, í ársbyrjun 1960 vegna útgerðarinnar. Útgerðarfyrirtækin gátu þá hafið rekstur sinn án slíkra ráðstafana. En nú hins vegar er þörf fyrir þessar sérstöku lánveitingar. Af þessu sést, að hagurinn hefur versnað árið 1960. Þar koma til ýmsar orsakir og áreiðanlega ekki sú veigaminnsta, að ýmsar þær ráðstafanir, sem gerðar voru i efnahagsmálum á þingi í fyrra, hafa lagt miklar byrðar á atvinnureksturinn. Má þar til nefna t.d. vaxtahækkunina, hina miklu vaxtahækkun, sem hefur reynzt ákaflega þungur baggi á mörgum einstaklingum og atvinnufyrirtækjum, þyngri en svo, að þeir fái undir því risið.

Í 2. gr. frv. segir, að lánið skuli aðeins veitt gegn veði í fiskiskipum, vinnslustöðvum og vélum sjávarútvegsins og með einfaldri ábyrgð viðskiptabanka viðkomandi fyrirtækis. Það er samkv. þessu skilyrði fyrir lánveitingu, að bankaábyrgð sé til tryggingar láninu til viðbótar öðrum tryggingum. Í reglugerð, sem ríkisstj. hefur gefið út, segir enn fremur, að lánin skuli greiðast í reikning þess viðskiptabanka hjá Seðlabankanum, sem lánið ábyrgist, enda getur viðskiptabankinn sett það skilyrði, að lánsfénu sé varið til að greiða skuldir við hann eða aðrar skuldir til skamms tíma, sem hann ákveður. Það kemur þannig fram í reglugerðinni, að það sé fyrst og fremst ætlazt til þess, að þessi lán fari til að greiða skuldir við bankana, lausaskuldir, enda kom það fram í ræðu hv. frsm. meiri hl., þó að það sé ekki útilokað, að lántakendur geti fengið eitthvað af lánsfénu til greiðslu á öðrum skuldum, en þá er það algerlega háð samþykki viðskiptabankans, algerlega háð samþykki hans.

Ég tel ekki eðlilegt, að það sé ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir þessum lánum, að bankaábyrgð sé sett til viðbótar öðrum tryggingum. Það getur vitanlega verið um ýmsar aðrar tryggingar að ræða, alveg jafnöruggar, og því ástæðulaust þess vegna að setja þetta ófrávíkjanlega skilyrði, og ein af þeim brtt., sem ég flyt við frv., sú fyrsta, er um að breyta þessu, að í staðinn fyrir ákvæðið um, að lán skuli veitt gegn veðum í eignum og með einfaldri ábyrgð viðskiptabanka viðkomandi fyrirtækis, skuli koma: „eða öðrum tryggingum, sem metnar verða gildar, svo sem ábyrgð banka eða ríkis.“ Fleiri tegundir trygginga getur vitanlega verið um að ræða.

Ég tel einmitt ástæðu til að gera þessa breytingu, að setja ekki það skilyrði, að bankaábyrgð sé fyrir hendi, m.a. vegna þess, að ég tel alveg óhjákvæmilegt, að ýmsir lánveitendur fái hluta af sínu lánsfé til þess að greiða með því skuldir við aðra en banka. Það er vissa fyrir því, að margir þeir, sem þurfa á slíkum lánum að halda, skulda ýmsum öðrum en bönkum, og sé þar um verulegar lausaskuldir að ræða, geta þær verið þeim engu síður erfiðar en bankaskuldirnar og beinlínis valdið því, að þeir geti ekki haldið áfram sínum atvinnurekstri, en þá tel ég ekki heldur eðlilegt eða sanngjarnt að ætlast til þess, að viðskiptabankarnir gangi í ábyrgð fyrir lánum, að því leyti sem þau fara til greiðslu á skuldum við aðra en bankana.

Í frv., eins og það liggur fyrir, er ekkert sagt um það, á hvern hátt stofnlánadeild sjávarútvegsins eigi að afla fjár til þessara lánveitinga. Það er ekki kunnugt, að stofnlánadeildin ráði yfir neinu lausu fé, en hins vegar er gert ráð fyrir því, að þessar lánveitingar muni nema í heild hárri upphæð, það er talað um nokkur hundruð millj. kr. Það þarf því einhvern veginn að sjá fyrir fé í þessar lánveitingar, og í reglugerðinni er sagt, að stofnlánadeildin geti stofnað til skuldar við Seðlabankann vegna þessara lánveitinga. Ég tel sjálfsagt, að ákvæði sé þá einnig sett í sjálf lögin, og fjhn. er sammála um það að bæta úr þessu og flytur brtt. á þskj. 413 um þetta atriði. Fyrri brtt. n., sem enginn ágreiningur er um, er einmitt um það, að við 1. gr. bætist, að stofnlánadeildin geti stofnað til skuldar við Seðlabankann í þessu skyni.

Í frv. segir ekkert um það, við hvað skuli miða upphæðir veittra lána. Hins vegar er ákvæði um það í reglugerðinni, eins og hv. frsm. meiri hl. n. gerði grein fyrir. Þar segir, að lánin skuli miða við það, að þau fari ekki fram úr 70% af matsverði eigna, sem lántakandi hefur og setur að veði.

Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, getur það verið ýmsum vandkvæðum bundið að setja þannig ákveðið mark, og ég hefði talið þess vegna rétt, að í sjálfum lögunum væri eitthvað ákveðið um, við hvað skuli miða lánin, en þó þannig, að þar væri ekki miðað við ákveðinn hundraðshluta af eignum lántakanda, heldur væri þetta ákvæði þannig, að lánveitandi hefði þar nokkru meira frjálsræði um ákvörðun lánanna.

Ég legg því til í einni af brtt. mínum, að við 2. gr. bætist ný mgr., sem ég legg til að verði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárhæð láns hverju sinni fer eftir ákvörðun stjórnar stofnlánadeildarinnar. Séu lánin við það miðuð, að lántakandi geti greitt lausaskuldir og haldið áfram atvinnurekstri sínum, enda sé verðmæti þeirra eigna, er hann veðsetur til tryggingar láninu, nægilegt til greiðslu á því, eða aðrar tryggingar settar, er lánveitandi metur gildar.“

Ég vil vekja athygli á því, að ég segi þarna ekki, að lántakandi eigi að geta greitt allar lausaskuldir sínar, heldur grynnt það mikið á lausaskuldum, að hann geti haldið áfram atvinnurekstri sínum. Það er það, sem fyrir mér vakir.

Þá er það um vextina af lánunum. Um það atriði segir í 2. gr. frv., að vaxtakjörin skuli ákveðin af stjórn stofnlánadeildarinnar, að höfðu samráði við ríkisstjórn.

Ég tel eðlilegra, að sett sé í lögin ákvæði um vextina, og flyt því brtt. um, að við þessa mgr. bætist: „Og séu ársvextirnir eigi hærri en 5%.“ Ég geri ráð fyrir, að nægilega örðugt verði fyrir mörg af þessum fyrirtækjum að borga þá vexti, þó að þeir verði ekki ákveðnir hærri.

Við 3. gr. frv. flyt ég dálitla brtt. Upphaf greinarinnar í frv. er þannig núna: „Telji stjórn stofnlánadeildarinnar, að fengnum tillögum frá viðskiptabanka umsækjanda“ o.s.frv., — ég vil bæta þarna inn í orðunum „ef um er að ræða“. Þetta er í samræmi við það, að ég hef haldið því fram, að lántakendur ættu að geta fengið þarna lán til greiðslu á skuldum hjá öðrum en bönkunum, og vel geta verið lántakendur, sem þyrftu að koma til greina þarna, en ekki hafa neinn sérstakan viðskiptabanka.

Á liðnum árum hefur á ýmsum stöðum á landinu verið komið upp atvinnufyrirtækjum fyrir atbeina sveitarfélaga og með aðstoð þeirra til atvinnuaukningar á viðkomandi stöðum og til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Mörg af slíkum fyrirtækjum hafa notið aðstoðar ríkisins, bæði með lánum af atvinnuaukningarfé og á annan hátt, t.d. með ríkisábyrgðum. Þessi fyrirtæki munu yfirleitt vera á sviði sjávarútvegsins, og það má fastlega gera ráð fyrir því, að hagur þeirra ýmissa sé þannig um þessar mundir, að þau hafi brýna þörf fyrir aðstoð til þess að geta haldið áfram sínum atvinnurekstri. Ég legg því til í næstu brtt. minni, það er a-liður 3. brtt., að inn í frv. komi ný grein, þannig orðuð:

Ríkisstj. er heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs stofnlán samkv. þessum lögum, allt að 30 millj. kr., sem veitt kunna að verða með sérstöku tilliti til þess að koma í veg fyrir, að atvinnufyrirtæki, sem komið hefur verið upp með atbeina sveitarfélaga til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, verði að hætta starfsemi sinni í þessum tilgangi. Ríkisábyrgð skal því aðeins veitt, að fyrir liggi meðmæli nefndar þeirrar, er úthlutar atvinnuaukningarfé samkv. 20. gr. fjárlaga.“

Ég get vel búizt víð því, að sum af þessum fyrirtækjum geti ekki sett tryggingar fyrir þeim lánum, sem þau nauðsynlega þurfa að fá til að geta haldið rekstrinum áfram, með öðru móti en því, að þau fái ríkisábyrgð. Samkvæmt minni till. yrði það sú n., sem úthlutar atvinnuaukningarfénu, sem ætti að meta ástæðurnar á hverjum stað og þörfina fyrir slíka ríkisábyrgð.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir til staðfestingar á brbl. frá því 5. jan., er aðeins um lánveitingar til þeirra, er fást við sjávarútveg og fiskvinnslu. En sjávarútvegurinn er ekki eini atvinnuvegurinn, sem skortir tilfinnanlega lánsfé. Það er kunnugt, að þannig er einnig um landbúnaðinn. Það er eins í þeirri atvinnugrein og í sjávarútveginum, að hagur margra bænda hefur versnað mjög á árinu sem leið. Sérstaklega hafa vextirnir, hinir háu vextir orðið ákaflega þungbærir og reyndar óviðráðanlegir ýmsum bændum, sem eru i verulegum lausaskuldum. ýmsar aðrar efnahagsráðstafanir frá árinu í fyrra hafa líka orðið til þess að gera þeim stórum erfiðara fyrir með sinn atvinnurekstur. Verðhækkanir urðu miklar á öllum hlutum. Hins vegar hafa vinnutekjur bænda ekkert hækkað frekar en launafólks, og hefur því orðið mjög erfitt fyrir þá að rísa undir ýmsum útgjöldum í sambandi við búreksturinn, eins og t.d. greiðslum fyrir vélar og tæki til búskapar, sem hafa hækkað mjög í verði. Slík útgjaldaaukning kemur ekki inn í verðlagsgrundvöll landbúnaðarvara, svo að þeir hafa ekki fengið neina verðhækkun á sínum afurðum til að mæta þeim auknu útgjöldum. Það eru aðeins beinar rekstrarvörur, eins og áburður og fóðurvara, sem á að koma inn í verðlagsgrundvöll landbúnaðarvara.

Mér er kunnugt um það, eða svo er þar, sem ég þekki til, að bændur hafa yfirleitt átt miklu örðugra með að gera upp sín ársviðskipti nú um næstliðin áramót heldur en áður. Ég hygg, að þannig sé þetta viða á landinu, og hef reyndar haft af því áreiðanlegar fréttir. Það er því víst, að það er brýn þörf fyrir svipaðar ráðstafanir að því er varðar landbúnaðinn eins og sjávarútveginn. Það má fullyrða, að ýmsir bændur geti ekki haldið áfram sínum búrekstri, nema þeir fái lán til greiðslu á lausaskuldum, sem hvíla ákaflega þungt á þeim, bæði vegna háu vaxtanna og vegna þess, að krafið er um greiðslu á þessum skuldum á skömmum tíma. Og ég tel það alveg tvímælalaust, að bændur eigi fullan rétt á því að njóta svipaðrar fyrirgreiðslu í þessu efni eins og þeir, sem stunda sjávarútveginn.

Þá má einnig minna á það, að þau fyrirtæki, félagsfyrirtæki bænda, sem hafa komið upp vinnslustöðvum fyrir landbúnaðarafurðir á undanförnum árum, hafa flest fengið mjög litil stofnlán til þeirra framkvæmda og búa því við fjárskort af þeim sökum eins og eigendur fiskvinnslustöðvanna.

Ég ber því fram brtt. við frv. um, að inn í það verði bætt ákvæði um sérstaka stofnlánadeild fyrir landbúnaðinn hjá Seðlabankanum. Í till. mínum er gert ráð fyrir því, að sú lánadeild veiti lán til einstakra bænda, er skortir fé til greiðslu á lausaskuldum, og einnig til fyrirtækja, er eiga vinnslustöðvar fyrir landbúnaðarafurðir. Og ég legg til, að sömu reglur gildi um lánveitingar til landbúnaðarins, lánstíma og vexti, eins og um lánin til sjávarútvegsins. Verði á þessa brtt. mína fallizt, fá bændur og þeirra fyrirtæki svipaða fyrirgreiðslu í sínum málum og sjávarútveginum er ætlað í frv. Ég tel það fullkomið réttlætismál og fulla þörf á því, að greitt sé úr málum landbúnaðarins á þennan hátt eins og málum þeirra, sem fást við sjávarútveg. Ég skal — með leyfi hæstv. forseta — lesa brtt. mína, sem um þetta fjaliar, það er b-liður 3. brtt., hún er þannig:

„Stofna skal sérstaka lánadeild við Landsbanka Íslands, seðlabankann, er nefnist stofnlánadeild landbúnaðarins. Deildin veitir lán til að bæta fjárhagsaðstöðu bænda og fyrirtækja, er eiga vinnslustöðvar fyrir landbúnaðarafurðir og skortir fé til greiðslu á lausaskuldum, er á þeim hvíla. Lánin skulu veitt gegn veði í fasteignum og búvélum bænda og fasteignum og vélum vinnslustöðva landbúnaðarins eða öðrum tryggingum, sem metnar verða gildar. Hámarkstími skal vera: Lán út á fasteignir 20 ár og lán út á vélar 10 ár. Vextir skulu vera þeir sömu og af lánum samkv. 2. gr. og mat á eignum fara eftir sömu reglum og þar greinir. Ákvörðun lánsupphæðar hverju sinni fer eftir ákvæðum 2. gr.

Fjár til lánveitinga samkv. þessari grein skal aflað á sama hátt og til lána samkv. 1. gr. Ákvæði 3. gr. um sérstaka athugun á fjárhag umsækjenda, þegar þess er talin þörf, og um tímabundna stöðvun aðfarar skulu einnig gilda um þá, er sækja um lán samkv. þessari grein.“

Það er, eins og ég sagði áðan, gert ráð fyrir því i mínum brtt., að sömu reglur gildi að öllu leyti um þessar lánveitingar frá væntanlegri stofnlánadeild landbúnaðarins eins og frá stofnlánadeild sjávarútvegsins. Sömu reglur eiga að gilda um ákvörðun lána, tryggingar fyrir þeim, lánstímann, um vexti og annað lánunum viðkomandi. Ég tei það alveg tvímælalaust heppilegast að setja inn í þessi lög slik ákvæði, svo að ekki þurfi síðar sérstaka lagasetningu um lánveitingar til landbúnaðarins. En eins og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hl. n., þá hefur ríkisstj. falið sérstökum mönnum að athuga um ástæður bænda og fyrirtækja þeirra og þá væntanlega með það fyrir augum, að greitt verði úr þeirra málum með svipuðu móti og hér er ætlað að gera fyrir sjávarútveginn. Ég tel því, að það væri langeðlilegast að setja ákvæði um þær lánveitingar inn í þetta frv.

Að síðustu flyt ég svo till. um breyt. á fyrirsögn frv., sem eðlilegt er að breytist, ef mínar brtt. verða samþykktar. Legg ég til, að fyrirsögnin verði: „Frumvarp til laga um stofnlán hjá Landsbanka Íslands, seðlabankanum.“

Það er, eins og ég tók fram, enginn ágreiningur um það í n., að rétt sé að samþykkja frv., og ég legg til, að það verði samþykkt með þeim breytingum, sem ég hér hef gert grein fyrir og ég flyt tillögur um á þskj. 421.