16.03.1961
Neðri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (985)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls hér í hv. d. flutti minni hl. hv. fjhn. á þskj. 421 ýmsar brtt. við frv. Þ. á m. var brtt. um, að inn í frv. væri bætt nýrri gr., á eftir 4. gr. frv., og skyldi sú nýja grein hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt að ábyrgjast f.h. ríkissjóðs stofnlán samkvæmt þessum lögum, allt að 30 millj. kr., sem veitt kunna að verða með sérstöku tilliti til þess að koma í veg fyrir, að atvinnufyrirtæki, sem komið hefur verið upp fyrir atbeina sveitarfélaga til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, verði að hætta starfsemi sinni í þessum tilgangi. Ríkisábyrgð skal því aðeins veitt, að fyrir liggi meðmæli n. þeirrar, er úthlutar atvinnuaukningarfé samkvæmt 20. gr. fjárl.“

Þessi brtt. hv. minni hl. fjhn., sem ég nú hef lesið, var felld við atkvgr, hér í þessari hv. d. við 2. umr. ásamt fleiri brtt., sem fram voru bornar af minni hl. nefndarinnar.

Nú hef ég leyft mér að taka þessa till. upp á ný, þó þannig, að breytt er heimildarupphæðinni, sem gert var ráð fyrir í till. minni hl. n., og settar 25 millj. kr. í staðinn fyrir 30 millj. Hér er því um nýja till. að ræða, sem ég vildi mega mælast til við hæstv. forseta að hann leitaði afbrigða fyrir.

Ég held, að segja megi um þetta frv., að þegar það kom fram í vetur, hafi ýmsir, sem sjávarútveg stunda, beint og óbeint verið í nokkrum vafa um, hvað í frv. fælist, og ég held, að það hafi ekki verið að ófyrirsynju, því að sum ákvæði þess hafi verið og séu raunar enn nokkuð óljós, a.m.k. fyrir þeim, sem hafa ekki sérstaklega fjallað um þetta mál. Ég veiti því m.a. athygli, að hv. fjhn. lagði til á sínum tíma fyrir 2. umr., að sett yrði inn í frv. ákvæði, sem líklegast hefur vantað þar að hennar dómi, til þess að tryggja fjáröflun til þeirrar starfsemi, sem hér er um að ræða, sem hún virðist ekki hafa talið nægilega tryggða með frv. eins og það var orðað.

Frv. er, eins og kunnugt er, borið fram til staðfestingar á brbl., sem hæstv. ríkisstj. gaf út skömmu eftir nýárið. En síðan frv. kom fram, hefur verið gefin út reglugerð samkvæmt brbl., og eru í þessari reglugerð ýmis nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

Það virðist koma fram í frv. og í þessari reglugerð, að fyrirætlanir varðandi tryggingar fyrir þeim lánum, sem hér er ráðgert að veita, séu nokkuð strangar, þar sem er farið inn á þá óvenjulegu leið að krefjast bankaábyrgðar fyrir láni, sem veitt er gegn veði í eignum, og sett ákvæði um það, að skuldir, eftir að lán hafa verið tekin samkvæmt þessum lögum, megi ekki fara fram úr tilteknum hluta af matsverði eigna. Nú kann að vísu að vera og er að sjálfsögðu hægt að breyta því reglugerðarákvæði, sem um er að ræða, síðar. Eigi að síður og vegna þess, sem í frv. stendur, get ég ekki sætt mig við það, að með öllu sé hafnað þeirri hugmynd, sem fólst í brtt. mínni hl. hv. fjhn., og hef því viljað gera þá tilraun, sem gerð er með brtt. á þskj. 516, til þess að fá það atriði, sem hún fjallaði um, tekið upp til athugunar í d. á ný.

Eins og kunnugt er hv. þm., hefur víða um land í seinni tíð verið hafizt handa um að efla atvinnurekstur eða koma upp atvinnurekstri á ýmsum stöðum við sjávarsíðuna, þar sem hann var lítill fyrir, og ég þarf ekki að nefna dæmi um slíkt, þau eru mörg og af ýmsu tagi. Slíkum atvinnufyrirtækjum hefur allvíða verið komið upp með aðstoð sveitarfélaganna og að þeirra frumkvæði og með þeirra atbeina, vegna þess að á þessum stöðum, sem margir eru fámennir, var ekki neitt útgerðarfjármagn fyrir hendi. Útgerð hafði verið lítil á þessum stöðum sumum hverjum, m.a. vegna þess, að ýmis skilyrði vantaði, svo sem hafnarskilyrði, þó að hins vegar væru fyrir hendi þau skilyrði, sem mestu skipta, þ.e.a.s. fiskimiðin úti fyrir ströndinni. En af því að þarna var ekki fyrir hendi á þessum stöðum útgerðarfjármagn, var það viðast svo, að sveitarfélögin höfðu forgöngu um þessa hluti og hafa fengið til þess velviljaða aðstoð ríkisvaldsins. Þau fyrirtæki, sem hér er um að ræða allvíða um landið og fyrst og fremst eru stofnuð til þess að koma í veg fyrir, að fólkið streymi burt úr þessum byggðarlögum, og til þess að skapa framtíðarundirstöðu, þau eru áreiðanlega a.m.k. mörg af þeim þannig sett eða a.m.k. hætt við því, að þau séu þannig sett, að þau fullnægi ekki þeim skilyrðum, sem þetta frv. ásamt reglugerðinni setja fyrir aðstoð samkvæmt þessu frv. En auðvitað hafa þessi atvinnufyrirtæki engu að síður orðið fyrir áföllum af ýmsu tagi, eins og verða vill um útgerð, engu síður en önnur. Ef það er ekki ætlun ríkisvaldsins, sem ég raunar vil ekki gera ráð fyrir að sé, að láta það ráðast, þó að slík almannafyrirtæki til eflingar byggðinni í sjávarplássum úti um land leggist niður eða hætti rekstri sínum, þá hygg ég, að óhjákvæmilegt sé að samþykkja ákvæði eins og það, sem hér er um að ræða og felst í brtt. á þskj. 516, og veita þannig hæstv. ríkisstj. möguleika til þess að koma þarna við sérstakri aðstoð. Miðað við þá upphæð, sem gert er ráð fyrir að lánuð verði út í heild samkv. þessu frv., er þessi ábyrgðarheimild, sem í brtt. er lagt til að veitt verði, ekki há. Og þar er gert ráð fyrir, að slík ríkisábyrgð, ef til kæmi, verði veitt á þann hátt, að leitað verði umsagnar þeirrar nefndar, sem Alþingi hefur kjörið til þess að úthluta atvinnuaukningarfé samkv. 20. gr. fjárlaga.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. En ég vildi mega vænta þess, að hv. þm. sæju sér fært að samþykkja þessa brtt., og hefði mér eiginlega fundizt ekki vera úr vegi, að hv. n., sem málið hefur haft til meðferðar, fjallaði sérstaklega um þetta atriði. Ég er viss um, að þegar farið verður að framkvæma þetta frv., ef að lögum verður, kemst hæstv. ríkisstj. að raun um, að hér er um vanda að ræða, sem frv. leysir ekki, en þessi tillaga mundi skapa vissa möguleika til þess að leysa.