16.03.1961
Neðri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (987)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég hafði framsögu af hálfu meiri hl. fjhn. i þessu máli, og ég held, að það hafi komið skýrt fram í þeirri framsöguræðu, sem ég hélt þá, að menn yrðu að gera sér grein fyrir, að þetta mál hefði frá öndverðu verið takmarkað og ætti ekki að líta á það viðtækar en því upphaflega hefði verið markaður bás. Það má segja, að með því hafi verið dregið úr og málið takmarkað og kannske liti málið fallegar út og væri stærra, ef það næði, eins og lagt hefur verið til, til stofnlána í þágu landbúnaðarins, til stofnlána í þágu iðnaðarins og auk þess væru víðtækar ríkisábyrgðarheimildir í því. En þessu máli er ekki ætlað það, ekki nema breyta stuttum lánum í lengri lán á sviði sjávarútvegsins, ekki annarra atvinnugreina, og með því er ekki kveðið upp úr um það, að þær kunni ekki að þurfa sambærilega fyrirgreiðslu. Ég gerði grein fyrir því, að ríkisstj. hefði upplýst það fyrir nm. í fjhn., að hún hefði þegar stofnað til athugunar á aðstöðu landbúnaðarins eða þörfum landbúnaðarins að þessu leyti.

Nú er hér flutt aftur brtt. sama eðlis og hv. 1. þm. Norðurl. v. flutti við 2. umr. málsins, að ríkisstj, sé heimilt að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs stofnlán samkv. þessum lögum, sem veitt kunna að verða með sérstöku tilliti til þess að koma í veg fyrir, að atvinnufyrirtæki, sem komið hefur verið upp með atbeina sveitarfélaga til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, verði að hætta starfsemi sinni í þessum tilgangi. Það er enginn munur á þessum brtt. annar en sá, að í brtt. hv. 1. þm. Norðurl. v. var ábyrgðarupphæðin 30 millj., en er nú 25 millj. En það er ekki þetta, sem að mínu áliti sker neitt úr í þessu máli, hvort ábyrgðarheimildin er 30 millj., 25 millj., 5 millj. eða 1 millj. Þetta er að mínu áliti annað mál, sem hér er verið að flétta inn í stofnlánadeildarmálið, það mál að breyta stuttum lánum fyrir eina atvinnugrein í lengri lán. Það liggur í fyrsta lagi ekkert fyrir um það, að atvinnufyrirtæki, sem stofnað hefur verið til af sveitarfélögum til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, sé að stöðvast vegna þess, að það skorti ríkisábyrgð. Það liggur ekkert fyrir í sambandi við þetta mál, og er, verð ég að segja, ekki eðlilegt að veita ríkisstj. heimild til þess að ábyrgjast, eins og hér er ætlað, 25 millj. kr., nema eitthvað nánara liggi þá fyrir um það, að þessarar ábyrgðar sé þörf til þess að koma í veg fyrir það, sem hér er rætt um, að atvinnufyrirtækin stöðvíst. En ef það liggur fyrir og verður upplýst og það nú þegar á þessu þingi, að þetta sé svona, sem við höfum ekki fengið vitneskju um enn þá í þessari hv. d., þá segi ég enn fremur, að það er annað mál en hér er um að ræða, og ber að taka það alveg sérstaklega fyrir, hvort Alþingi vill veita ríkisábyrgð til þess að koma í veg fyrir þessa stöðvun, sem hér kynni að vera um að ræða.

Ég er alveg sammála hv. síðasta ræðumanni um það, að þegar verður farið að framkvæma þessa löggjöf, þá mun sjálfsagt koma ýmislegt í ljós, sem bendi til þess, að hún þurfi að vera víðtækari, og um þetta ræddum við í fjhn. En meiri hl. var á þeirri skoðun, að það væri rétt að láta ýmislegt af þessu koma í ljós. Hér er ekki sett löggjöf fyrir tíð og eilífð frekar en endranær. Það er ýmislegt, sem menn eru nú að gera ráð fyrir að geti verið þörf á, en er þó réttara að liggi fyrir; að þörf sé á. Frv., eins og það liggur fyrir, er byggt á undangenginni rannsókn og miðað við niðurstöður hennar, og víðtækara er það ekki. Menn benda að vísu á og segja: Það væri betra að hafa frv. víðtækara. — Fleiri en útvegurinn þurfa þessa aðstoð, bæði landbúnaðurinn og iðnaður, eins og ég sagði áðan, en það er mál út af fyrir sig, sem þyrfti þá að taka til sérstakrar athugunar.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta, en vil aðeins segja það, að ég var á móti till. hv. 1. þm. Norðurl. v. og einnig nú á móti þessari brtt. á þskj. 516. Byggist það á því, að ég tel, að það sé annað mál en hér er um að ræða. Ef fyrir liggur og búið er að upplýsa þingið um, að nauðsyn sé að fá nýjar ríkisábyrgðarheimildir til þess að koma í veg fyrir atvinnustöðvanir, þá ber að taka það mál upp sérstaklega, en ekki í tengslum við það mál, sem hér liggur fyrir.