16.03.1961
Neðri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. ráðh. segir, að málið sé til athugunar hjá sérstökum mönnum og verði að þeirri athugun lokinni gerðar einhverjar ráðstafanir í þessum efnum. Mér sýnist, að jafnvel þótt þessari athugun sé ekki lokið, þá væri mjög auðvelt að setja ákvæði um þessar væntanlegu lánveitingar í þetta frv., sem hér liggur fyrir, til þess að ekki þyrfti sérstaka lagasetningu um það síðar.

Ég fékk nú ekki nein svör um það hjá hæstv. ráðh., hvort gera mætti ráð fyrir því, að stjórnin gæfi út bráðabirgðalög um þessar lánveitingar til landbúnaðarins. Og þá er það eitt, sem ég vildi sérstaklega spyrja hæstv. ráðh. um. Mér fannst það ekki koma nógu greinilega fram í ræðu hans, hvort ætlunin væri, að þessi lán til bænda yrðu aðeins við það miðuð, að þeir gætu greitt víxilskuldir að meira eða minna leyti. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. sé vel kunnugt um það eins og mér, að það eru margir bændur, sem verulegar lausaskuldir hvíla á, þó að þar sé ekki um víxilskuldir að ræða, og ég hefði mjög viljað óska eftir því að heyra frá hæstv. ráðh., hvort stjórnin geri ráð fyrir því að takmarka þessar lánveitingar við það, að bændur geti greitt að einhverju leyti víxilskuldir sínar. Það er vissa fyrir því, að margir bændur þurfa mjög á lánum að halda til þess að geta greitt lausaskuldir, sem á þeim hvíla, bæði við verzlanir og aðra, jafnvel ábyrgðarskuldir til skamms tíma, þó að ekki sé þar um samþykkta víxla að ræða. Ég vildi þess vegna mjög óska eftir því að heyra frá hæstv. ráðh., hvort ekki megi vænta þess, að bændur fái aðstoð til greiðslu á lausaskuldum yfirleitt, í hverju formi sem þær eru, eins og gert er ráð fyrir að útvegsmenn fái samkv. þessu frumvarpi.